Örvitinn

19. grein

19. grein. Kirkjuskipan

Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.

Í frumvarpsdrögum stjórnlagaráðs að stjórnarskrá er grein sem heitir kirkjuskipan!

Fyrirgefið. Ég get ekki kosið með stjórnarskrá sem inniheldur grein um kirkjuskipan. 19. grein kemur í veg fyrir að breytingar verði á sambandi ríkis og kirkju næstu áratugi. Engu máli skiptir fyrir mig hversu góð stjórnarskráin er að öðru leyti.

Ef mér gefst kostur á að kjósa um þessa stjórnarskrá mun ég segja nei. Ég tel að það sé verra að festa 19. grein í sessi heldur en að bíða og fá almennilega veraldlega stjórnarskrá síðar.

pólitík
Athugasemdir

Ragnar Þór Pétursson - 27/07/11 17:21 #

Festir þú ekki núverndi kirkjuskipan frekar í sessi með því að fella þessa stjórnarskrá – sem um leið tryggir gildi skrár þar sem kveðið er á um þjóðkirkju?

Matti - 27/07/11 17:26 #

Að því gefnu að ekkert komi í staðin, þá er það rétt.

Ég vil allt aðra stjórnarskrá, án þessarar 19. greinar, eftir einhver ár.

Ef þessi frumvarpsdrög verða að Stjórnarskrá Ísland eru afar litlar líkur á að henni verði breytt næstu áratugi.

Ef þessum frumvarpsdrögum verður hafnað munu menn þurfa að hefja aftur vinnu og þá munu þeir þurfa að skoða það sem olli því að hún náði ekki í gegn.

Ég geri mér engar vonir um að þessu verði hafnað. Ég tapa öllum þjóðaratkvæðagreiðslum sem ég tek þátt í - á enga samleið með þjóðinni. Sambandi ríkis og kirkju verður ekki breytt að neinu marki meðan ég lifi.

Ragnar Þór Pétursson - 27/07/11 17:39 #

Þessi drög bera þess vitni að allir þurftu að slá af ítrustu kröfum. Þetta er ekki sérlega róttæk stjórnarskrá. Markmiðið varð ,eftir að það glitti í að allt gæti farið í fokk vegna róttæks skoðanaágreinings, að búa til „betri“ stjórnarskrá en við höfum nú þegar. Ekki „bestu“ skrá sem hægt er að hugsa sér. Sem ég held sé skynsamlegt, því besta skrá sem hægt er að hugsa sér í fjölbreyttu lýðræðisríki hlýtur alltaf annaðhvort að vera mjög stutt og almenn eða (eftir því sem hún verður flóknari) ósamræmanleg við vilja hluta þjóðarinnar. Mér t.d. finnst tjáningarfrelsiskaflinn og rétthugsandi. En ég mun styðja þessa skrá (ef ég rekst ekki á eitthvað hræðilegt í henni sem ég hef ekki tekið eftir enn) því hún er, þrátt fyrir allt betri, og um nokkur atriði miklu betri. Og þetta er mesta hreyfing sem komist hefur á grundvallarskipulag ríkisins áratugum saman. Og þegar hlutirnir eru á annað borð komnir á ferð – þá held ég hægt sé að breyta öðrum rykföllnum hlutum í kjölfarið. Nei – myndi held ég ekki leiða af sér naflaskoðun og annað áhlaup – heldur dofa og kyrrstöðu.

Matti - 27/07/11 17:45 #

Vandinn fólst einmitt í þessum "ítrustu kröfur". Ítrustu kröfur þeirra sem vilja fullan aðskilnað ríkis og kirkju voru of hógværar.

Eins og ég sagði í erindi til ráðsins. Við áttum að fara fram á að kristni og önnur trúarbrögð yrðu bönnuð á Íslandi.

Ég er ekki að djóka. Ítrustu kröfur hinna voru að tekið yrði fram í stjórnarskrá að Ísland væri kristið land.

Ég sé ekki að ný stjórnarskrá muni valda slíkum breytingum á stjórnarfari hér á Íslandi að líkurnar á aðskilnaði ríkis og kirkju aukist. Íhaldsmenn allra flokka munu vinna saman, ítök kirkjunnar munu áfram vera sterk í flokkunum.

Ég tel heldur ekki að ef boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu myndi nást aðskilnaður. Kirkjufólk myndi einfaldlega fjölmenna, áróður kirkjunnnar yrði gríðarlega mikill og sinnulausir myndu sitja heima. Þannig að þó meirihluti sé fyrir því er ekki þar með sagt að meirihluti náist í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég lít á þetta sem tapað mál.

Ragnar Þór Pétursson - 27/07/11 17:55 #

Í lýðræðisþjóðfélagi er það verkefnið að breyta hugarfarinu – og skoðunum almennings ÁÐUR en breytingarinnar sér stað hjá löggjöfanum eða í leikreglunum.

