Örvitinn

Heimdallur, reykingar og vísindi

Í yfirlýsingu Heimdallar í tilefni reykingarumræðu síðustu daga segir m.a.

Í heimi vísindanna er mjög deilt um skaðsemi óbeinna reykinga... #

Hmm, byrjum á byrjuninni. Hvað segir Wikipedia?

Scientific evidence shows that exposure to secondhand tobacco smoke causes disease, disability, and death.[1][2][3][4]Currently, the health risks of secondhand smoke are a matter of scientific consensus, #

Í sömu grein:

Lung cancer: the effect of passive smoking on lung cancer has been extensively studied. A series of studies from the USA from 1986–2003,[8][9][10][11] the UK in 1998,[12][13] Australia in 1997[14] and internationally in 2004[15] have consistently shown a significant increase in relative risk among those exposed to passive smoke

Í greininni kemur reyndar fram að ekki hefur verið sýnt fram á tengsl óbeinna reykinga og vissra sjúkdóma, t.d. brjóstakrabbameins. En tengslið við lungnakrabbamein eru óumdeild. Sýnt hefur verið fram á tengsl milli óbeinna reykinga og lungnakrabba.

Vafalaust eru til séu vísindamenn sem efast um skaðsemi óbeinna reykinga. Það eru líka til vísindamenn sem efast um að jörðin sé að hlýna af mannavöldum og jafnvel er hægt að finna vísindamenn sem efast um Þróunarkenninguna og telja að skýringar Biblíunnar dugi. Staðreyndin er samt að mikill meirihluti vísindamanna hefur komist að þeirri skoðun að allar þessar tilgátur séu sannar. Þær eru ekki umdeildar.

Heimdallur er ósköp einfaldlega að bulla þegar félagið heldur því fram að í heimi vísinda sé deilt um skaðsemi óbeinna reykinga. Skaðsemi óbeinna reykinga er eins óumdeild og hægt er í vísindasamfélaginu.

Þannig að þeir sem telja að ekki eigi að banna reykingar þurfa að nota önnur rök. Sjálfur þoli ég ekki reykingar og tel þróun síðustu ára afskaplega jákvæða (það var ógeðslegt að fara út að skemmta sér þegar skemmtistaðir voru mökkaðir) en samt er ég mótfallinn því að banna tóbak og önnur fíkniefni.

pólitík vísindi
Athugasemdir

Halldór E. - 04/06/11 00:07 #

Þrátt fyrir að fylgni (eða tengsl) séu á milli reykinga og ýmissa sjúkdóma, þá hafa tóbaksfyrirtækin bent á að ekki hafi tekist að sýna fram á að tóbakið sé orsök en ekki afleiðing. Um það snúast meintar deilur vísindasamfélagsins.

Flestir vísindamenn telja að líklegra sé að reykingar valdi lungnasjúkdómum og krabbameini en að einstaklingar með undirliggjandi krabbameinshvata sé líklegra til að reykja. Þetta virðist hins vegar mjög erfitt að sanna með óyggjandi hætti. Ef ég skil deiluefnið í vísindaheiminum rétt. Þetta er í sjálfu sér nákvæmlega sama vandamálið og með hlýnun jarðar.

Spurningin sem fylgir í kjölfarið snýst hins vegar um hver eigi að njóta vafans. Flest skynsamt fólk telur að lágmörkun mögulegs skaða sé markmið í sjálfu sér (og notast við veraldlega útfærslu á veðmáli Pascals). Aðrir telja að skammtíma vellíðan sé mikilvægari en "hugsanlegur" framtíðarhagnaður og kalla nálgun sína "frelsi".

Matti - 04/06/11 17:59 #

en að einstaklingar með undirliggjandi krabbameinshvata sé líklegra til að reykja.

Hér er einmitt ekki verið að ræða um fólk sem reykir!

Ég held að þessar meintu deilur hafi átt sér stað fyrir þrjátíu eða fjörtíu árum. Vissulega hafa tóbaksfyrirtækin keypt rannsóknir til að búa til deilur en það taka fáir mark á slíku í dag.

