Örvitinn

Fleiri vond rök

Samkvæmt einhverri könnun er fylgni milli menntunar og stuðnings við Icesave samninginn, þ.e.a.s. því meiri menntun sem fólk hefur því líklegra er það til að merkja við já í kosningunum. Einnig virðist fylgni milli búsetu, tekna og viðhorfa til Icesave. Tekjuhátt menntað fólk á höfuðborgarsvæðinu er semsagt líklegra til að segja já heldur en tekjulágt ómenntað fólk úti á landi.

Það eru því fyrst og fremst vitleysingar sem ætla að segja nei. Verst hvað vitleysingarnir eru margir.

Já, ég veit að fullt af menntuðu og gáfuðu fólki ætlar að segja nei enda eru þetta skelfilega vond rök. Auk þess er ég bæði ómenntaður og vitlaus. Reyndar hef ég orðið nokkuð var við fordóma gegn menntun hjá nei-sinnum. Mér hugnast það afskaplega illa og tel að land þar sem fordómar gegn menntun eru almennir sé á hraðri leið til helvítis.
Icesave
Athugasemdir

Tryggvi R. Jónsson - 06/04/11 20:02 #

Fordómar gagnvart menntun eru ekkert nýtt á Íslandi, á heimilinu þar sem ég ólst upp voru verulegir fordómar gagnvart menntun eða a.m.k. "menntuðu fólki".

sr - 06/04/11 20:28 #

Æðsta menntastofnun þessa lands er þegar komin til húsbóndans í hinu neðra að mínu mati. Bara ómerkileg geymsla fyrir pólitíska bloggara fjórflokksins þótt ennþá séu inn á milli fagmenn. Það er varla spurning lengur hvort restin af samfélaginu fylgi á eftir, frekar hvenær.

Snæbjörn - 06/04/11 20:40 #

Það er alveg merkilegt hvað fólk setur alltaf samasemmerki á milli ákveðinna deilda innan Háskóla Íslands og háskólans sjálfs. Þegar fólk verður vart við rotnu eplin innan háskólasamfélagsins þá er Háskóli Íslands bara í heild sinni orðinn úrelt stofnun á leið til helvítis. Æðislegt viðhorf. Var e-r að tala um fordóma gagnvart menntun?

Kristinn - 07/04/11 00:34 #

Af tvennu illu finnst mér fordómar gagnvart menntunarleysi öllu verri en fordómar gagnvart menntun.

Matti - 07/04/11 08:19 #

  1. Ég hef ekki orðið var við fordóma gegn menntunarleysi í Icesave umræðunni. Ekki fyrr en í þessari færslu minni.

  2. Ég er ekki sammála því. Menntun er jákvætt fyrirbæri í sjálfu sér. Það er æskilegt að fólk menntist. Ekki nauðsynlegt, en æskilegt. Því eru fordómar gegn menntun að mínu mati öllu verri.