Örvitinn

Fólkið sem tók ekki þátt

Fjölmargir segjast ekki ætla að samþykkja þriðja og hagstæðasta Icesave samninginn vegna þess að þeir tóku ekki þátt í útrás bankanna og góðærinu. Stundum er talað um að hagnaður bankanna hafi verið einkavæddur en tapið ríkisvætt.

Ég ætla ekki að tala fyrir aðra, ég veit að margir höfðu það skítt í miðju góðæri, en ég tala fyrir sjálfan mig.

Ég tók þátt í góðærinu og bankabrjálæðinu. Reyndar óbeint, en samt tók ég þátt.

Þegar gengi krónunnar var afskaplega hagstætt naut ég þess í lægra vöruverði. Ég var ríkur í útlöndum. Þegar bankarnir stækkuðu og greiddu há laun naut ég þess óbeint í gegnum skattgreiðslur bankanna, starfsmanna þeirra og hluthafa. Auk þess áttu mörg fyrirtæki í viðskiptum við bankana og högnuðust vel.

Ríkissjóður varð skuldlaus í góðærinu, skattar lækkuðu, kaupmáttur jókst mikið. Ég tók þátt í góðærinu því hér var nákvæmlega ekkert atvinnuleysi, allir fengu vinnu og fullt af fólki var með fáránlega háar tekjur án þess að verðskulda þær í raun (t.d. fasteignasalar og bankamenn).

Ég veit ég var ekki einn því á árunum fyrir hrun voru fluttir inn bílar og græjur til landsins í miklu meira magni en áður. Íslendingar óku um á fínustu týpunum af flottustu bílunum og fluttu í stærstu og flottustu húsin. Ég skildi aldrei hvernig allt þetta fólk gat ekið um á rosalega flottum og dýrum bílum. Fólk sem var ekki með hærri tekjur en ég var kannski að aka um á tíu milljón króna bíl (minn kostaði þrjár).

Þegar erlendir aðilar gagnrýndu íslensku bankana heyrði ég ekki marga hér á landi taka undir. Talað var um öfund erlendra bankamanna sem skyldu ekki hvað íslendingar eru flottir og snöggir að taka ákvarðanir, forseti Íslands (já, okkar forseti) flutti meira að segja ræður í útlöndum þar sem hann sagði að það þyrfti að breyta kennslu í viðskiptafræðideildum háskóla heimsins út frá því sem íslenskir bankamenn og fjárfestar voru að gera. Ég man heldur ekki eftir því að það hafi verið vinsælt þegar Ögmundur Jónasson talaði um að bankarnir mættu bara fara úr landi.

Ég held að miklu fleiri hafi tekið þátt í góðærinu, beint eða óbeint, en vilja kannast við það í dag.

Ég átti hlutabréf í þremur fyrir tækjum fyrir samtals tæplega 750.000.- á kaupverði, hæst varð verðmæti þeirra um 1.1 milljón um mitt ár 2007. Ég fékk aldrei arð greiddan út og tapaði öllu í hruninu. Vann í Landsbankanum á frá seinni hluta 2003 fram á mitt ár 2005. Átti pening á bankareikning í hruninu en innistæðan var undir lágmarkstryggingu Tryggingasjóðs innistæðueigenda og fjárfesta. Bankinn "minn" fór ekki á hausinn en hefði að sjálfsögðu gert það ef neyðarlögin hefðu ekki komið til.
Icesave
Athugasemdir

Ásgeir - 07/04/11 18:08 #

Ég var einmitt að hugsa um það hérna um daginn hvað fólk virðist að miklu leyti hafa gleymt hvernig þetta var hérna fyrir hrun.

Matti - 07/04/11 18:29 #

Ætli elítan hafi ekki séð um þetta allt saman og ég er væntanlega hluti af henni.

Helvítis elítan.

Halldór Elías - 07/04/11 19:26 #

Svo sannarlega réttmæt og mikilvæg áminning. Ég er búin að velta fyrir mér í rúma viku að skrifa svona færslu, en ekki lagt í það.

baddi - 07/04/11 19:34 #

Ég kom einmitt með þessi rök í vinnunni í dag í umræðu um Icesafe. Við fjölskyldan förum yfirleitt á sama stað árlega (þar sem konan mín er af erlendu bergi brotinn) og við hreinlega hugsuðum ekki um peninga þessa 1-2 mánuði sem við vorum úti. Og nb. við fórum út árlega. Það er aðeins öðruvísi núna...

María Reynisdóttir - 08/04/11 02:58 #

Gagnrýni erlendra aðila komst ekki vel til skila til almennings því við búum við glæpsamlega fjölmiðlun. Eitthvað rámar mig í að viss stjórnmálamaður hafi reynt að breyta því árið 2004.

Þórður Ingvarsson - 08/04/11 04:04 #

Ef aðeins að þessi vissi stjórnmálamaður hefði ekki verið aðalflutningsmaður frumvarpsins.

Matti - 08/04/11 08:30 #

Sigurður Kári:

Það er ástæða til að hrósa Ögmundi fyrir það hversu hreinskilinn stjórnmálamaður hann er. En hann fær seint hrós fyrir viðhorf sitt til þeirrar starfsemi sem aflar þjóðarbúinu ómældra tekna og þúsunda einstaklinga atvinnu. #

Björn Ingi Hrafnsson

Það að Ögmundur hafi yfirleitt látið sér slík ummæli um munn fara, sýnir vitaskuld hvílík ógæfa það væri fyrir þjóðina að fá stjórnmálamenn eins og hann inn í ríkisstjórnina. Hann myndi vitaskuld fylgja þar hugmyndum sínum eftir, senda bankana úr landi með tilheyrandi efnahagsafleiðingum, fjöldauppsögnum og áfalli fyrir íslenskt samfélag.#

Birgir Ármannson

Þessi skoðun Ögmundar Jónassonar og flokksfélaga hans þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart. Þeir hafa jafnan beitt sér gegn þeim breytingum á lögum og starfsumhverfi, sem stuðlað hafa að vexti og uppgangi fyrirtækjanna sem hér um ræðir. Þeir voru á móti EES-aðild og opnun markaða sem henni fylgdi. Þeir lögðust gegn einkavæðingu bankanna, sem leysti mikla krafta úr læðingi á fjármálamarkaðnum. Þeir hafa alltaf lagst gegn skattalækkunum, sem hafa líka skipt verulegu máli í þessu sambandi. Þeir hafa í flestum atriðum verið á móti þeirri þróun íslensks efnahags- og atvinnulífs, sem átt hefur sér stað á síðustu árum. #

Ég gæti haldið áfram. Sé ekki að fjölmiðlalögin hafi haft sérstaklega mikil áhrif á þessa umræðu.