Örvitinn

Hringferðalag

HreindýrVorum að koma heim eftir vikulangt ferðalag. Ókum austur síðasta föstudag, borðuðum kvöldmat á Systrakaffi á Kirkjubæjarklaustri og gistum á Fosshótel Skaftafelli. Það var mjög huggulegt. Lögðum snemma af stað á laugardag og héldum til Egilsstaða, ókum fram hjá fullt af hreindýrum á leiðinni. Ég lærði lexíu, myndavélanördar eiga alltaf að hafa myndavélina uppi við þegar þeir ferðast um landið, ekki ofan í tösku. Stoppuðum stutt í Djúpavogi, borðuðum nestið rétt við afleggjarann að Öxi (færðin var fín) og vorum komin til Egilsstaða rétt rúmlega eitt.

Ástæðan fyrir ferðalaginu er að Inga María tók þátt í fimleikamót á Egilsstöðum með liðsfélögum sínum í Gerplu. Við tókum frí vikuna eftir til að vera í bústað í Miðhúsum í útjaðri bæjarins, ná áttum eftir próf.

Við hittum liðsfélaga Ingu Maríu úr Gerplu í grunnskólanum rétt rúmlega tvö - þau komu flest með flugi. Kvöddum hana og fórum að versla. Þegar við vorum búin að versla komumst við að því að Vínbúðin lokar klukkan tvö á veturnar og við misstum af því. Ekkert rauðvín með steikinni. Hjá Vínbúðunum úti á landi byrjar sumarið í júní, ekki fyrr. Hvaða rugl er það?

Bústaðurinn

Kolla fékk að vera einkabarn í sólarhring, við skelltum okkur í bústaðinn og höfðum það gott í ágætu veðri. Létum renna í heita pottinn í eina skiptið í ferðinni. Grilluðum nautakjöt en mér tókst að klúðra eldamennskunni á kolagrillinu, kláraði kjötið í ofninum. Kom ósköp vel út að lokum.

Veðurspáin var ekki góð eins og flestir vita, vorhret á leiðinni. Á sunnudag fórum við í íþróttahúsið klukkan ellefu um morgunin og horfðum á stelpurnar keppa. Þær stóðu sig vel og A liðið endaði í þriðja sæti. Voru í öðru sæti á gólfi, öðru á fiber og þriðja í stökki. Inga María var afar stolt.

Gerpla 5

Eftir mót sóttum við dótið hennar Ingu Maríu. Veður var farið að versna ansi mikið og við fórum aftur í bústað um þrjú. Þá var veðrið svona.

Bústaðurinn

Þegar ljóst var að flug hefði fallið niður og að fimleikastúlkur yrðu veðurtepptar sóttum við Ölduselsskólastelpurnar úr hópnum og þær gistu hjá okkur í bústað.

Stelpurnar horfa á bíómynd

Stelpurnar höfðu það ósköp huggulegt, gláptu á bíómyndir í tölvunni og spiluðu spil. Við þurftum í raun lítið fyrir þeim að hafa.

Á mánudag var allt á kafi í snjó og ég ekki alveg viss hvort ég kæmist með stelpurnar í flug. Fór því snemma út og gekk að bóndabænum til að athuga færðina. Hitti umsjónarmann sem var mættur til að athuga ástandið. Hann skutlaðist með mér til baka og þó það væri mikill snjór var hann léttur og færðin ekki erfið. Ég ók þetta fram og til baka á mínum bíl til að vera alveg viss.

Allt á kafi í snjó

Við skutluðum stelpunum í flug, vorum mætt út á flugvöll klukkan ellefu.

Næstu dagar fóru svo bara í slökun í bústað enda veður og færð ekkert sérlega spennandi. Við fylgdumst með fuglunum, lásum bækur, ráfuðum á vefnum (þökk sé 3g) og grilluðum (ég náði betri tökum á kolagrillinu). Ég verð að játa að ég eyddi allt of miklum tíma í að lesa um stjóramál hjá Liverpool.

Við Goðafoss

Ókum til Akureyrar í gær, stutt pissustopp við Mývatn og myndataka og handahlaup hjá Goðafossi (sumir standa upp og teygja úr sér eftir langan akstur, Inga María tekur handahlaup). Gistum eina nótt í íbúð sem starfsmannafélag LSH er með á Akureyri. Borðuðum kvöldmat á Greifanum (það var sæmilegt). Fengum þrisvar óvænta gesti, í gærkvöldi gekk kona inn á okkur. Taldi að hún ætti íbúðina (var degi of snemma). Í morgun opnaði einhvern snemma en lokaði aftur og svo um hálf tíu mættu konur sem bönkuðu og gengu svo inn - mættu mér í nærbuxum og bol sem ég rétt náði að skella mér í - veit ekki til hvers ég var að sýna þeim slíka tillitssemi! Þær voru líka mættar of snemma, áttu að fá íbúðina klukkan fjögur í dag.

Við létum okkur þetta að kenningu verða, pökkuðum og héldum heim klukkan ellefu. Stoppuðum í Staðarskála. Vorum komin í bæinn hálf fimm, næstum nákvæmalega viku eftir að við ókum úr bænum.

dagbók
Athugasemdir

EgillO - 23/05/12 23:09 #

Ég elska svona tímasetningarugl með orlofsíbúðir. Eitt sinn þegar ég var í lotu í skólanum á Akureyri var ég með svona íbúð fram yfir miðjan dag á föstudegi. Vinur minn hafði ákveðið að kíkja með mér norður og við höfðum að sjálfsögðu skellt okkur á barinn kvöldið áður því það var engin skóli hjá mér þennan dag.

Fyrir átta morguninn eftir vakna ég við að húsið er lamið að utan og bjöllunni hringt. Þá var fjölskylda mætt til að komast inn í íbúðina, sem þau áttu ekki að fá fyrr en 8 tímum síðar, svo að þau kæmust í skíðabrekkurnar fyrir opnun.

Ég er ekki viss um að börnin sem sátu úti í bíl séu ennþá búinn að ná sér eftir að sjá mig rífa upp útihurðina draugþunnan í engu nema nærbuxum öskrandi hvað í helvítinu væri eiginlega í gangi.