Örvitinn

Hvað er stökkbreytt lán?

Mótmælin í gær snerust víst fyrst og fremst (samkvæmt sumum) um verðtrygginguna ógurlegu og "stökkbreytingu lána".

Siðferði íslendinga hefur breyst fólk lætur ekki bjóða sér þetta rugl lengur það svarar bara með krafti mætir og mótmælir..og hana nú ..og vonandi fáum við leiðréttingu á stökkbreytingu lána.
...
Ef verðtryggingin yrði löguð og sanngjarnlega lagað stökkbreyttu lánin tel ég að það skapi þjóðarsátt #
...
Farið er fram á að stökkbreytt lán heimilanna verði leiðrétt miðað við stöðu þeirra fyrir hrun og afnám verðtryggingar. #

Nú spyr ég eins og örviti: Hvað er stökkbreyting lána? Hvað þarf lán að hækka mikið til að hægt sé að tala um að það hafi stökkbreyst en ekki bara ... "hækkað" (því lán eru með vöxtum og eiga það til að hækka, sér í lagi jafngreiðslulán)? Voru það ekki fyrst og fremst erlendu lánin sem hækkuðu mjög mikið og er ekki búið að dæma þau ólögmæt og breyta?

pólitík
Athugasemdir

Erna Magnúsdóttir - 02/10/11 15:08 #

En var ekki óðaverðbólga í kjölfar hruns krónunnar sem hafði nákvæmlega sömu áhrif á verðtryggðu lánin?

Matti - 02/10/11 15:19 #

Tja, ef við miðum við hið eiginlega hrun, í októrber 2008, þá hefur Vísitala neysluverðs hækkað um 21% miðað við vísitöluna fyrir september 2008. Launavísitala hefur á sama tímabili hækkað um 16% (ekki komnar tölur fyrir sept 2011, ég notað ágúst).

Erna Magnúsdóttir - 02/10/11 15:53 #

Þú segir nokkuð! Vissi ekki að launavísitalan hefði hækkað svona mikið.

Fannst líka merkileg fréttin á Rúv um daginn að Íslendingar borguðu að meðaltali lægsta hlutfall launa í húsnæði á öllum Norðurlöndunum. En ég hefði viljað sjá dreifinguna á hlutfallinu líka, ekki bara meðaltalið til að gera mér grein fyrir hvað stæði á baki þessara talna.

Ég gæti trúað því (þrátt fyrir að ég viti í raun ekkert um það) að það séu hlutfallslega fleiri sem borguðu hátt hlutfall en á öðrum Norðurlöndum en það balanserist út með fjölda manns sem borgar hlutfallslega mjög lágt hlutfall..

Matti - 02/10/11 15:53 #

Formaður verkalýðsfélags Akraness flutti ræðu á Austurvelli. Ég skil enn ekki hvenær lán hættir að hækka og fer að stökkbreytast.

Merkilegt svo þetta tal um að ríkið og fjármálastofnanir ætli að láta skuldara taka á sig allan skellinn af hruninu. Er fólk búið að gleyma því að fjármálastofnanir landsins eru gjaldþrota upp til hópa, að Íbúðarlánasjóður er stærsti einstaki kröfuhafi húsnæðislána og að ríkissjóður erum við, skattborgarar. Að ríkissjóður hefur verið rekinn með gríðarlegum halla frá hruni og að við og börnin okkar munum þurfa að greiða það.

Lífeyrissjóðir þurfa svo að standa undir greiðslum til okkar þegar við hættum að vinna. Sjóðirnir eru eign þeirra sem í þá greiða.

Nei, hinn raunverulegi fjármagnsflutningur sem Hagsmunasamtök heimilanna og fleiri eru að fara fram á er flutningur fjár frá þeim sem skulda lítið til þeirra sem mikið skulda. Flóknara er málið ekki í eðli sínu. Ef þetta á að framkvæma á Íslandi í dag þykir mér sanngjarnt að eignir verði líka færðar á milli. Að ég fái að skipta á bil við einhvern sem fær niðurfellingu bílalána, fái að skipta á húsi við annan sem fær niðurfellingu húsnæðislána. Væri það ekki nokkuð sanngjarnt?

Matti - 02/10/11 15:56 #

Þegar fólk talar um verðtryggingu á Íslandi og að hún sé rót alls ills gleymir það stundum að hér taka flestir jafngreiðslulán sem í eðli sínu hækka þar sem fólk greiðir bara vexti í upphafi lánstímans. Staðreyndin er að fæstir hefðu efni á að taka jafn há lán ef fólk þyrfti að greiða bæði vexti og afborganir allan tímann.