Björn Darri - 04/06/11 23:28 #

Bókin Merchants of Doubt fjallar ágætlega um þessa tilhneigingu markaðsaflanna til að dæla fjármunum í misheiðarlega efasemdarmenn, þegar vísindin fara að kroppa í gróðann.

Davíð R. Gunnarsson - 05/06/11 14:20 #

Óbeinar reykingar eru vissulega skaðlegar en það er spurning hvort hættan sé ekki ýkt upp úr öllu valdi til að réttlæta enn harðari reglur gagnvart reykingum. Að vinna á reykfylltum bar 12 tíma á dag í langan tíma er væntanlega skaðlegt, en er virkilega réttlætanlegt að banna reykingar á gangstéttum og í almenningsgörðum á þeim forsendum að reykingafólk sé "að drepa" samborgara sína?

Matti - 05/06/11 14:25 #

Það er fín umræða og um að gera að fara gegnum hana.

Fyrir fjórum árum fór þessi umræða fram varðandi reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Þá vildu margir meina að þeir sem ekki þola reykingar gætu bara haldið sig heima. Ég var ákafur stuðningsmaður þeirra breytinga og tel óumdeilt að sú breyting hafi verið mjög jákvæð.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að banna eigi reykingar, en mér finnst allt í lagi að takmarka þær þar sem þær valda öðrum ama. Það getur t.d. gilt um reykingar á svölum - í þeim tilvikum þar sem reykur berst inn til annarra íbúa.

Reykingar eru bannaðar í Fjölskyldu og húsdýragarðinum. Það hefur ekki alltaf verið þannig og mér þykir jákvætt að þær séu bannaðar þar. Þar með er ég ekki að segja að það eigi að banna þær.

En punkturinn er semsagt sá að mér finnst allt í lagi að banna reykingar á vissum stöðum, jafnvel þó þær séu ekki að drepa fólk. Mér þykir alveg nægileg réttlæting að þær valdi öðru fólki óþægindum og ama.

María - 05/06/11 16:04 #

Verði reykingar bannaðar á gangstéttum, í bílum og á svölum heimila fólks þá má nú alveg gera ráð fyrir því að börn verði fyrir enn meiri óbeinum reykingum - hvar á þetta fólk annars að reykja? Þetta frumvarp er gjörsamlega út úr kú, ég hélt fyrst að hugmyndin um lyfseðilskylt tóbak væri gott djók og var ekki skemmt þegar ég komst að því að þessu fólki væri fúlasta alvara.

Það er nógu andskoti erfitt að fá tíma hjá heimilislækni nú þegar. Hvernig verður það þegar 15% þjóðarinnar þarf að betla sígarettur hjá þeim? Frekar flytja þetta alfarið í ÁTVR og hækka verðið enn frekar. Þetta lið er snælduvitlaust.

Matti - 05/06/11 16:20 #

Á þetta fólk ekki bara að reykja þar sem það veldur öðrum ekki óþægindum? Þú veist, þú má gera það sem þú vilt svo lengi sem þú gengur ekki á minn rétt og allt það.

Ég ítreka að ég hef engan áhuga á að banna reykingar yfir höfuð og er ekki stuðningsmaður þessarar tillögu.

Aftur á móti var ég ákafur stuðningsmaður reykingarbanns á veitinga- og skemmtistöðum árið 2007 og tel allt í lagi að skoða þessi mál áfram.

Davíð R. Gunnarsson - 05/06/11 17:34 #

Ég skil hvað þú meinar. En það fylgja því ýmis óþægindi að búa í fjölbýlishúsi eða borg í samlífi við annað fólk. Eru óþægindi fólks við það að labba af og til framhjá einhverjum sem er að reykja út á götu virkilega það mikil að það kalli á bann við reykingum á gangstéttum?

María - 05/06/11 17:45 #

Ég sé ekki í fljóti bragði hvar það ætti að vera. En hvers konar óþægindi eru þetta? Óþægileg lykt sem varir í þrjár sekúndur á meðan fólk gengur fram hjá? Ég held að svifryksmengun sé stærra vandamál í dag en þessar óbeinu reykingar.

En já, reykingabannið á skemmtistöðum var til fyrirmyndar.

