Örvitinn

"sama aðferð og barnaníðingar nota"

Umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi um nektarmyndir af íslenskum ungmennum var merkileg. Ekki fyrir innihaldið, þó það sé vissulega merkilegt, heldur aðferðina.

Kastljós vildi af einhverjum ástæðum tengja þetta mál við barnaníðinga þrátt fyrir að í umfjölluninni kæmi fram að ekki væri um barnaklám eða barnaníð að ræða.

Myndirnar eru margar hverjar mjög grófar og á síðunni er það stundað að skiptast á nektarmyndum af stúlkunum. Þetta er sama aðferð og barnaníðingar nota þegar þeir skiptast á ljósmyndum af börnum í kynferðislegum tilgangi

"Aðferðin" er sú að hittast á spjallborði og skiptast á efni. Það má vera að barnaníðingar noti þá aðferð, þó ég stórefi að þeir noti til þess opin spjallborð sem allir geta skoðað, en það segir okkur ekkert um þetta mál að hér sé um að ræða "sömu aðferð". Þetta er líka sama aðferð og frímerkjasafnarar nota. Þetta er einnig sú aðferð sem fólk notast til að sækja kvikmyndir og tónlist á netinu. Sumsstaðar hafa menn barist gegn slíku með því að tengja það við barnaklám, t.d. í Danmörku.

Raunverulega vandamálið í þessu tilviki er að ungmenni hika ekki við að senda djarfar myndir af sér á netið. Á ensku er þetta kallað "sexting". Eins og komið var inn á í umfjöllun Kastljóss, þá er næstum óhjákvæmilegt að slíkar myndir fara víðar en ætlað var til. Það kemur "aðferðum barnaníðinga" nákvæmlega ekkert við og það hjálpar ekkert við að vinna gegn því vandamáli að tengja þetta saman.

Varla endum við eins og Bandaríkin, þar sem ungmenni hafa verið ákærð fyrir barnaníð eftir að þau sendu myndir af sjálfum sér á netið!

Ég bíð eftir að sjá svona umfjallanir í Kastljósi:

Mótmælendur virkjunar hafa haft samskipti á netinu og notast við dulkóðan tölvupóst til að koma í veg fyrir að lögreglan lesi bréf þeirra. Þetta er sama aðferð og barnaníðingar nota.

Kvenfélagið Krús hefur nýlega sett upp spjallborð sem hýst er á erlendri vefsíðu. Þar koma félagskonur saman og skiptast m.a. á prjónauppskriftum, sumar ljósritaðar úr prjónablöðum. Þetta er sama aðferð og barnaníðingar nota.

Kínverskir andófsmenn og íslenskir samsærisnöttarar notast við tor til að ekki sé hægt að rekja tölvur þeirra. Þetta er sama aðferð og barnaníðingar nota.

Það sjá allir að þetta er galið. Líka þegar um er að ræða nektarmyndir af íslenskum ungmennum.

klám