Örvitinn

Séra Bjarni Karlsson hlustar ekki á rök

Séra Bjarni Karlsson skrifar grein í Fréttablaðið þar sem hann andmælir enn og aftur tillögum Mannréttindaráðs Reykjavíkur um aðkomu trúfélaga að skólum.

Vandamálið er að Bjarni Karlsson hefur sagt þetta allt áður og honum hefur verið andmælt málefnalega. Hann tekur bara ekki mark á rökum. Lætur eins og ekki sé margbúið að hrekja hugmyndir hans.

Andstaða séra Bjarna Karlssonar og fleiri ríkiskirkjupresta við þetta sjálfsagða mál sýnir að ríkiskirkjan hefur annarlega hagsmuni í málinu. Kirkjan er að berjast fyrir því að fá aðgang að börnunum okkar í leik- og grunnskólum. Sú barátta kirkjunnar sýnir hverslags stofnun þetta er.

Tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur eru góðar, málefnalegar og löngu tímabærar - það sjá sumir trúmenn. Andmæli séra Bjarna Karlssonar eru vond, ómálefnaleg og afturhvarf til fortíðar. Hann og aðrir ríkiskirkjusinnar þurfa að átta sig á því að á Íslandi hefur verið trúfrelsi að nafninu til frá árinu 1874.

Hroki Bjarna sést ágætlega:

Vandinn er sá að tillögur mannréttindaráðs bera með sér háskalegan skort á félagslegu innsæi um leið og þær stangast á við almenna félagsvísindalega þekkingu.

Ótal aðilar hafa komið að þessum tillögum, þ.m.t. fulltrúar kirkjunnar. Allt þetta fólk skortir augljóslega innsæi Bjarna.

Þá vil ég einnig vekja athygli á því að tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkur fjalla í raun um heimsmynd almennings. Þar er beinlínis gengið út frá því að veraldleg heimsmynd sé hlutlaus, eðlileg og heilbrigð, en að trúarleg heimsmynd sé einkamál sem fólk skuli eiga við sjálft sig inni á eigin heimilum.

Hvað í ósköpunu á séra Bjarni hér við með "veraldleg heimsmynd"? Tillögur Mannréttindaráðs fela ekki í sér nokkra boðun trúleysis, bara svo það sé alveg á hreinu, Vantrú er ekki á leið í leik- og grunnskólana.

Ég leyfi mér að fullyrða að hin viti borna íslenska alþýða muni aldrei treysta stjórnmálaafli sem taki afstöðu í trúarefnum.

Gengi Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins sýnir að þetta er því miður rangt. Trúmennirnir í Samfylkingunni hafa einnig haft óþarflega mikið vægi.

Þriðja atriðið sem ég nefni sem dæmi um skort á félagslegu innsæi er sú forgangsröðun sem birtist í tillögum mannréttindaráðs. Býsn mættum við vera fegin ef helsta ógnin sem steðjaði að börnum okkar væri sú að innan skólakerfisins væri verið að innræta ómótuðum sálum annarlegar trúarhugmyndir og grensulausir trúboðsprestar léku lausum hala um lóðir og ganga.

Þetta er dæmigerð taktík. Það má ekki gera bragarbót í þessu tiltekna máli vegna þess að ekki er búið að leysa önnur alvarlegri. Séra Bjarni Karlsson sem stærir sig stundum af fimm ára háskólanámi á að vita betur en svo að þetta er ömurleg röksemdarfærsla. Af hverju er Bjarni Karlsson að mótmæla tillögum Mannréttindaráðs meðan börn deyja úr hungri og þorsta í Afríku? Hvað með fátæku börnin á Íslandi? Ha, Bjarni! Ég legg til að séra Bjarni Karlsson hugi að forgangsröðun sinni og steinhætti að andmæla þar til búið er að redda öllum alvarlegri málum .