Snæbjörn - 05/06/11 21:37 #

Það er nú alveg æðislega skemmtilegt að þurfa að loka svefnherbergisglugganum þegar maður er kominn upp í rúm að sofa vegna þess að reykingalykt nágrannans leggur inn.

Guðmundur D. Haraldsson - 05/06/11 21:56 #

Það er nógu andskoti erfitt að fá tíma hjá heimilislækni nú þegar. Hvernig verður það þegar 15% þjóðarinnar þarf að betla sígarettur hjá þeim?

Ekki að ég sé stuðningsmaður þessar hugmyndar um tóbaksfíknarlyfseðil, en kannski yrði þetta aldrei ekkert voðalegt problem, sbr. þetta:

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) leiðir hækkun á útsöluverði tóbaks til minni tóbaksnotkunar. Hækkun um 10% veldur 4–8% minnkun á neyslu. Verðhækkanir hérlendis frá 2008 og fleiri aðgerðir hafa skilað því að tíðni reykinga meðal fullorðinna Íslendinga (15–89 ára) hefur lækkað úr 20% árið 2007 í rúm 14% árið 2010 samkvæmt könnun Lýðheilsustöðvar. Útsöluverð á tóbaki ætti því að hækka um 10% á ári að raungildi þar til það verður tekið úr almennri sölu.

María - 05/06/11 22:14 #

Guðmundur, punkturinn var að álagið á heimilislæknum er nógu mikið fyrir, fyrir utan að það er fáránlegt að ætla læknum að stýra tóbaksnotkun þjóðarinnar. Tilgangurinn með þessu er að útrýma reykingum á fastistalegan hátt en ekki að "vernda börn og unglinga" eins og Sif segir.

Ég sagði líka að best væri að hækka verðið til að minnka neyslu.

Snæbjörn - 06/06/11 12:46 #

Ég get ekki gert að því en ég fæ grænar þegar fólk talar um fasisma og fasista daginn út og inn yfir nánast hvað sem er. Hvernig væri að geyma þessi orð til að nota í þeim aðstæðum þar sem verið er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni en ekki öfugt?

Siggi - 06/06/11 17:19 #

Þannig að það er í lagi að troða alltaf á minnihlutanum?

Hvernig er það, er hægt að banna fólki að reykja á sínum eigin svölum? Burtséð frá öllum tilfinningarökum, er það hægt?

Pétur - 06/06/11 17:20 #

Að það valdi öðrum óþægindum og ama finnst mér ekki nægileg réttlæting, því að ef það væri nægileg réttlæting þá væri einnig í lagi að banna fólki að prumpa á almannafæri. Mér finnst við farin að seilast ansi langt þegar við erum farin að vernda fólk fyrir svona smámunum.

Matti - 06/06/11 17:24 #

Hvernig er það, er hægt að banna fólki að reykja á sínum eigin svölum? Burtséð frá öllum tilfinningarökum, er það hægt?

Auðvitað er það hægt.

Það er hægt að banna fólki að spila háværa tónlist af svölum sínum ef það truflar annað fólk.

Til eru lög um fjöleignarhús sem takmarka verulega hvað fólk getur gert á heimilum sínum, þ.m.t. svölum.

Að það valdi öðrum óþægindum og ama finnst mér ekki nægileg réttlæting, því að ef það væri nægileg réttlæting þá væri einnig í lagi að banna fólki að prumpa á almannafæri.

Það má vissulega heimfæra um almannafæri. En hvað ef einhver stundaði það að skíta á svölunum sínum? Mætti banna það ef það ylli nágrönnum hans óþægindum?

María - 06/06/11 18:48 #

Ok, Snæbjörn. Segjum þá að þetta sé forræðishyggja af allra verstu gerð.

Má þá ekki banna fólki að grilla á svölunum sínum líka? Annars er þetta bara spurning um lágmarks tillitsemi og kurteisi. Auðvitað ætti fólk ekkert að reykja þegar það er opinn gluggi í næstu íbúð.

Í langflestum tilfellum er þetta eitthvað sem aðeins veldur óþægindum. Sumir sjúklingar þurfa að halda sig innan dyra með lokaða glugga þegar svifryksmengun fer yfir ákveðin mörk og ekki vegna óþæginda heldur af heilsufarsástæðum. Væri ekki nær að eyða tímanum í að breyta því?

