Örvitinn

Símamoggi

QR kóðiMorgunblaðið í dag er í boði Símans. Til að reyna að selja fólki snjallsíma er búið að dreifa qr kóðum um allt blað. Ég á snjallsíma þannig að ég prófaði þetta. Get ekki sagt að þetta sé framtíðin en hvað veit ég svosem.

Kreppan herðin tökin er fyrirsögn forsíðufréttar Morgunblaðsins í dag þar sem fjallað er um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Á sjöttu síðu er fjallað meira um málið, byrðarnar eru enn að þyngjast og sagt frá því að fólk sé að festast í kerfinu.

Fyrsta opna blaðsins er auglýsing frá símanum. Í fyrstu alvöru opnunni er fjallað um Landsdóm og Geir Haarde. Lögmaður geirs telur málsmeðferð ekki réttláta.

N1 kynnir Eagles með heilsíðuauglýsingu á fimmtu síðu. N1 auglýsir afskaplega mikið í Morgunblaðinu og eitthvað segir mér að það sé ekki endilega vegna þess að þannig nái þeir best til almennings.

Staksteinar dagsins hrósa formanni Framsóknarflokksins sérstaklega.

Sigmundur Davíð hefur sýnt að hann er hæfileikamaður, glöggur og snar í pólitískum snúningum. En hann hefur ekki flokkinn nægjanlega fast með sér enn sem komið er, þótt staðan sé að styrkjast.

Æi, þetta er krúttlegt. Davíð búinn að finna arftaka í staðin fyrir Bjarna Ben sem óhlýðnaðist honum í Icesave.

Hlaupafólk, þurrfrysting líka, ferðasumar og vélmenni eru meðal þess sem fjallað er um á næstu síðum.

Hækkanir hins opinbera munu hafa áhrif á ráðstöfunartekjur. Ótrúlegt en satt. Meira að segja mismunandi áhrif á fólk eftir stöðu. Magnaður andskoti.

Í leiðara dagsins drullar ritstjórinn yfir Besta flokkinn og Samfylkinguna í Reykjavík. Árni Matthíasson skrifar um Charlie Sheen í pistli og Gunnar Ágúst Gunnarsson framkvæmdastjóri skrifar um útiræktun erfðabreyttra plantna og gagnrýnir þingmenn sem nýlega gagnrýndu þingmenn. Æi.

Ragnhildur Kolka lífeindafræðingur drullar yfir ríkisstjórnina (eða alræðissstjórnina eins og hún kallar hana).

Í umrótinu sem upp kom náðu valdasjúkir lýðskrumarar fótfestu. Ný ríkisstjórn var kosin undir kjörorðinu "gagnsæi og heiðarleiki". Út með spillingu var lofað. Skjaldborg um heimilin var lofað. Endurnýjun trausts var lofað. Hverjar hafa svo efndirnar verið? Öll loforð hafa verið svikin katagórískt. ...
Þegar horft er yfir sviðið er ekki að sjá mikinn mun á vinnubrögðum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna og þeim einræðistjórnum sem berjast fyrir lífinu sínu um alla norðanverða Afríku þessa dagana. Valdahungrið er hið sama en kannski ekki eins mikið blóð ... og þó.

Í alvöru talað Davíð, af hverju birtir þú svona sorp? Svo er verið að segja að umræðan í bloggheimum sé ómálefnaleg og óvönduð!

Sex síður fara undir minningargreinar. Fimm heilsíður innihalda auglýsingar frá Símanum. Auk þess er hellings pláss í blaðinu undir qr-kóða og textabólur frá Símanum.

Víkverji skrifar um heimsókn forsetans til Páfa og stjörnuspá dagsins heldur því fram að ég sé þekktur fyrir að stunda fagleg vinnubrögð. Já einmitt!

moggamars
Athugasemdir

Gummi Jóh - 10/03/11 16:55 #

Kannski ekki framtíðin nei en þetta er skemmtilegt :)

Veit ekki hversu kóða þú skannaðir inn en þeir vísa svo á allskonar hluti. Video, vinninga, tónlist, fréttir og fréttir sem auka við fréttina sem QR kóðinn var við.

Ekki kannski besta leiðin en sýnir hinum venjulega farsímanotenda að síminn þeirra getur ýmislegt fleira en bara SMS og símtöl.

Matti - 12/03/11 15:19 #

Já, tilraunin er áhugaverð. Ég hef ekki séð tilefni til að elta qr-kóða í blöðum síðustu þriggja daga.