Örvitinn

Trúarlegu skáparnir

prestar "Íslendingar verða að koma út úr sínum trúarlegu skápum og þora að tala um trú og trúarbrögð af viti og yfirvegun" segir ríkiskirkjuprestur á Facebook og vísar á grein Sigurðar Pálssonar sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Getur verið að þessi prestur og fleira ríkiskirkjufólk átti sig ekki á að Íslendingar eru ekkert sérstaklega kristnir.

Þetta snýst ekki um að fólk komi úr sínum trúarlegu skápum - heldur að það er enginn fjöldi trúaðra Íslendinga sem ekki þorir að tjá sig. Kristnir Íslendingar eru ekki í sömu stöðu og samkynhneigðir, þeir eru ekki kúgaður minnihlutahópur. Þeir eru minnihlutahópur í forréttindastöðu, minnihlutahópur sem kúgar í krafti hefðar.

Stóri kristni meirihlutinn, sem presturinn heldur að leynist í skápum, er ekki til. Það er goðsögn að kristnir séu meirihluti landsmanna. Rétt rúmlega helmingur þjóðarinnar sagðist kristinn árið 2004. Ég tel líklegra að sá hópur hafi minnkað en stækkað. Um þriðjungur þjóðarinnar trúir á grundvallarkenningar kristinnar trúar.

Hvað ætli "umræða um trú og trúarbrögð af viti og yfirvegun" sé? Er vit og yfirvegun í því að ljúga í sífellu að gagnrýnendur trúboðs í skólum vilji bola kennslu um trúarbrögð úr skólum? Nei, að sjálfsögðu ekki - það er áróður. Það þarf vissulega að ræða þessi mál vandlega. Meðal þess sem þarf að ræða er að núverandi ástand er rugl.

Í grein sinni segir Sigurður Pálsson að "trúarbragðafræðsla í íslenskum grunnskólum [eigi] í vök að verjast". Kennsla um trúarbrögð í skólum á Íslandi er ekki lítil en hún er léleg og einn þeirra sem ber ábyrgð á því er einmitt Sigurður Pálsson. Það á ekki að stunda einhliða áróður fyrir kristni í grunnskólum lands eins og gert er í dag, það á líka að gagnrýna trúarbrögð. Skoða þau vandlega, innan frá og utan.

Kristnir Íslendingar eiga að sjálfsögðu að "koma úr skápnum".

kristni