Örvitinn

Áróður á áróður ofan

Mánudagsmogginn er þrjátíu og tvær síður auk átta síðna íþróttablaðs. Fjórar síður fara undir minningargreinar.

Í dag er ekki stafkrókur um Icesave fyrr en á fjórðu síðu þar sem vitnað er í Ingibjörgu Sólrúnu sem segir að þjóðin sé ekki bundin af neinu (gárungarnir benda á að svo óheppilega vilji til að við erum ekki þjóðin).

Bændur eru alfarið á móti ESB enda hafa þeir það svo gott - eða eitthvað. Landbúnaðarráðherra vill að svínarækt fari í meira mæli í fjölskyldubúin, ætli honum finnist svínakjötið ekki full ódýrt og í of mikilli samkeppni við rollukjötið.

Ég tel að snúa verði af þessari braut og svínarækt á Íslandi eigi að reka á sömu forsendum og aðrar búgreinar íslensks landbúnaðar.

Svo ég sé sanngjarn þá er brautin sem snúa verður af sú að svínarækt er komin á mjög fáar hendur, stærsti framleiðandi ræður nú yfir meira en helmingi framleiðslunnar. Málið er bara að ég held að svínarækt sé einmitt það, framleiðsla og ég sé ekki að það sé svo neikvætt að risastór aðili sé með stóran hluta framleiðslunna, svo lengi sem gæðastöðlum er fylgt. Annars eigum við bara að flytja svínakjöt inn, Danir eru betri í þessu en við.

Stjórnarandstaða dagsins snýst um að ekkert sé að gerast í vegaframkvæmdum, vitnað er í fyrrum samgönguráðherra sem finnst ekki nógu snarplega ráðist í vegaframkvæmdir.

Skopmynd dagsins er skelfileg (eru þær það ekki alltaf?), Össur situr á Gaddafi og þvingar hann til að borga Icesave. Í gvuðanna bænum moggamenn, hættið með skopmyndir.

Sandkorn vitnar í ISG og segir að áróðurskúrs sé leiðréttur. Sandkorn Morgunblaðsins hefur alltaf tekið mark á Ingibjörgu!

Þeim fer fjölgandi sem blöskrar áróðurinn fyrir Icesave

Skrifar Davíð án kaldhæðni.

Ég las heila grein um fólk sem fer með gamla muni til greiningar hjá Þjóðminjasafni!

Í leiðara dagsins heldur Davíð áfram þar sem frá var horfið og kvartar ákaflega yfir því að Icesave samningurinn sé kynntur með jákvæðum formerkjum.

Framganga ríkis- og baugsmiðla í Icesave málinu er sífellt undrunarefni. Þótt eigandi baugsmiðlanna hafi fengið lungann af þeim innistæðum sem lagðar voru inn á Icesave-reikninga til sín í útrásarverkefni erlendis, þá dugar það varla til þess að fjölmiðlar hans hamist svona eins og þeir gera við að koma ábyrgðinni á skuldum eigandsans og áhættunni af þeim yfir á herðar íslenskra skattborgara.
...
RÚV er svo sérstakur kapítuli. Hræðsluáróður þeirrar stofnunar til að reyna að knýja þjóðina til að samþykkja Icesave tvö, sem nú er talað um eins og hvern annan alkunnan hrylling, verður lengi svartur blettur á Ríkisútvarpinu undir stjórn Páls Magnússonar.

Það fyndna við leiðarasíðuna er að við hlið leiðarans er pistill Péturs Blöndal þar sem hann segir m.a.

Þetta er nú meira helvítið. Stundum verður maður örþreyttur á endalausum þrætum og karpi um menn og málefni. En því má ekki gleyma, að það ber vott um heilbrigði samfélags ef tekist er á um grundvöll tilverunnar - í smáu og stóru. Gagnrýnin hugsun og orðræða er nauðsynleg til þess að við njótum kosta lýðræðisins. Með virkum skoðanaskipotum skapast forsendur fyrir upplýstar ákvarðanir.

Þeir sem lesa grein Péturs halda eflaust að hún snúist um Icesave og aðrar pólitískar þrætur en ég veit betur. Greinin fjallar í rauninni um drama í hádegisbolta, þar sem menn geta rifist og tuðað en fallast svo í faðma í búningsklefanum.

Albert Kemp skrifar aðsenda grein um skandalinn kringum þjónustuhús við Kolfreyjustaðarkirkju þar sem sóknin náði að spandera fáránlega miklu fé í hús utan um klósettaðstöðu vegna þess að presturinn vildi ekki bjóða gestum inn til sín. Hreiðar Þór Sæmundsson skrifar um Ísrael - Land gyðinga. Ástandið í Palestínu er miklu betra en reynt er að telja okkur trú um segir Hreiðar og grípur til stílbragða ristjórans í Hádegismóum.

Ástandið í þessum risastóru fangabúðum sem áróðursmeistarar Palestínuaraba lýsa svo, virðist því klárlega geta verið verra.

Já, við gætum náttúrulega bara varpað kjarnorkusprengju á pleisið og klárað málið ef út í það er farið.

Guðjón Sigurbjartsson stingur upp á að við semjum við bændur um að ganga inn í ESB, mútum þeim einfaldlega og Guðmundur Ingi Kristinsson skrifar um að öryrkjar (eins og hann) megi ekki bjóða sig fram í stjórn VR. Erlendur Magnússon bendir okkur á að landið heiti Chile, ekki Síle.

