Örvitinn

Rekin úr nefndum

Ég verð að játa að ég hló þegar ég sá forsíðu Morgunblaðsins. Helsta fréttin er að sjálfsögðu af úrsögn Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur úr þingflokki VG, en hvernig skyldi fyrirsögn Morgunblaðsins vera. Jú að sjálfsögðu: Rekin úr nefndum. Aðal frétt Morgunblaðins er semsagt sú að vonda fólkið í VG fór í fýlu og rak Atla og Lilju úr nefndum, það er næstum því aukaatriði að þau sögðu sig úr þingflokknum.

Einungis átta létust í umferðinni á síðasta ári. Ekki hafa færri látist síðan 1968. Nokkuð er þó um alvarleg slys. Á sömu síðu er sagt frá manni sem lenti í árekstri, lét öllum illum látum og stakk af. Í ljós kom að hann á við geðræn vandamál að stríða.

Skopmynd dagsins er skelfileg. Jóhanna og Steingrímur spígspora eins og nasistar í brúnum fötum, berandi rauðan fána með svörtu letri og Steingrímur með Hitler skegg. Fullkomin lágkúra og til skammar fyrir alla sem að þessu koma, bæði Helga Sig "listamann" og starfsmenn Morgunblaðsins sem ákváðu að birta myndina.

Davíð - þarna er of langt gengið.

Staksteinar dagsins halda því fram að Icesave málið sé í raun óþægilega einfalt. Svo er gefið í skyn að þeir aðilar sem hafa skipt um skoðun á Icesave geri það vegna þess að þeir hafi fjárhagslega hagsmuni af því, fái borgað fyrir það.

Og það er líka athyglisvert að þeir þrír sem frægastir eru fyrir að róa nú í aðra átt en áður hafa allir fengið verulegar greiðslur fyrir lögfræðilega ráðgjöf eða samningsstörf eða eiga fúlgur í vændum.

Ekki er það endilega til þess fallið að meria mark sé á þeim tekið en engu að síður nokkuð áhugavert.

Minnir á að veskið er stundum kallað áttaviti nútímamannsins.

Agnes Bragadóttir skrifar fréttaskýringu um úrsögn Atla og Lilju úr VG. Algjört uppnám innan VG, "pólitískir munaðarleysingjar" og "veikari ríkisstjórn" eru fyrirsögn og millifyrirsagnir.

Leiðarinn fjallar um sama mál og segir að atburðir í stjórnmálum nú minni á vorið 1974 þegar þáverandi ríkisstjórn missti smám saman stuðning sinna eigin manna.

Bragi Ólafsson skrifar pistil um loftárásirnar á Líbýu og er efins um ágæti þeirra. En pistillinn fjallar þó aðallega um viðbrögð vinstri manna.

Aftur á móti hafa viðbrögð friðelskandi fólks sem flest telur sig til vinstri í stjórnmálum, hér á Íslandi og annars staðar í Evrópu verið stórmerkileg og ekki líklegt til að auka tiltrú manns á hugmyndafræðilegum heiðarleika þeirra. Þegar hægrimaður situr á forsetastól í Bandaríkjunum eru hernaðaragerðir landsins grímulaus árásarstríð háð til að tryggja sér yfirráð yfir olíuauð fátæklinga, en þegar vinstrimaður heldur um stjórnartaumana er sprengjuregnið rósrautt og ilmandi af virðingu fyrir öllu því sem gott er. Það er merkilegt hvað hugsjónir sumra eru fljótar að hverfa.

Ég verð að játa að stuðningur friðelskandi vinstrimanna við þessar árásir hefur alveg farið framhjá mér.

Kristinn H. Gunnarsson skrifar grein um kvótann, Ragnar Árnason heldur áfram æsispennandi ritdeilu um kvótakerfi og byggðaþróun og fyrrverandi orkumálastjóri skrifar um umhverfisráðherra og virkjanir.

Minningargreinar taka þrjár opnur í blaði dagsins.

Víkverji skrifar um tjónabíla sem enda aftur á götunn eftir viðgerð. Stjörnuspáin er óljóst kjaftæði.

Á baksíðu er frétt um að Tokyo sé að komast í fyrra horf.

moggamars
Athugasemdir

palli - 24/03/11 10:35 #

Mér finnst í lagi að skopmyndir séu lágkúrulegar, Steingrímur má vera með mottu og Múhameð með bombu.

En eiga þessar "skop"myndir ekki að vera fyndnar eða í versta falli dálítið sniðugar? Ég hef varla glottað yfir þeim síðan Halldór fór á fréttablaðið.

Kannski er þetta bara ég. Ég er e.t.v. með öllu húmorslaus á morgnanna þangað til ég er búinn að fá minn skammt af útvarpi sögu á Reykjanesbrautinni.

Matti - 24/03/11 10:40 #

Já ég er yfirleitt ekki viðkvæmur fyrir "lágkúru" en finnst þetta með að líkja ráðamönnum við nasista fara yfir strikið.

Ég hef ekki einu sinni brosað að skopmynd í Morgunblaðinu. Verð bara fúll yfir því hvað þetta er ófyndið!