Ef húsnæðislán væru ekki flest jafngreiðslulán hefði hrunið skollið mun verr á fólki þar sem afborganir hefðu hækkað mun meira. Í staðin hefur höfuðstóll hækkað "mikið" en afborganir "minna".

Þar sem launavísitala hefur hækkað meira en vísitala verðlags til lengri tíma segir það sig sjálft að það borgar sig að fresta greiðslum til lengri tíma litið.

Skammtímasveiflur geta svo haft afskaplega neikvæð áhrif.

Erna Magnúsdóttir - 02/10/11 16:13 #

Já þetta með skammtímasveiflurnar er merkileg pæling og að því leiti held ég að verðtryggingin sem viðhöfð er á Íslandi geti verið óhagstæðari en sú sem tíðkast annars staðar þegar kemur að stuttum verðbólguskotum, sem velta þá beint inn í höfðustól. En annars veit ég ekkert um það, þarf að fara að spurja fólk hérna í UK meira út í húsnæðislánin þeirra...

Hins vegar tíðkast til dæmis ekki hér í UK að verðtryggja námslán, þannig að fólk er mun fljótara að borga þau upp hér en á Íslandi og er samt að borga svipað launahlutfall og ég er að borga.

Valgarður Guðjónsson - 02/10/11 19:01 #

Það er nefnilega ekki verðtryggingin sem er að fara illa með lántakendur, heldur háir vextir. Þegar erlendu lánin voru endurreiknuð var miðað við gildandi hæstu vexti í stað umsamdra vaxta.

Vanþekking fréttamanna hjálpar ekki til, nýlega flutti Rúv frétt með dæmi um að verðtryggt lán hefði hækkað miklu meira en óverðtryggt. Og tóku ekki fram að annað lánið var jafngreiðslulán en hitt ekki.

Ég átta mig ekki á því hvort þessi umræða stýrist af vanþekkingu, óskhyggju, skilningsleysi eða beinlínis vilja til að villa um fyrir fólki.

En þetta hjálpar ekki til að finna lausnir.

Eva Hauksdóttir - 02/10/11 20:20 #

Gjaldþrota bankar já. Hagnaður Arion banka á árinu 2010 nam 12,6 milljörðum króna eftir skatta.

Matti - 02/10/11 21:41 #

Þegar erlendu lánin voru endurreiknuð var miðað við gildandi hæstu vexti í stað umsamdra vaxta.

Voru þessir tilteknu vextir hærri en verðbólga + almennnir vextir á verðtryggð lán á sama tíma? Ég held ekki. Raunávöxtun var neikvæð á tímabili.

Arion banki er nýr banki. Forveri hans varð ekki bara gjaldþrota heldur var gjaldþrot hans eitt af stærstu gjaldþrotum sögunnar, ekki bara hér á landi heldur í heiminum.

Kröfuhafar íslensku bankanna (þessir kröfuhafar eru svo sannarlega fjármagnseigendur) töpuðu um sjö þúsund miljörðum á falli íslensku bankanna. Ein ástæða þessa stóra taps er að hér voru sett neyðarlög og aðrar kröfur færðar fram fyrir kröfur þeirra. Það er því frekar skrítið að tala um að hér hafi allt verið gert fyrir fjármagnseigendur.

Auk þess er hagnaður bankanna enn sem komið er bara til á pappír útaf endurmati eigna, það er lítill sem enginn hagnaður af rekstri þeirra. Eigendur bankanna geta ekki greitt sér út arð og hafa enn sem komið er ekkert grætt.

Valgarður Guðjónsson - 02/10/11 22:17 #

Þegar erlendu lánin voru endurreiknuð var miðað við gildandi hæstu vexti í stað umsamdra vaxta.

Voru þessir tilteknu vextir hærri en verðbólga + almennnir vextir á verðtryggð lán á sama tíma? Ég held ekki. Raunávöxtun var neikvæð á tímabili.

Þeir voru klárlega miklu hærri en samningsvextir og verðbólga. Ég hefði verið mjög sáttur við verðtryggingu og samningsvexti - þarna munaði stórum upphæðum.

Matti - 02/10/11 23:19 #

Hjá Umboðsmanni skuldara segir:

Til að endurreikna lán með ólögmætri gengistryggingu er miðað við lægstu vexti Seðlabanka Íslands og eru því vaxtatöflur bankanna óþarfar. Vexti Seðlabankans er að finna hér.

Í lögum segir:

Sé lánssamningur til lengri tíma en fimm ára skal að loknu uppgjöri skv. 5. mgr. miða við lægstu vexti á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 10. gr. #

Ég skil þetta ekki. Þarna er talað um lægstu vexti, ekki hæstu.

