Örvitinn

Leiðari Morgunblaðsins - vinstri stjórnin í Norður-Kóreu

Leiðari Morgunblaðsins í dag endar svona:

Norður-Kórea er einstök um margt. Það er kommúnistaríki þar sem alþýðan ræður öllu, eins og jafnan í slíkum ríkjum, en í þessum hluta Kóreu hefur alþýðan komið því þannig fyrir að alræðisvald hennar flyst til innan fjölskyldu Kims Il Sungs, sem, að syni hans og sonarsyni ólöstuðum, var langfremstur meðal jafningja, stórbrotinn, elskaður og virtur. Hefur þetta konungstilbrigði við alræðisvald alþýðunnar gefist mjög vel og hefur verið bent á að ríkisstjórn Kims Il Sungs, sonar hans og sonarsonar, sé fyrsta hreina vinstristjórnin sem verið hafi í Norður-Kóreu, og allir vita hve þýðingarmikið er að slíkar stjórnir haldi velli sem lengst, svo skínandi blásnauðum almenningi megi farnast vel.

Hvað er hægt að segja um þennan málflutning? Er Davíð Oddsson í alvörunni á þessu þroskastigi? Eru áskrifendur Morgunblaðsins á þessu þroskastigi?

Klassískt að nota aðferðina "hefur verið bent á" þegar menn skrifa svona drullu.

fjölmiðlar
Athugasemdir

Einar - 29/12/11 11:21 #

Maðurinn er veruleikafirrtur. Er svona efni boðlegt fyrir eitt elsta dagblað landsins. Maðurinn verður sjálfum sér til skammar.

Matti - 29/12/11 11:25 #

En hann er búinn að safna kringum sig "stuttbuxnadrengjum" sem taka undir þetta allt saman. Davíð er kóngurinn.

Á leiðarasíðunni er líka aðsend grein frá Halli Hallssyni, klappstýru nr. 3 (Hannes er númer eitt, Björn Bjarna er annar) þar sem hann fjallar um kommúnista og Vantrú!

Morgunblaðið er djók.

Kristján Kristinsson - 29/12/11 12:31 #

Það sem Hallur Hallsson skrifar um Vantrú í blaðinu í dag og þau orð sem hann notar um meðlimi félagsins er ekkert annað en hatursáróður.

Leiðari Davíðs er í senn sjúklegur og sjúklega lélegur.

Matti - 29/12/11 12:34 #

Það er rétt, þetta er hreinn og klár hatursáróður í boði Morgunblaðsins.

Skeggi - 29/12/11 14:00 #

Einhver með krækju á grein Halls? Þekki orðið engan sem kaupir þetta prentrit.

Matti - 29/12/11 14:05 #

Hér er greinin:

Af kjánum og kommúnistum
Á undanförnum misserum hafa komið út stórmerk rit um íslenska kommúnista og tengsl þeirra við hina alþjóðlegu helstefnu. Kjánarannsóknir er fyrirsögn pistils Árna Matthíassonar hinn 21. desember síðastliðinn um verk Þórs Whitehead, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og Snorra Bergssonar. Að mati blaðamanns eiga rannsóknir á sögu íslenskra kommúnista ekki erindi við almenning: "...frekar heima á vefsetrum sagnfræðinga og í tímaritum sem helguð eru slíkum fræðum...".

Það er ástæða til að staldra við þessar hugleiðingar blaðamanns; er það virkilega svo að rannsóknir á sögu kommúnista eigi ekki erindi við venjulegt fólk; getur verið að helstefnan, sem Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirssonar boðuðu landsmönnum beri bein sín á öskuhaugum sögunnar og alþýðufólk þurfi ekki að óttast að vofan fari aftur á kreik? Getur verið að kommúnismi eigi rætur í sérstöku hugarfari beiskju, heiftar og stjórnlyndis?

Þetta eru áhugaverðar spurningar.
Fyrir nokkru birtust þjóðinni hrollvekjandi greinar í Morgunblaðinu eftir Börk Gunnarsson blaðamann: Heilagt stríð Vantrúar var fyrirsögnin sem sótt var í herkvaðningu félagsskaparins Vantrú sem berst gegn kristinni trú. Þjóðin fékk innsýn í vinnubrögð manna sem einskis svífast; innsýn í hatur og heift, stjórnlyndi og mannfyrirlitningu. Aðförin að kennara við Háskóla Íslands er ógeðfelld, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, og áhyggjuefni að slíkar nornaveiðar eigi skjól í æðstu menntastofnun landsins.

Taktík Vantrúar ber keim af taktík kommúnista 20. aldar. Vofan er komin á kreik.

Mun hennar tími koma?