Loks vil ég benda á þá alvarlegu rökvillu sem fólgin er í hugmyndinni um hlutlausan, ógildishlaðinn vettvang í skólum borgarinnar. Það er almenn félagsvísindaleg vitneskja að hvert félag og stofnun hefur sín gildi, meðvituð og ómeðvituð.

Rökvilla Bjarna er sú að halda að fyrst það sé óhjákvæmliegt að skólinn sé gildishlaðinn vettvangur eigi ríkiskirkjan eða önnur trúfélög að fá aðgang að börnum þar til að boða trú. Séra Bjarni heldur að hlutleysi felist í skoðun hans en áttar sig ekki á því að tillögur Mannréttindaráðs ná líka utan um gagnrýni á kristindóminn hans séra Bjarna - og þann kristindóm er svo sannarlega hægt að gagnrýna. Ég held það myndi fyrst koma svipur á séra Bjarna ef trúleysingjar landsins fengju sama aðgang að skólabörnum og hann sjálfur hefur haft.

Málið er bara að trúleysingjar hafa ekki áhuga á slíkum aðgang. Þeir telja það vera hlutverk heimila að sjá um trúarlegt uppeldi, skólarnir eiga að fræða börn.

kristni pólitík
Athugasemdir

Magnús - 12/07/11 15:20 #

Sættu þig við það, örviti, það er til annað fólk sem hefur aðrar skoðanir en þú. Því fyrr sem þú fattar það, þeim mun betur mun þér eflaust líða.

Matti - 12/07/11 15:21 #

Líður þér illa Magnús Viðar? Hefur þú eitthvað málefnalegt fram að færa?

Ásgeir - 12/07/11 16:57 #

Það hlýtur að teljast meira en lítið ótrúlegt að kalla það „að taka afstöðu í trúmálum“ að vera á móti trúboði í skólum og þá í leiðinni að vera hlynntur slíku sé að taka ekki afstöðu.

Sýnu ótrúlegra er samt en að vera hlynntur slíku trúboði og að segja að slíkt sé þvert á trúarhugmyndir.

Hér er öllu snúið á haus. Þetta er eins vitlaust og það getur verið.

Einar K. - 12/07/11 17:02 #

Það vantar sárlega 'like-fítus' hjá þér. Thumbs up.

Einar Karl - 12/07/11 17:07 #

Góður pistill og vel rökstudd gagnrýni á grein Bjarna.

Einar K. - 12/07/11 17:27 #

Merkilegt nokk, Örvitinn er einmitt að benda á að það er til fólk sem hefur aðrar lífsskoðanir en sr. Bjarni. Bjarni er að verja það að þröngva sínum upp á aðra með fabúleringum og útúrsnúningi. Magnús Viðar kastaði bjúgverpli og fékk hann í hnakkann.

Skortir skjaldsveina trúboðsstarfssemi ríkiskirkjunnar lesskilning yfir höfuð?

Matti - 12/07/11 17:31 #

Það er ekki beinlínis frumleg ásökun að ég eða aðrir trúleysingjar vilji banna fólki að hafa aðrar skoðanir en við.

Einar K. - 12/07/11 17:47 #

Þessi undrabörn túlka okkar málflutning á þann hátt engu að síður. Hversu oft sem þeim er bent á þann misskilning þá virðist það ekkert hafa að segja. Sama vísan er kveðin, enda heilaþvottur sérgrein á þeim bænum. Hverju sem sannleikanum líður.

Matti - 12/07/11 21:58 #

Flugumenn mínir hjá kirkjunni segja mér að mörgum prestum þykir greinin hans Bjarna alveg einstaklega góð.

Einar Karl - 13/07/11 19:09 #

Veit annars einhver hvar tillögurnar endurbættu er að finna á netinu? Ég get ekki fundið þær eftir stutta leit... (og ekki segir Bjarni mikið í sinni stuttu grein um það hvað faktískt stendur í tillögunum!)