Valgarður Guðjónsson - 03/10/11 00:08 #

Lægstu vextir hjá Seðlabanka á þessum tíma voru talsvert hærri en þeir vextir sem tilgreindir voru í samningi.. ég veit svo sem hver rökin voru - að ekki væri hægt að láta samningsvexti standa þegar lánunum var breytt í íslenskar krónur - en er sem sagt ekki sammála.

Matti - 03/10/11 00:14 #

en þeir vextir sem tilgreindir voru í samningi

Já, ég skil þig núna. Þú ert að tala um vextina í upprunalega samningnum um erlenda lánið.

Ég sé ekki alveg sanngirni í því að fólk sem tók gengistryggt lán með afar lágum vöxtum fái að halda lágu vöxtunum en sleppa gengistryggingunni. Rökin fyrir því að samningsvextir gætu ekki staðið voru þau að það væri ekki sanngjarnt gagnvart mótaðila, það hefði enginn lánað á 2-3% vöxtum óverðtryggt.

Lánum var því breytt á þann veg að fólk fékk hagstæðustu verðtryggða vexti sem í boði voru - hagstæðari en húsnæðislánið mitt.

Mér finnst það ekkert rosalega ósanngjarnt. Sérstaklega ekki í því ljósi að ég sé ekki að það hafi verið brotið á einum einasta aðila sem tók erlent lán á sínum tíma. Fólk hafði val og valdi þennan kost.

Einhverjir hafa eflaust viljað halda upprunalega gengistryggða láninu þrátt fyrir ólögmætið og mér finnst að fólki hefði átt að standa það til boða.

Valgarður Guðjónsson - 03/10/11 00:22 #

Já, og kannski punkturinn að mér finnast vextir of háir - og hafa verið of háir - líka hjá þeim sem voru með innlend lán.

Ég er ekki að tala um 2-3% óverðtryggt, en eitthvað á þeim nótum verðtryggt.

Það hefði nefnilega ekki verið svo slæmt ef við hefðum ekki verið að bjóða þessa háu vexti - en það er önnur saga.

Ég vildi reyndar halda erlenda láninu samkvæmt samningi en það var ekki í boði.

Matti - 03/10/11 00:29 #

Ég er alveg sammála því að vextir eru of háir (á því sem ég skulda) en á móti kemur að mér þykja vextir frekar lágir (á því sem ég á í banka) (ég er nefnilega líka einn af þessum skelfilegu fjármagnseigendum).

2-3% verðtryggt hljómar sanngjarnt. Ég fæ 2.45% vexti á verðtryggðum innlánsreikningi hjá Byr, bundið til þriggja ára. Af því þarf svo að draga frá fjármagnstekjuskatt og eftir stendur frekar lítið þar sem sá skattur er einnig reiknaður af verðbótum. Einhver kostnaður er víst fólginn í því að reka banka. Þá er spurningin hvað er mögulegt að bjóða upp á lága vexti á Íslandi í dag án þess að ríkið (við) eða lífeyrissjóðir (við) séum að niðurgreiða.

Ég sé ekki aðra lausn en Evruna.

Matti - 03/10/11 09:28 #

"Skemmtilegur" samanburður hjá Jóni Magnússyni.

Á sama tíma og raunverð fasteigna hefur hrunið og lækkað miðað við Evru eða Bandaríkjadal um 70% frá 2008 þá hefur höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkað og hækkað.

Af hverju miðar hann bara annað við Evru eða Bandaríkjadal en ekki hitt?

Heywood Jablome - 03/10/11 10:06 #

"Af hverju miðar hann bara annað við Evru eða Bandaríkjadal en ekki hitt?"

Best væri að miða allt við sömu mynt, og þá launin líka.

Þá kæmi fram að fasteignaverð hafi lækkað, lán staðið nokkurn veginn í stað og laun lækkað um ótrúlegar upphæðir.

Þetta snýst nefnilega um laun, eða réttara sagt; kaupmátt! Þar hefur virkilega hallað á íslenska neytendur sem flestir hafa kvartað yfir stærsta útgjaldaliðnum: Húsnæði.

Ég er nefnilega innilega sammála þér í því sem þú ritar kl. 00:29: "Ég sé ekki aðra lausn en Evruna."

Hildur - 03/10/11 18:33 #

Sammála því að þetta snúist fyrst og fremst um kaupmátt frekar en "stökkbreytingu" eða "forsendubrest" eða hvaða nöfnum sem það kann að heita samkvæmt baráttufólkinu.

