Örvitinn

Prófaður

Kláraði prófin í hádeginu. Var í tveimur prófum eins og síðustu þrjú skipti. Eftirmiðdaginn í gær fór ég í próf í Þýðendum og í morgun mætti ég í próf í Reiknirit, rökfræði og reiknanleiki. Þetta var frekar galin próftafla, ég hefði kosið að fá nokkra daga milli prófa svo ég gæti einbeitt mér að hvoru fyrir sig.

Gekk sæmilega í þessum prófum, held þetta sé alveg staðið - en ekkert miklu meira en það. Vona bara að kennararnir verði báðir umburðarlyndir þegar þeir fara yfir lausnir. Eins og alltaf hefði ég viljað fá örlítið meiri tíma í undirbúning, hlutirnir smella oft síðustu daga fyrir próf.

Þar sem ég var staddur á rauðum ljósum við Sprengisand í morgun, á leið í próf, fattaði ég villu hjá mér í prófinu í gær. Hafði ekki lágmarkað rétt DFA fyrir málið (ab|ba)*(a|b)*ba, féll í gildruna hjá Snorra (sjáið þið hana?). Lausnin blasti allt í einu við mér og er sáraeinföld. Vonandi gefur hann eitthvað fyrir viðleytni. Þetta var dæmi sem ég átti að vera með 100%.

Þá hefst biðin eftir einkunnum. Ætli ég byrji ekki að hanga á Uglunni eftir helgi.

dagbók