Örvitinn

Útskrifaður

Mætti í langa hátíðlega athöfn í Laugardalshöll í dag og tók við skjali þar sem gjört er kunnugt að ég hef hlotið lærdómstitilinn Baccalaereus Scientiarum BS í tölvunarfræði. Héðan í frá má ég semsagt kalla mig tölvunarfræðing.

Þetta tók mig ekki nema sautján ár með dálitlu hléi. Ég skráði mig í heimspeki árið 1994, hafði tekið mér eitt ár í frí eftir að ég útskrifaðist úr Verzló. Eftir ár í heimspeki skellti ég mér yfir í tölvunarfræði. Ég var ekki að gerast neitt sérlega góða hluti í náminu (með örfáum undantekningum) og í lok árs 1998 fór ég að vinna með námi. Fljótt varð þetta nám með vinnu og svo bara vinna.

Ég hef lengi verið á leiðinni aftur í skóla til að klára gráðuna en frestaði því alltaf. Hef ekki beint þurft gráðuna, ég er ekki að fara að hækka í launum eða fá stöðuhækkun. Ég gerði þetta fyrir sjálfan mig.

Fyrir ári hafði ég samband við deildina til að athuga hvað ég þyrfti að gera til að klára tölvunarfræðina og niðurstaðan var að ég þurfti að taka fjóra kúrsa. Í febrúar kom í ljós ég ég þurfti einnig að klára fjögurra eininga lokaverkefni til að ná tilskyldum fjölda eininga. Ég skellti mér því í HÍ í vetur og kláraði. Gekk töluvert betur í þetta skipti en á síðustu öld enda áhuginn meiri og samviskusemin eftir því (ég lærði heima og mætti undibúinn í tíma!).

Veturinn er búinn að vera nokkuð strembinn enda stundaði ég námið með fullri vinnu. Þetta var því átta mánaða törn og afskaplega ánægjulegt að vera búinn.

Næstu ár ætla ég að stunda meistaranámi í tölvunarfræði með vinnu. Ég á nefnilega sitthvað eftir ólært.

dagbók
Athugasemdir

Snæbjörn - 11/06/11 18:53 #

Innilega til hamingju með gráðuna!

Hakon - 11/06/11 19:04 #

Til hamingju með áfangann - vel gert!

Lárus Viðar - 12/06/11 06:04 #

Til hamingju með B.Sc.!

(er ekki einhver villa í ártölum hér, varstu í þessu námi frá 1995-2008??)

Matti - 12/06/11 13:29 #

Takk fyrir hamingjuóskir.

Jújú, ég klúðraði ártölum örlítið :-)

Baldvin - 12/06/11 18:12 #

Til hamingju!

Pétur Björgvin - 12/06/11 23:32 #

Til hamingju með áfangann! Þú ert vel að honum kominn!

Einar Jón - 23/06/11 13:27 #

Þú þarft líklega leyfi frá ráðherra til að mega formlega kalla þig tölvunarfræðing. Það kostar einhverja þúsundkalla í iðnaðarráðuneytinu, en þú færð voða flott skjal upp á það.

Þú mátt samt kalla þig kerfisfræðing ef þú vilt (og konan og krakkarnir mega það líka).

http://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%B6gvernda%C3%B0_starfsheiti

Matti - 23/06/11 13:51 #

Nú! Jæja, þá er best að hóa í ráðherra :-)

Matti - 23/06/11 14:00 #

Var að skoða lögin og þar er hvergi minnst á tölvunarfræði. Eru upplýsingarnar á wikipedia síðunni ekki rangar?

Einar Jón - 23/06/11 16:12 #

Smá gúgl fann þetta: http://www.althingi.is/altext/stjt/2002.147.html

Wikipedia er sem sagt rétt, en tölvunarfræðingar hafa ekki verið verndaðir eins lengi og við verkfræðingarnir og þurfa ekkert ráðherraleyfi.

Björn Friðgeir - 25/06/11 11:50 #

Já, þetta er afskaplega hentugt fyrir mig, er ef ég man rétt með einu tvær gráðurnar sem eru verndaðar án þess að þurfa ráðherraplagg

Stebbi - 27/06/11 12:55 #

Til að hindra að þú gerir aftur sömu mistökin er rétt að benda þér á það Matti að það sem þú vísaðir í af vef Alþingis er ekki lögin heldur lagafrumvarp (sem reyndar varð að lögum). Þú fannst sem sagt þingskjal en ekki lög. Frekar en að setja inn leitarorð á upphafssíðu Alþingis er best að velja "lagasafn" og svo velja þar "orðaleit í lagasafni".

Ef þú ferð í lagasafnið á vef Alþingis áttu alltaf að fá núgildandi lög, sem í þessu tilfelli er ekki bara "lög nr. 8/1996", heldur "lög nr. 8/1996 með síðari breytingum". Í lagasafninu eiga jafnframt að vera tilvísanir sem sýna allar breytinar sem gerðar hafa verið á lögunum. (http://www.althingi.is/lagas/139a/1996008.html)

Eins og þú sérð er stundum nytsamlegt að hafa opinberan embættismann í fjölskyldunni.