Víkverji tuðar útaf málfari íþróttafréttamanna og stjörnuspáin heldur því fram að einhver færi mér blóm. Uh, nei.

Atli Bolltason segir að platan Is this it með The Strokes sé besta plata allra tíma, Atli Örvarsson samdi tónlist fyrir einhverja bíómynd og Bjarni Harðarson mætti í útgáfuveislu útivistarhandbókar.

Sagt er frá bíómyndum sem gerast í rauntíma. Ég verð að játa að ég hef aldrei séð Hitchcock myndina Rope.

Ég er löngu hættur að hafa áhuga á REM og las því ekki um nýjustu plötu þeirra. Sé að Kolbrún Bergþórsdóttir mærir David Attenborough.

Það verður gaman að sitja heima í upphitaðri stofunni sinni og fylgjast með Attenborough þar sem hann spásserar úti í náttúrunni og setur upp blíðan svip þegar hann rekst á hin ýmsu kvikindi. En skyldi Attenborough elska mannkynið?

Ætli Kolbrún viti að Attenborough er trúleysingi?

Á baksíðu er viðtal við hjón sem hafa verið saman í yfir 70 ár, hann hundrað ára og hún níræð. Hún saknar sápuóperunnar Leiðarljós.

Í íþróttablaðinu er frásögn af leik Liverpool og United í gær (á forsíðu vísað í fréttina með textanum "Kátur Kuyt"). Ekkert minnst á umdeild atvik (Carragher hefði átt að fá rautt) þannig að sá sem skrifar er væntanlega ekki United maður. Mér finnst algjör óþarfi að koma með innskot í grein sem þessa til að útskýra hvað Kop er. Það vita allir sem fylgjast með enska boltanum um Kop stúkun á Anfield, er það ekki?

Jæja, nóg komið af þessum áróðri mínum. Ég las sunnudagsmoggann. Hann var ekkert sérlega spennandi, viðtal við Bjössa bollu og enn ein RAX opnan, viðtöl við sama fólk og vanalega. RAX er töffari en ég er hættur að nenna að lesa frásagnir hans. Þetta er allt eins.

moggamars
Athugasemdir

Daníel - 08/03/11 13:31 #

Langaði að benda ykkur VG mönnum á snilldina í eigin flokki:

http://www.vinstri.is/pistlar/nr/983

Þrátt fyrir marga galla sjálfstæðisflokksins, þá er ekki hægt að kjósa aðra, hinir eru allir vitleysingar, vilja láta menn borga 70% skatt af launum yfir milljón....... sem eru 6250 Euro, sem þykir ekki sérstaklega mikið fyrir t.d. forstjóra.

Matti - 08/03/11 14:59 #

Langaði að benda ykkur VG mönnum

Hverjum þá? Er ég "VG maður"?

Þrátt fyrir marga galla sjálfstæðisflokksins, þá er ekki hægt að kjósa aðra

Úff, svo er fólk hissa á að hér hafi allt farið til andskotans. Þú dregur þessa ályktun af grein eins gaurs í UVG.

Ásgeir - 08/03/11 17:43 #

Mér finnst alveg merkilegt hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er mældur eftir einhverjum allt öðrum mælikvarða en allir aðrir flokkar í landinu.

Athugasemd Daníels sýnir þetta vel.

Daníel - 09/03/11 09:08 #

Oh já, þú ert VG maður, í mínum augum allavegna

Matti - 09/03/11 09:10 #

Takk fyrir að láta mig vita.

Ertu til í að segja mér meira um sjálfan mig. Ég þekki mig augljóslega ekki nógu vel.

-DJ- - 09/03/11 12:00 #

Og þú Daníel, þú ert moggabloggari. Farðu þangað og hlustaðu á útvarp Sögu á meðan þú skráir gáfulegar athugasemdir í gríð og erg.

Jón Magnús - 09/03/11 12:24 #

Daníel er greinilega með Stokkhólmssyndromið - hann greinilega elskar kvalarann sinn.

Daníel - 09/03/11 14:41 #

Gleymdi þessu:

Þú ert guðlaus vinstrimaður, hlýtur bara að vera VG-innlimaður, eða jafnvel satan sjálfur!

;)

Matti - 09/03/11 14:57 #

Já ég er guðlaus. Það er rétt.

Matti - 10/03/11 08:38 #

Jóhannes Karl Sveinsson sem var í samninganefndinni skrifar grein í Fréttablaðið í dag.

Æsingalaust Icesave?
Það eru í það minnsta tvær hliðar á þessu flókna máli og það reyndi ég á eigin skinni þegar ég sat sjálfur í samninganefnd Íslands.
...
Síðustu daga hefur hins vegar nafnlaust ritstjórnarefni í Morgunblaðinu verið þannig að það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvernig okkur muni takast að komast í gegnum þetta. Harðdræg skrif og föst skot á aðra fjölmiðla, sem jafnvel gera ekki annað en flytja fréttir af nýjum staðreyndum eða viðhorfum í málinu, eru ekki beinlínis uppörvandi, og koma kannski úr hörðustu átt. Einkunnagjöf þar um „vikapilta", „gungur" „álfa" „áróðursnefndir" o.þ.h. er stundum fyndin, en hjálpar í raun engum við að mynda sér alvarlega skoðun á forsendum sem snúast um þjóðarhag. Þessi framsetning espar líka aðra upp til alls konar öfga í umræðunni sem nóg framboð var af fyrir.