Örvitinn

Trúarbrögðin trufla hann ekki

Það fer mjög lítið fyrir Icesave á forsíðu föstudagsmogganns, einungis smá klausa í frétt um talsverðar sveiflur á gengi krónunnar síðustu tvö ár.

Árborg lækkar fasteignaskattinn tilkynnir ökufanturinn Eyjólfur Arnalds. Ruslatunnurnar og metrarnir fimmtán eru á blaðsíðu fimmtán. Efasemdir um innbrotsþjófa og norðanvinda.

Skopmynd föstudagsins er skelfileg en það tekur því ekki lengur að segja það. Staksteinar telja kröfur Bændasamtakanna um varnarlínu og lágmarkskröfur sjálfsagðar. Auðvitað eiga hagsmunir bændastéttarinnar að ráð á Íslandi.

Krafa bænda er sjálfsögð og eðlileg. Óheiðarlegt er að halda áfram viðræðum við ESB nema búið sé að fá skýr svör um að ESB vilji fallast á lagmarkskröfur á borð við þær sem bendur hafa sett fram.

Ég hef á tilfinningunni að Davíð vilji ekki ganga í ESB!

Rebekka Líf skrifar um bleikt.is sem inniheldur "heilaþvott og mannskemmandi boðskap" og hneykslast á fegrunarráðum. Aðrar greinar á sömu síðu fjalla meðal annars um tísku, augnförðun og hollustudrykk úr sellerí.

Áfengissala dregst saman í lítrum talið en velta áfengis hefur aukist (áfengi er dýrara, við drekkum minna en eyðum meira).

Allt er á áætlun í Hörpu og konur koma verr út úr kreppu en karlar.

Leiðari dagsins fjallar um Líbíu (sem Morgunblaðið skrifar alltaf með einföldu og ég því líka). Sveitir Gaddafí "virðast vera að sækja í sig veðrið" og því hefðu vestrænir leiðtogar betur þagað en að vekja óraunhæfar væntingar.

Bjarni Ólafsson skrifar pistil um trúarbrögð, miðla og feng shui. Bjarni er trúlaus og lætur skottulækningar, miðla og þessháttar fara í taugnarnar á sér, en ekki trúarbrögð.

Ástæðurnar fyrir því að trúarbrögð trufla mig síður eru eflaust nokkrar. Ég var skírður, fermdur og gekk í sunnudagaskólann, þannig að ég er vanur kristni að minnsta kosti. Aðalástæðan er hins vegar, að því er ég held sjálfur, sú að trúarbrögð ganga flest út á að hjálpa fólki að bæta sig sjálft - að verða að betri manneskjum. Í þeim er að finna siðferðilegan boðskap sem í flestum tilvikum stuðlar að mannvænna samfélagi.
Galdrakuklið og hinir hlutirnir sem ég leyfi mér að pirrast á eru hins vegar snauðir að þessum hlutum sem gera trúarbrögð almennt að jákvæðum þáttum í mannlegu samfélagi. Þeir ganga út á að svala fýsnum og löngunum án þess endilega að hafa unnið fyrir því. Þeir hafa engan siðferðilegan grunn til að styðjast við þegar erfiðlega gengur. Þess vegna pirrar þetta mig meira en trúarbrögðin gera.

Bjarni hefur rangt fyrir sér á ótal vegu en ég nenni ekki að fjalla frekar um það hér. Kannski drullast ég til að skrifa grein á Vantrú (og jafnvel senda í Morgunblaðið). Grundvallaratriði er samt að trúarbrögðin eru einfaldlega galdrakukl sem hafa "staðist tímans tönn". Auk þess er hann einfaldlega að tala um tiltekið afrbrigði af einum ákveðnum trúarbrögðum á ákveðnum stað á tilteknum tíma en lætur eins og þetta gildi almennt um trúarbrögð.

Sigríður Áshildur Andersen héraðsdómslögmaður skrifar um ábyrgð Íslendinga á gölluð kerfi ESB.

Með Icesave-samningnum er íslenskum skattgreiðendum einum ætlað að bera kostnað af gölluðu regluverki ESB um innstæðutryggingar sem gilt hefur í öllum ríkjum Evrópu. Það er bæði löglaust og ósanngjarnt og þess vegna er rétt að hafna Icesave lögunum.

Tíu síður fara undir minningargreinar, þar af þrjár fyrir Thor Vilhjálmsson. Ég las þær ekki en stoppaði lengur við minningargreinar um dóttur landbúnaðarráðherra sem lést úr krabbameini. Hún var ellefu árum yngri en ég og lætur eftir sig mann og fimm ára son.

Víkverji fjallar um borgarmál, laun bankastjóra og Icesave! Furðulegur hrærigrautur. Stjörnuspáin hélt því fram að það yrði mikil hætta á deilum og þetta væri ekki góður dagur til að skipta sameiginlegum eignum. Tja, ekki langt frá því!

Rætt er við Unu Margréti, frænku Gyðu, í menningarhlutanum. Una Margrét hlaut viðurkenningu Hagþenkis fyrir rit sitt um söngvaleiki barna.

Á baksíðu er sagt frá því að Sigurður "stormur" hafi skemmt Hringskonum.

moggamars