Það að vilja „banna“ víðtæk trúarbrögð til þess að breyta staðsetningu „meðaltalsins“ er næstum jafn sturlað og þvaðrið í Kryppumönnum. Svona meinar enginn í alvöru.

Það má vel vera að meirihluti sé enn fyrir þjóðkirkju. En öll rök benda til þess að það sá meirihluti sé álíka staðfastur og vatn sem hylur fjöru á háflóði. Það er að fjara undan kirkjunni. Fyrst og fremst vegna þess að fólk hefur fengið frelsi til að hugsa og ákveða sjálft hvort það sé kristið eða ekki. Það er ekki ákveðið af beturvitrum lengur.

Það er lítið skárra að verða sjálfur beturvitri og taka frelsið og valið aftur frá fólkinu – nú til að neyða það í hina áttina.

Tilneyddur trúleysingi er ekkert skárri en heilaþveginn trúmaður.

Það sem er vert að berjast fyrir er hugarfar fólksins. Ekki táknmyndir um stöðu þess á tilteknu augnabliki. Sú barátta er ekki töpuð. Það er að segja ef markmið manns í baráttunni er sæmilega upplýst og skynsamlegt.

Daníel - 27/07/11 19:49 #

Þar sem afgangurinn af þessari stjórnarskrá er ekki heldur upp á marga fiska og jafnvel síðri en sú gamla held ég að ég verði líka að segja nei. Sjá: http://truflun.net/daniel/?p=855

Matti - 27/07/11 20:01 #

Ragnar, ég held að þú sért að misskilja mig í síðustu athugasemd þinni.

Í lýðræðisþjóðfélagi er það verkefnið að breyta hugarfarinu – og skoðunum almennings ÁÐUR en breytingarinnar sér stað hjá löggjöfanum eða í leikreglunum.

Það var nú aldeilis reynt.

Það að vilja „banna“ víðtæk trúarbrögð til þess að breyta staðsetningu „meðaltalsins“ er næstum jafn sturlað og þvaðrið í Kryppumönnum. Svona meinar enginn í alvöru.

Að sjálfsögðu ekki. Þessu er beint gegn hugmyndinni um "milliveg". Að besta lausnin sé á milli ítrustu krafna. Ítrustu kröfur okkar voru ósköp einfaldlega eðlilega lausnin. Ítrustu kröfur andstæðinga okkar voru glórulaust rugl (Ísland sé kristin þjóð). Öll umræða stjórnlagaráðsfólks var þó þannig að um væri að ræða tvær öfgahliðar og þau væru að finna hógværa lausn. Meira að segja Illugi Jökulsson, sem ég taldi "minn mann" í stjórnlagaráði, mætti í útvarp og talaði um mig (óbeint) eins og öfgamann.

Að sjálfsögðu vil ég ekki banna trúarbrögð en það er öfgahugmyndin sem stilla á upp á móti hugmyndinni um að Ísland sé kristin þjóð og að hér skuli vera kirkjuskipan ríkisins.

Ég er hættur að nenna að berjast. Til hvers? Þetta er allt saman drullusokkapólitík og drullusokkarnir vinna alltaf.

Svo er spurningin hvort restin af þessum frumvarpsdrögum séu eitthvað sérstaklega góð.

Daníel, klausan um að vernda eigi trúfélög og lífsskoðunarfél fór út á síðustu metrunum enda vissu stjórnlagaráðsfulltrúar ekki hvað það þýddi. Ég held þeir viti heldur ekki hvað þessi nítjánda grein þýðir.

Í alvöru talað - hvaða merkingu hefur hún? Bætir hún einhverju við stjórnarskrána? Svarið er: nei. Það eina sem hún gerir er að réttlæta núverandi skipan mál. Ef greinin væri ekki inni er ekki þar með sagt að allt myndi breytast í sambandi ríkis og kirkju, en með hana þarna inni er ljóst að ekkert mun breytast í bráð.

Björn - 27/07/11 21:35 #

Í núverandi stjórnarskrá landsins stendur berum orðum að hin evangelísk lúterska kirkja sé þjóðkirkja á Íslandi. Í þessum drögum stendur hins vegar að "í lögum megi kveða á um kirkjuskipan ríkisins"

Verði þessi drög því að stjórnskipunarlögum þarf Alþingi að samþykkja lög um kirkjuskipan ef vilji þess er til þess að þjóðkirkjan haldi núverandi stöðu sinni.

Í 65. grein draganna stendur svo að 10% kjósanda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt.

Væri þá Vantrú/Siðmennt ekki í lóga lagt að hefja allsherjarundirskriftasöfnun og knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið? Sýna ekki skoðanakannanir að mikill meirihluti landsmanna vill aðskilnað?