Mummi - 06/06/11 21:01 #

Víða erlendis er einmitt bannað að grilla á svölum fjölbýlishúsa vegna þess að reykurinn gæti angrað nágranna.

Mummi - 06/06/11 21:02 #

"reykurinn og lyktin" ætlaði ég nú að skrifa..

Tinna - 06/06/11 21:58 #

Ég væri alveg til í að setja lög sem banna fólki að nota of mikið ilmvatn eða rakspíra. Ég hef t.d. stundum þurft að fara fyrr út úr strætó vegna ilmvatnsfnyks. Tveir nágrannar mínir nota líka ótæpilega af þefvatni, svo lög sem banna þeim að vera með ilmvatn innanhúss væru vel þegin.

Snæbjörn - 07/06/11 14:48 #

Já, frábær samanburður, banna fólki að prumpa á almannafæri eða vera með vont ilmvatn. Gott mál, svona kemst umræðan lengra.

Ég spyr bara, ef e-r væri að blanda ilmvatn úti á svölum heima hjá sér og megn ilmvatnslykt bærist inn í nærliggjandi íbúðir og væri fólki til ama, væri það í lagi? Hvað ef ég væri að sjóða malt úti á svölum, væri það í lagi? Eða framleiða lím (eða e-a álíka lyktvonda efnavöru)? Ég held að fæstir hefðu áhuga á að fá lykt af slíkri starfsemi inn til sín frá nágrannanum, en samt er alls ekkert óhollt að anda að sér malt„ilm“ (vissulega óhollara að anda að sér límlykt). Það er bara svo helvíti vond lykt af maltsuðu að ég hugsa að fæstir myndu láta bjóða sér það. Af hverju er það öðru vísi með reykingar?

Mér finnst við farin að seilast ansi langt þegar við erum farin að vernda fólk fyrir svona smámunum.

Þér finnst það kannski smámunir, en það er ekki víst að það séu allir sammála þér í því.

Pétur - 08/06/11 08:35 #

Snæbjörn, ég var ekki að segja að ami af reykingum væri endilega smámunir, ég var að segja að ami af prumpulykt væru smámunir. Ennfremur var ég ekki að líkja ama fólks af reykingum við ama fólks af prumpulykt, ég var einungis að reyna að benda á að mér finnst ekki nægjanlegt að segja að fólk hafi ama af því, vegna þess að sömu rök er hægt nota um aðra hluti, eins og t.d. prumpulykt.

Og nota bene - auðvitað kemst umræðan ekki langt ef menn eru ófærir um að skilja mælt mál.

Þú getur bent á dæmi um önnur "óþægindi" sem sumum þykir eðlilegt að banna, svo sem límframleiðslu og maltsuðu og þess háttar. Matti benti líka á svoleiðis dæmi. Ég gæti líka bent á dæmi um hið gagnstæða - veit ekki betur en t.d. að stigagangar í fjölbýlishúsum verði margir hverjir ansi lyktsterkir á Þorláksmessu á hverju ári án þess að nokkur hafi lagt til að banna skötuna. Mér finnst akkúrat sú staðreynd að sumt sem veldur fólki "óþægindum" virðist vera í lagi að banna, og sumt ekki, sýna fram á að þessi meintu óþægindi geta ekki ein og sér verið nægjanleg ástæða fyrir banni. Annaðhvort þarf eitthvað annað að koma til líka, eða að minnsta kosti þurfa óþægindin að vera veruleg.

Og að lokum, ástæðan fyrir því að ég sagði "Mér finnst" er akkúrat sú að ég var að lýsa skoðun, ekki sannleik.

Pétur - 08/06/11 08:40 #

Vil samt bæta við að ég er alveg með þér í að vera þreyttur á ofnotkun fasmismahugtaksins. Fasismi er ákveðin stjórnmálastefna, en fólk virðist núorðið nota þetta orð þegar það meinar valdboðsstefna (authoritarianism), sem vissulega er eitt af einkennum fasisma, en alls ekki það eina.