Örvitinn

Árekstur á Vesturlandsvegi

Flestar fréttir fjalla um annað fólk, við lesum þær og smellum svo á næsta link, spáum í eitthvað annað. Atburðirnir snerta okkur lítið.

Ég og Kolbrún dóttir mín lentum í þessum sex bíla árekstri í gær. Vorum ekki í bílunum sem skullu saman en þurftum að sveigja frá til að lenda ekki aftan á, lentum í frekar litlu samstuði við annan bíl og enduðum utan vegar. Bæði ómeidd en bíllinn skemmdur, höggið kom á hjólabúnað að aftan bílstjóramegin. Það meiddist enginn í bílnum sem við lentum saman við.

Barnið og maðurinn biðu í okkar bíl eftir hjálp og hundurinn þeirra reyndar líka. Konan var ekki hreyfð úr bílnum. Í bílnum sem lenti á þeim voru feðgar sem meiddu sig en virtust ekki illa slasaðir, voru aumir eftir bílbelti og loftpúða. Eftir að búið var að fara með alla meidda í sjúkrabíl kom ég hundinum til lögreglunnar sem ætlaði að koma honum á góðan stað. Tengdaforeldrar mínir sóttu okkur og skutluðu heim. Það varð ekkert úr ferðinni í Ensku húsin þessi jólin.

Konan er alvarlega slösuð. Jafnar sig vonandi með tíð og tíma og þau öll.

Bíllinn er á verkstæði, kostar mig eflaust eitthvað en við erum vel tryggð. Peningar og bílar skipta samt engu máli, heilsan er fyrir öllu.

Það var til fyrirmyndar að fylgjast með fólki á vettvangi, allir hjálpuðust að, aðstoðuðu þá sem höfðu meitt sig, sóttu teppi og sjúkrakassa, huguðu að litla barninu og komu upplýsingum til neyðarlínunnar. Hjúkrunarfræðingur á vettvangi stóð sig eins og hetja.

dagbók
Athugasemdir

Daníel - 27/12/11 17:10 #

Gott að heyra að þið sluppuð óslösuð frá þessu. Mér heyrist þessi hjúkrunarfræðingur eiga hrós skilið og við skulum vona að heilbrigðiststarfsfólkinu á spítalanum takist að koma konunni sem slasaðist til góðs bata.

Henrý Þór - 27/12/11 18:09 #

Gott að þið sluppuð vel. Skítt með bílinn, það má laga hann. Vonandi að enginn hafi fengið hnykk á sig.

Þessi sem þurfti tvö spil til að komast aftur á veginn var ég: http://mbl.is/frettir/innlent/2011/12/22/thrju_utkoll_a_holtavorduheidi/

Ef það hefði ekki verið svona mikill snjór þarna hefðum við sennilega oltið, því bíllinn endaði í 45° halla utan við veginn.

Krökkunum leið ekkert voðalega vel í sortanum uppi á heiði. En það bjargaði heldur betur deginum þegar björgunarsveitarbílar með hazard ljós mættu til bjargar ;)

Íslendingar eru líka skemmtilega kammó og hugulsamir þegar þeir keyra fram á einhvern í vanda, þannig að manni leiddist ekkert þarna uppfrá. Talaði við fleira ókunnugt fólk á þessum rúmu tveim tímum en maður gerir allajafna á 1-2 vikum annars..

Einar - 27/12/11 18:45 #

Gott að heyra að þið eruð óslösuð. Heyrði einmitt fréttir af þessu í gær.

Vonandi að allir jafni sig vel.

Lenti í því sjálfur að lenda í umferðaróhappi 24. des 1997, var ekki beint skemmtilegt. :/

kv.