Og kaupmáttur hefur minnkað allverulega hjá okkur flestum, ekki bara hjá fólki sem er með húsnæðislán. Mér, sem íbúa í leiguhúsnæði, dauðleiðist að heyra lántakendur í eigin húsnæði barma sér yfir því að lánin þeirra hafi hækkað svo mikið og eignastaðan sé neikvæð. Hið rétta er að kaupmáttur hefur minnkað til jafns hjá þeim og hjá okkur hinum og því er ekki hægt að halda því fram að þau eigi neitt inni frekar en við.

Svo er ég líka mótfallin tali um að fólk sem hafi keypt dýr húsnæði sem féllu svo í verði hafi tapað einhverju. Niðurstaðan af kaupunum þarf ekki endilega að vera tap nema fólk selji húsnæði sín núna. Og jafnvel þá er það samt bara eðli markaðarins. Sagt er að um leið og nýr bíll er keyptur falli hann um 30% í verði. Það er ekki þar með sagt að einhver skuldi þá kaupandanum eða að hann hafi tapað neinu.

Matti - 04/10/11 09:01 #

Kaupmáttur hefur einmitt minnkað töluvert.

Enn hef ég ekki áttað mig á því hvenær lán hættir að hækka og byrjar að stökkbreytast.

Sigurður Karl Lúðvíksson - 06/10/11 22:25 #

Verðtryggða húsnæðislánið mitt með 4.15% vöxtum fór úr 12,5 milljónum 2004 í 19,5 milljónir 2010. Stökkbreyting er svosum ekkert vitlausara orð yfir þetta en annað.

Matti - 07/10/11 09:48 #

Tja, þetta er náttúrulega jafngreiðslulán og þau hækka alltaf fyrri hluta lánstímans.

Þessi hækkun jafngildir 7.8% hækkun lánsins á ári. Nokkuð stíft en stökkbreyting?

Mitt húsnæðislán var um 6 milljónir 2000 þegar við tókum það, er 10 í dag.

Einar Jón - 07/10/11 13:42 #

Þessi hækkun jafngildir 7.8% hækkun lánsins á ári.

Ehm... Þetta jafngildir 7.8% hækkun á ári ef ekkert er borgað af því. Raunverulegt gildi er næstum tvöfalt hærra.

Samkvæmt lánareikni VR er hægt að fá út svipaðar tölur með 10% verðbólgu á 40 ára láni. http://vr.datamarket.net/lanareiknir/

Matti - 07/10/11 14:58 #

Ehm... Þetta jafngildir 7.8% hækkun á ári ef ekkert er borgað af því

Sem er það sem jafngreiðslulán er í upphafi, nær ekkert er borgað af höfuðstól.

Annað þarf fólk að hafa í huga þegar það reiknar verðbólgu og heildargreiðslu til langs tíma. Laun hækka líka. Þannig þýðir ekkert að skoða heildargreiðsluna bara með tilliti til verðlagsins í dag heldur þarf að framreikna verðlag og laun líka.

Heildarkostnaður láns, framreiknaður, getur verið há tala miðað við núverandi verðlag en ósköp eðlileg miðað við verðlagið þegar lán er uppgreitt.

Þegar þetta er svo borðið saman við lán þar sem hraðar er greitt inn á höfuðstól þarf að framreikna þær hærri greiðslur til að samanburður sé eðlilegur.

10.000 krónur sem ég greiði inn á lán í dag eru meira virði en 10.000 krónur sem ég greiði inn á það eftir tíu ár.

Erlendur - 07/10/11 18:56 #

Hmm, það er áhugavert að skoða uppreiknaðan höfuðstól. Ég á við íslenska krónu dagsins í dag og fyrir nokkrum árum. Höfuðstóll upp á 6 milljónir árið 2000 (vísitala neysluverðs=199,1) jafngildir 10,9 milljónum (vn=363,2). 12,5 milljónir árið 2004 (vísitala neysluverðs=234,6) eru 19,35 milljónir árið 2010 (vn=363,2). Þannig að það er ekki verið að greiða mikið inn á höfuðstólinn.

Matti - 07/10/11 19:30 #

Einmitt, vegna þess að þetta eru jafngreiðslulán, þá er lítið borgað inn á höfuðstól á fyrri hluta lánstíma (við borgum um 6 þúsund á mánuði inn á höfuðstól).

Jafngreiðslulán hafa töluvert minni greiðslubyrði í upphafi heldur en lán þar sem alltaf er borguð sama krónutala (nafnverð)

Már - 08/10/11 21:44 #

Hér er bara á ferðinni kynslóð fólks sem hefur aldrei áður þurft að skilja verðbólgu.