Örvitinn

Ömurleg ríkisstjórn

Sunnudagsblað Morgunblaðsins er yfirleitt þokkalega innihaldsríkt og oft nokkuð áhugavert. Í blaði dagsins staldraði ég við nokkrar greinar..

Spurt er hvort leyfa eigi áfengissölu í matvörubúðum. Mér þykir Þorkell Ómarssonar sem er fylgjandi því örlítið meira sannfærandi en Pétur Björgvin frændi minn og djákni sem er mótfallinn. Pétur missir einfaldlega af bestu rökunum gegn áfengissölu í matvörubúðum, fórnarkostnaðurinn er mældur í fleiri banaslysum í umferðinni! (ekkert grín)

Agnes Bragadóttir skrifar grein um stöðu Íslands eftir hrun. Niðurstaða greinarinnarn er að staða landsins sé miklu betri en fólk gerir sér grein fyrir og er það neyðarlögunum að þakka. Við erum í mun betri málum en t.d. Írar og þeir sem mestu hafa tapað eru erlendir kröfuhafar bankanna. Það er skondið að sjá Agnesi troða skítkasti á ríkisstjórnina í þessa grein því greinin er í raun nokkuð jákvæð. Það má ekki skrifa neitt jákvætt um stöðuna sem túlka má stjórnvöldum í hag og því er bætt í greinina að ríkisstjórnin sé ömurleg

Núverandi slaka í efnahagslífinu segja sérfróðir svo að megi fyrst og fremst kenna skelfilegri stefnu ríkisstjórnarinnar í svo til -öllum atvinnu-, efnahags- og skattamálum, sem hljoti að vera stórkostlegt áhyggjuefni. "Við værum komnir miklu legnra í endurreisn efnahags- og atvinnulífsins, ef við hefðum ekki þessa ömurlegur ríkisstjórn," segir einn viðmælenda.

Annað fróðlegt í grein Agnesar er tilvitnun í grein eftir Gylfa Magnússon.

Tjónið vegna bóluhagkerfisins er engu að síður mjög raunverulegt en það lendir að uppistöðu til á erlendum lánardrottnum hinna föllnu banka og útrásarfyrirtækjanna. Þeir greiða þegar upp er staðið fyrir stóran hluta af íslensku neyslu- og fjárfestingarveislunni og að auki fyrir hagnað þeirra ýmsu erlendu aðila sem seldu íslensku útrásarvíkingunum eignir.

Um er að ræða 7000 milljaðara sem erlendir kröfuhafar töpuðu á falli bankanna. Mér finnst eins og þessir aurar gleymist stundum í umræðunni um hrunið.

Lokaorð Agnesar eru:

Viðmælendur virðast, þrátt fyrir þetta, flestir sammála um að það sé ljós í myrkrinu, þótt menn greini á um nákvæmega hvaða leiðir beri að fara, til þess að ná íslensku efnahags- og atvinnulífi á ný yfir á meira birtusvæði.

RAX á tvær opnur af svarhvítum myndum af sjó og kulda. Mér finnst ég hafa séð svipaðar myndir frá honum áður!

Reykjavíkurbréfið fjallar um Icesave.

Það má vera að hinni lánlausu samninganefnd Íslands hafi tekist að gera samning sinn um Icesave flókinn. En það breytir engu um það að málið sjálft er sáraeinfalt.
"Nei" þjóðarinnar seinast bætti við stöðu Íslands jafnt út á við sem inn á við, öndvert við hræðsluáróðurinn og heimsendaspárnar. Spurningin vafðist ekki fyrir þjóðinni þá. Spurningin er jafn einföld nú og "Nei" mun verða góður áfangi á leið þjóðarinnar til betri tíma. Vonandi mun málið ekki heldur vefjast fyrir þjóðinni núna.

Ég las ýmislegt fleira en læt þetta gott heita af umfjöllun um sunnudagsmoggann.

moggamars
Athugasemdir

Mummi - 14/03/11 23:18 #

fórnarkostnaðurinn er mældur í fleiri banaslysum í umferðinni! (ekkert grín)

Áhugavert. Ég er frekar mótfallinn því að leyfa áfengissölu í matvörubúðum, enda hafa mér þótt rökin með því frekar aum. En ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta áður. Manstu nokkuð hvar þú sást þetta?

Matti - 14/03/11 23:23 #

Gyða lærði þetta þegar hún tók masterskúrsa í Heilsuhagfræði fyrir nokkrum árum. Ég spyr hana betur út í þetta á morgun.

Snæbjörn - 15/03/11 00:58 #

Hérna má finna tiltölulega yfirvegaða skýrslu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO), Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um áfengi og áfengisvandamál í heiminum. Það kemur kannski á óvart að tvær síðarnefndu stofnanirnar skuli setja nöfn sín við svona skýrslu, þær hafa löngum verið taldar ansi hallar undir harðan kapítalisma og hægristefnu, en engu að síður vilja þær berjast hart gegn aukinni áfengisneyslu í heiminum, og mæla meðal annars með því að 1) skattar á áfengi séu hækkaðir, 2) aðgengi að áfengi sé takmarkað, t.d. með því að innleiða einkasölu ríkisvaldsins á áfengi, og 3) áfengisauglýsingar séu takmarkaðar eða bannaðar. Ég get alveg mælt með því að fólk lesi skýrsluna, þótt ekki væri nema bara úrdráttinn sem er á forsíðunni, því þarna eru allar helstu mýturnar um áfengi og áfengisneyslu teknar fyrir. Niðurstaðan er einfaldlega sú að kostnaðurinn við aukna áfengisneyslu í heiminum sé svo mikill, talið í bæði mannslífum og fjármunum, að það verði að beita öllum ráðum til að draga úr neyslunni.

Pétur Björgvin - 12/06/11 23:31 #

Sæll frændi, þessi ágæta ábending þín (eða Gyðu) er nokkuð sem fór því miður fram hjá mér í mars þegar þessi umræða var í gangi, en á eftir að nýtast mér síðar. Snæbjörn, takk fyrir vísunina.

*Snilldin ein að googla sjálfan sig og lenda hér:-)