Örvitinn

Fermingarföstudagur

Fermingarblaðið fylgir föstudagsmogganum. Fermingarblaðið er 72 síður, Morgunblaðið sjálft 36 blaðsíður auk fjögurra síðna íþróttablaðs.

Forsíðufrétt dagsins fjallar um niðurskurðinn í skólakerfinu. Ráðist á skólann okkar æpir Morgunblaðið í fyrirsögn og vitnar í formann Foreldrafélags Víkurskóla.

Eina Icesave fréttin á forsíðu er lítil klausa um að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af EES þó við höfnum Icesave.

Á fyrstu opnu er frétt um að lagaprófessorar hafi efasemdir um að Icesave lögin standist stjórnarskrá. Sigurður Líndal hefur ekki náð að kynna sér Icesave III. Hvernig stendur á því? Er hann ekki aðal maðurinn?

Síminn stoppaði ekki hjá vetnismanninum sem fékk ansi góða auglýsingu í aukablaði Morgunblaðsins í gær. Ekkert er spáð í hvort fullyrðingar mannsins standist skoðun. Að mínu mati hafa umfjallanir fjömiðla um vetnisbúnað Sveins Hrafnssonar verið afar óábyrgar.

Á blaðsíðu sex er nokkuð vönduð skýringarmynd af hagræðingaraðgerðum í skólakerfi borgarinnar. Meðal þess sem ég sé er að sameina á leikskólann sem dætur mínar voru á við næsta leikskóla við hlið hans (Hálsaborg og Hálsakot í Seljahverfi). Það þykir mér ráðlegt, enda varla meira en fimmtán metrar milli þessara leikskóla og bílastæðið sameiginlegt. Ég þekki ekki önnur dæmi.

Skopmynd dagsins er ekki fyndin. Undir skopmyndinni er frétt af því að fulltrúar í íslensku Icesave-samningsnefndinni sé á þönum þessa dagana út um alla borg að kynna Icesave-samninginn. Á sömu síðu drulla Stakseinar yfir þetta fólk og talar um ónýtan áróður

Búið er að breyta samningsnefndinni um Icesave í sérstaka áróðurstofnun fyrir Icesave-saminginn. Virðist þeim sem hann skipa ekki farast það betur en aðalhlutverkið sjálft.

Er furðulegt að ætla að hinir sérstöku útsendarar Steingríms J. Sigfússonar geti verið í forsvari fyrir "upplýsta" umræðu um málið.

Síðan hvenær þótti gagnrýnivert að samningarnefndarfólk kynni samninginn sem það gerði? Ég hélt það væri einmitt afar eðlilegt.

Gísli Baldur Gíslason skrifar frámuna heimskulegan pistil á tíundu síðu blaðsins. Byrjar á að mála fáránlega svarta mynd af unga fólkinu í dag og fer svo að tala um óvirðingu þeirra sem gagnrýna Hæstarétt útaf úrskurðinum um kosningar til stjórnlagaþings.

Umfjöllun um rýmkaðar rannsóknarheimildir lögreglunnar er gagnrýnislaus. Fram kemur að auknar rannsóknarheimidlir verði ekki veittar nema á grundvelli dómsúrskurðar. Það er ágætt að vita. Ég er samt enn dálítið skeptískur.

Á viðskiptasíðu er fréttin sem vísað er til á forsíðu um að staða Íslands inan EES-svæðisins sé ekki í hættu. Í grunnin er bara verið að segja að íslenskir dómstólar myndu taka ákvörðun um upphæðir og vexti, rökin virðast þau að dómstólar hér séu ekki sjálfstæðir og dæmi okkur að sjálfsögðu í hag. Davíð þekkir sitt fólk!

Málaliðar í Líbíu og staða farandverkamanna frá öðrum Afríkuríkjum. Ég verð að játa að ég hef ekki velt því fyrir mér að fjölmargir blásaklausir farandverkamenn óttast um líf sitt þar sem uppreisnarmenn hafa ráðist á þá vegna gruns um að þeir séu málaliðar Gaddafis.

Leiðarinn heldur áfram þar sem Sandkorn byrjaði og drullar yfir Icesave samninganefndina, kallar hana aldrei annað en áróðursnefndina. Davíð er stundum dálítið krúttlegur í hatursáróðri sínum. Í leiðara er dómsmálaráðherra mærður fyrir að auka rannsóknarheimildir lögreglunnar. Ætli tengsl vararitstjórans við ríkislögreglustjóra hafi eitthvað með þetta að gera?

Illugi Gunnarsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins skrifar aðsenda grein um óvissuna. Hrósar ríkisstjórninni örlítið en dregur svo fram atriði sem honum finnst hafa klikkað.

  1. Hækkun skatta
  2. Hringlandaháttur í uppbyggingu iðnaðar
  3. Upplausn í málefnum sjávarútvegs.
  4. Gjaldeyrishöftin óbreytt

Stór ljósmynd af göngufólki í Elliðaárdal er ekki merkt ljósmyndara.

Friðrik og LimbaugFriðrik Hansen Guðmundsson (sem er nokkuð líkur Rush Limbaugh á myndinni sem birtist með greininni) velur dómstólaleiðina alveg áhyggjulaus.

Eyjólfur Leós bílvirki skrifar Morgunblaðinu og kvartar undan því að hafa ekki fengið endurgreitt eftir að hann féll í kúrs í flugumferðarstjóranámi í Keili og fékk ekki að halda áfram. Er fólk ekki eitthvað að misskilja þessa einkaskóla? Þó þú borgir er ekki þar með sagt að þú þurfir ekki að ná kúrsunum! Annars er hann fyrst og fremst að skrifa um atvinnuleysisbótakerfið sem er ekki að virka nægilega vel.

Ég nennti ekki að lesa greinar um friðlýsingar og Vantajökulsþjóðgarð.

Fjórar síður eru teknar undir minningargreinar og Víkverji segir frá vini sínum sem hefur ekki lengur efni á að fara til útlanda og man þá tíð þegar enginn átti neitt.

Stjörnuspjá dagsins er engin spá!

Já, það er gaman að láta hæla sér fyrir hæfileikana án þess að biðja um það. Áhyggjur varpa skugga á frábæran dag.

Dagurinn var ekkert frábær en ég hef reyndar áhyggjur af tölfræðiprófinu á mánudag. Það er augljóslega eitthvað vit í þessu!

Okkar eigin Osló fær fjórar stjörnur af fimm. Ég veit ekki hve mikið er að marka stjörnugjöf Morgunblaðsins. Hvað fær léleg íslensk mynd fáar stjörnur? Ég get alveg trúa því að þetta sé fín mynd.

Baksíðan segir okkur af fimm strákum í sjöunda bekk Norðlingaskóla sem eru að læra japönsku. "Teiknimyndir kveiktu áhuga strákanna."

Blað dagsins kveður með frétt um að Justin Bieber komi ekki til landsins. Æjæ!

moggamars
Athugasemdir

Matti - 04/03/11 23:50 #

Fermingarblaðið er eins og öll fyrri fermingarblöð, stútfullt af auglýsingum og viðtölum við fólk sem rifjar upp ferminguna sína (já, fötin voru vandræðaleg þegar litið er til baka). Fínt viðtal við Hope um Borgaralegar fermingar.