Í 66. grein kemur svo fram að 10% kjósenda geti einnig lagt fram frumvarp á Alþingi. Væri því ekki hægt að leggja fram stjórnarskrábreytingu um afnám 19. greinar úr stjórnarskránni?

Matti - 27/07/11 21:41 #

Ég sé ekki að Alþingi þurfi að samþykkja nokkur lög um kirkjuskipan til að Þjóðkirkjan haldi núverandi stöðu sinna. Í lögum er nú þegar kveðið um kirkjuskipan ríkisins.

Væri þá Vantrú/Siðmennt ekki í lóga lagt að hefja allsherjarundirskriftasöfnun og knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið? Sýna ekki skoðanakannanir að mikill meirihluti landsmanna vill aðskilnað?

Eins og ég sagði hér á undan, þá er þetta mál þess eðlis að ég held ekki að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi vinnast. Fyrir því eru tvær ástæður:

  • Ríkiskirkjan er rík stofnun og hefur mikil ítök í fjölmiðlum, bæði einka- og opinberum.
  • Stór hluti íslendinga eru sinnulausir og myndu ekki nenna að mæta á kjörstað, jafnvel þau þeir styðji og vilji aðskilnað.

Í 66. grein kemur svo fram að 10% kjósenda geti einnig lagt fram frumvarp á Alþingi. Væri því ekki hægt að leggja fram stjórnarskrábreytingu um afnám 19. greinar úr stjórnarskránni?

Í 19. grein kemur fram að ekki er hægt að breyta kirkjuskipan fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég held að menn myndu túlka niðurfellingu 19. greinar með sama hætti.

Halldór L. - 27/07/11 21:43 #

Jafnvel þó að það yrði samþykkt í þjóðaratkvæði, sem virðist koma fyrst, þá myndi Alþingi aldrei samþykkja slíkt frumvarp.

Lalli - 27/07/11 22:34 #

Mér finnst þetta vera hálfur sigur að taka ríkiskirkjuna út og setja eitthvað sem kallast kirkjuskipan í staðinn. Held að ég kjósi með þessu því þetta er framfaraspor þótt minna sé en vonir stóðu til.

Gæti þó skipt um skoðun á þessu á morgun.

Matti - 27/07/11 22:36 #

Ég líka.

Ragnar Þór Pétursson - 27/07/11 23:33 #

Það merkilega er að meðan ég skrifaði þetta blogg til varnar nýju Stjórnarskránni fóru að renna á mig tvær grímur. Ég veit ekki alveg hvar ég enda.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 28/07/11 09:03 #

Ragnar, mér finnst þessar setningar úr greininni þinni lýsa vel því sem Matti hefur verið að tala um:

Það sátu róttækir trúleysingjar í stjórnlagaráði. Menn með sterkar skoðanir á því að kirkjan skyldi út með öllu. En þeir áttuðu sig á því að þeir voru ekki bara að skrifa lýsingu á sjálfum sér eða sínum hugsjónum. Þeir voru að lýsa þjóðinni sinni.

Þarna hljómar eins og maður þurfi að vera "róttækur trúleysingi" og að það þurfi einhverjar "sterkar skoðanir" til að vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Staðreyndin er sú að það er afskaplega hófsöm og sanngjörn krafa að vilja aðskilnað ríkis og kirkju.

Ragnar Þór Pétursson - 28/07/11 09:33 #

Hjalti, ég lýsi áliti hins hófsams andstæðings kirkju-ríkissambandsins svona: „Hvað er 21. aldar, upplýst lýðræðisríki að burðast með geistlega stofnun í stjórnarskrá sinni? Af hverju á ríkið að skipta sér af kirkjuskipan? Eða taka þátt í trúrekstri? Aðskilnaður ríkis og trúar er eitt af stóru framfaramálum vestræns lýðveldis. Og hér ætla Íslendingar að klúðra dauðafæri.“

Ég er alls ekki að segja að aðeins róttækir vilji skera á tengslin. Ég er aðeins að segja að það voru róttækir trúleysingjar í hópnum sem vildu alveg sérstaklega skera á tengslin – af töluverðri ákefð.

Það þarf alls ekki róttækan mann til að vilja rjúfa tengsl ríkis og kirkju – en það þarf heldur ekkert voðalega róttækan mann til að vilja ekki rjúfa tengslin. Fullt af fólki vill halda í einhver tengsl og af ýmsum ástæðum: menningarlegum og praktískum.

Matti - 28/07/11 09:49 #

Fínar umræður og pælingar Ragnar. Auðvitað er ég dálítið fúll eins og er og skoðanir mínar myndast af því. Það má vel vera að ég skipti um skoðun. Stjórnarskrárdrögin eru betri en stjórnarskráin hvað varðar samband ríkis og kirkju. Spurningin er hvort þetta dugar. Eins og er, þá held ég ekki.

