Örvitinn

Hugarórakakófónía og döff

Samtök atvinnulífsins eru að gefast upp, ríkisstjórnina greinir á um aðkomu NATO að hernaðaraðgerðum í Líbýu, OR fær engin lán í bráð og Bretar og Hollendingar græða milljarða á vaxtamun. Allt þetta og fleira á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Ástandið í Reykjanesbæ hefur aldrei verið verra samkvæmt Fjölskylduhjálp Íslands. Er Reykjanesbær að verða gettó Íslands?

Álþynnuverksmiðjan á Akureyri er alveg að ná tökum á menguninni. Næst þarf bara að ná tökum á starfsfólkinu sem ætlar í verkfall.

VG styður ekki aðkomu NATO-ríkja í Líbýu en Bjarna Ben finnst það tvískinnungsháttur.

Í "skop"-mynd dagsins er Áfram fólk líkt við strút sem stingur höfði í sandinn.

Við í ÁFRAM teljum hagstætt að greiða skuldir þeirra sem nauðguðu fjallkonunni. Svo er bara beðið átekta þar til bóla fer á batanum.

Eftir að hafa fylgst með skopmyndum Morgunblaðsins í mars er niðurstaða mín að Helgi Sig sé fullkomið fífl. Húmorslaus, hæfileikalaus, andstyggilegur, rætinn og illa innrættur. Það sama gildir um þá sem ákveða að birta teikningar hans í blaðinu.

Staksteinar vitna sennilega í Benedikt Jóhannesson fyrst það er mynd af honum og kalla eftir öðrum blaðamannafundi vegna þess að nú stefni væntanlega í verri heimtur úr þrotabúi Icesave í kjölfar hörmunga í Japan og stríðs í Líbýu.

Getum við ekki fengið Áfram blaðamannafund Í Arnarhvoli fljótlega?

Reyndar hélt ég að verðmæti Iceland verslunarinnar hefði aukist töluvert í kreppunni enda búðin lágvöruverslun. Hver veit, kannski eykst verðmæti hennar það mikið að næsti blaðamannafundur yrði enn jákvæðari.

Agnes Bragadóttir skrifar um endurfjármögnun OR og höfnun NIB. Vitnar að sjálfsögðu í nafnlausa heimildarmenn eins og vanalega.

Fullyrt er að ábyrgðarlitlar yfirlýsingar Jóns Gnarr, borgarstjóra, bæði á Fésbókarsíðu sinni og í fjölmiðlum, um gjaldþrot OR og að fyrirtækið sé á vonarvöld, hafi ekki auðveldað núverandi forsvarsmönnum OR endurfjármögnun fyrirtækisins.
"Svona umsagnir eru náttúrulega ekkert annað en bannyrði þegar verið er að reyna að ná fram hagkvæmum samningum um endurfjármögnun", segir viðmælandi.

Ég er að spá - eru menn að reyna að blekkja viðsemjendur? Fá þeir ekki allar upplýsingar um fjárhagsstöðu OR?

Hollendingar og Bretar munu græða milljarða á Icesave samningnum að því er Advice hópurinn hefur reiknað út samkvæmt tilteknum gefnum forsendum. Ekkert er gert til að kanna hvort þessar forsendur standist heldur er áróðrinum einfaldlega dembt á síður Morgunblaðsins. Hvað er eiginlega að? Æi, hvernig læt ég? :-)

Í leiðara dagsins er drullað yfir stjórnlagaþingsfólk - eða hrakvalsmenn eins og Davíð kallar þau.

Atli Harðarson skrifar grein um brottfall úr framhaldsskólum og færir rök fyrir því að Ísland sé enginn eftirbátur annara þjóða í þeim efnum.

Er umræðan um brottfall úr skólum ef til vill eitt tilbrigði við hugarórakakófóníuna sem hæst lætur og einkennist ýmist af upphrópunum um að Ísland sé best í heimi eða að hér sé allt verst í heimi?

"Hugarórakakófónía"! Í Alvöru Atli? Hvað í ósköpunum þýðir þetta?

Valgerður Stefánsdóttir forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra skrifar um táknmál.

Íslenskt táknmál er notað í daglegum samræðum Íslendinga sem kalla sig döff og tilehyra döff menningu. Táknmál myndar grunninn undir menninguna en hún heymir siði, venjur, ljóð og listir sem túlka döff lífssýn, sameiginlega sögu og reynslu.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef séð hugtakið döff.

Hafsteinn Hjaltason vélstjóri skrifar um Icesave.

Nei við ánauðarokinu, Icefaceólögunum, í þjóðaratkvæðagreiðslunni 8. apríl. Þó gullskreyttir ESB-baunadiskar séu í boði. Varðveitum umfram allt frelsi og fullveldi Íslands.

Hafsteinn talar um ráðherraskósveina í grein sinni og er sennilega að fara að kjósa gegn Icesave!

Þrjár opnur fara undir minningargreinar í dag. Víkverji tuðar útaf sýningartíma kvikmyndahúsa og segir frá fótboltaleik. Stjörnuspáin er bull.

Baksíðan fjallar um veggjakrot í Árbæ.

moggamars
Athugasemdir

Mummi - 30/03/11 08:18 #

Hefurðu ekki heyrt lagið með Ljótu hálfvitunum; Veröld ný og góð?

[..]á Speedoskýlunum, hlæjum að þeim sem tala döff!

Matti - 30/03/11 08:31 #

Nei! A.m.k. ekki tekið eftir þessu textabroti.

Mummi - 30/03/11 16:25 #

Döff er málið.