Það sem ég myndi vilja sjá núna er vandaður samanburður á þessu plaggi stjórnlagaráðs og núverandi stjórnarskrá. Sett upp þannig að sambærilegum greinum er stillt upp hlið við hlið, þær sem falla út merktar sérstaklega og einnig það sem kemur nýtt inn. Svona svipað og við forritarar notum til að skoða muninn á gömlum og nýjum kóða.

Halldór E. - 28/07/11 10:18 #

Mig langar að deila með ykkur hér sjónarhorni mínu sem trúaðs kristins manns.

Þetta snýst fyrst og fremst um að menningar- og sögulega kristnir Íslendingar treysta ekki þjóðkirkjunni til að ráða fram úr eigin málum og vilja vernda kirkjuna fyrir sjálfri sér með því að Alþingi Íslendinga hafi lokaorðið um innri mál kirkjunnar (kirkjuskipan).

Hræðslan um að kirkjan skaði sjálfa sig og aðra ef hún nýtur ekki umsjónar Alþingis byggir að mínu mati að hluta til á þörf embættismanna fyrir starfsöryggi, kvíðanum fyrir því óþekkta, hræðslunni við að kirkjan taki afstöðu, óttanum við að deilur innan kirkjunnar magnist í kjölfarið og ekki síst vantrú á að kirkjan hafi burði til að takast á við alvöru vandamál án utanaðkomandi stuðnings. Ég minnist þess einnig að hafa séð ungan guðfræðinema skrifa um hættuna á að kirkjan verði trúfélag :-), en ekki sameinandi menningarstofnun í samfélaginu :-).

Í mínum huga er þörfin fyrir að láta Alþingi skipta sér að innri málum kirkjunnar (kirkjuskipun) yfirlýsing um að kirkjunni sé ekki treystandi til að standa á eigin fótum og að kirkjan sé helgisiðastofnun ríkisins (civil religion fyrirbæri) fremur en að um trúfélag sé að ræða.

Ég ætla einhvern tímann að skrifa um þetta á bloggið mitt, en þessa dagana er ég of upptekinn við trúfræðslu ungmenna og skrif kristilegs boðunarefnis til að nota á Íslandi að það verður að bíða betri tíma. :-)

Hjalti Rúnar Ómarsson - 28/07/11 11:02 #

...með því að Alþingi Íslendinga hafi lokaorðið um innri mál kirkjunnar (kirkjuskipan).

Hvað ertu eiginlega að bulla Elli, veistu ekki að kirkjan er aðskilin frá ríkinu og sjálfstæð? ;)

En ef til vill eru þessar útskýringar þínar á því að fólk sé á móti aðskilnaði ríkis og kirkju of flóknar. Kannski bara vill fólk sem hefur forréttindi ekki afsala sér þessum forréttindum (neinei, það er örugglega eitthvað til í því sem þú segir)

... hræðslunni við að kirkjan taki afstöðu,...

Hin hugrakka kirkja! :)

...og skrif kristilegs boðunarefnis til að nota á Íslandi...

:o Leyfðu mér að giska: Þetta er fyrir börn!

Hjalti Rúnar Ómarsson - 28/07/11 11:06 #

Hjalti, ég lýsi áliti hins hófsams andstæðings kirkju-ríkissambandsins svona:...

Ef þetta er hófsamur andstæðingur ríkiskirkjufyrirkomulagsins, hvernig hljómar þá hinn róttæki trúleysingi? Ég held nefnilega að hann hljómi alveg nákvæmlega eins, og hvers vegna er hann þá "róttækur"?

Ragnar Þór Pétursson - 28/07/11 11:35 #

Matti, ég er sammála. Við þurfum samanburðarplagg og fyrst og fremst skýringu á því hvað liggur á bak við hvaða breytingar.

Halldór (Elli?), ég hefði haldið að stærsti þrándur í götu þess að kirkjan verði alveg aðskilin frá ríkinu snúist um peninga. Kirkjueignir sem nú hafa runnið inn í ríkið og enginn veit hvað eigi að gera við. Næst á eftir held ég að margir kirkjunnar menn telji að „þjóðin“ sé kristin – og það sé engin ástæða til að afneita því í nafni pólitískrar rétthugsunar.

Hjalti: Hinn róttæki trúleysingi hljómar t.a.m. svona: „Við hefðum átt að fara fram á að kristni yrði bönnuð til mótvægis við trúarnötterana.“

Halldór E. - 28/07/11 13:00 #

Sumir hér kalla mig Ella aðrir Halldór E., þannig er það víst bara :-)

Ég hallast meira og meira að því að peningarnir séu ekki raunverulega málið og tel mig geta fært rök fyrir því. Hins vegar eru launakjör og starfsöryggi presta að sjálfsögðu hluti af málinu.