Örvitinn

Guð(leysingja)speki Guðmundar Andra

Maðurinn, sem tegund, sér afleiðingar gerða sinna – en hann getur ekki horfst í augu við þær. Guðleysingjum 20. aldarinnar hefur tekist að finna þúsund aðferðir við að afsanna tilvist æðri máttarvalda en ekki eina einustu til að sanna nauðsyn þess að lífið haldi áfram á jörðinni. Skammtímahugsun er allsráðandi. Sérhver einstaklingur upplifir sig sem dauðlegan á þessum trúlausu tímum og þar með rofnar samhengið í framferði mannanna. Hver og einn er eins og forsetinn í stjórnarskránni: ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum. Maðurinn er hættur að trúa á guð og umbun eða refsingar í öðru lífi en hitt er verra: hann er hættur að trúa á sig og hæfileika sína til að breyta rétt. #

Þetta flokkast víst undir speki í dag.

efahyggja
Athugasemdir

Eyja M. Brynjarsdóttir - 25/06/12 14:01 #

Þetta hljómar svo sannarlega undarlega. Samkvæmt hvaða flokkun fellur þetta undir speki og hver stýrir þeirri flokkun?

Matti - 25/06/12 14:03 #

Ritstjóri Fréttablaðsins hampar Guðmundi Andra í blaðinu sínu og í vissum kreðsum er Guðmundur víst talinn mikill spekingur.

Ég botna aftur á móti ekkert í þessu.

Eyja M. Brynjarsdóttir - 25/06/12 14:12 #

Það virðist ákveðin tilhneiging til að líta svo á að rithöfundar hljóti sjálfkrafa að hafa meira vit en aðrir á alls konar hlutum, kannski af því að þeir koma yfirleitt vel fyrir sig orði. En það er auðvitað ekkert sem tryggir að rithöfundar hugsi meira eða dýpra en annað fólk og þessar hugleiðingar Guðmundar Andra þykja mér merkilega grunnar. Þ.e.a.s. merkilega því ég hefði haldið að flest hugsandi frjálslynt fólk (og Guðmund Andra set ég í þann flokk þótt ég telji hann ekki endilega til "spekinga") væri komið lengra en þetta í vangaveltum sínum um lífið og tilveruna.

Matti - 25/06/12 14:53 #

Svo ég hlaupi hratt yfir þetta.

Guðleysingjum 20. aldarinnar hefur tekist að finna þúsund aðferðir við að afsanna tilvist æðri máttarvalda en ekki eina einustu til að sanna nauðsyn þess að lífið haldi áfram á jörðinni.

  1. Það er hvorugt hægt að sanna - a.m.k. ekki með þeim hætti sem hugtakið sanna er almennt notað.

  2. Guðleysingjar hafa fært rök gegn tilvist æðri máttarvalda (en þó fyrst og fremst tiltekinna persónulegra gvuða). Einnig hafa ýmsir guðleysingjar fjallað um lífið á jörðinni, en þá fyrst og fremst út frá siðferðilegum vinkli. Ég veit ekki hvaða nauðsyn er í því samhengi.

Sérhver einstaklingur upplifir sig sem dauðlegan á þessum trúlausu tímum og þar með rofnar samhengið í framferði mannanna.

Þetta finnst mér ákaflega fordómafullt frá Guðmundi Andra. Að mínu mati er engin tenging á milli þess að upplifa sig dauðlegan (sem ég geri) og þess að (hafa ekki/missa) samhengið í framferði manna. Ég hefði t.d. sjálfur talið að einmitt við það að upplifa sig (og alla aðra menn) dauðlega, myndi fólk hugsa meira um samhengið í framferði mannanna.

Hver og einn er eins og forsetinn í stjórnarskránni: ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum.

Nei, ég ber fulla ábyrgð á eigin gjörðum gagnvart öðru fólki.

Maðurinn er hættur að trúa á guð og umbun eða refsingar í öðru lífi en hitt er verra: hann er hættur að trúa á sig og hæfileika sína til að breyta rétt.

Hið fyrra er rétt, þetta á við um þá sem ekki trúa á gvuði eða önnur líf. Hið seinna er furðulega leiðinleg og ljót alhæfing um þá sem ekki aðhyllast slík hindurvitni.

Matti - 25/06/12 15:09 #

Hér er svo guðfræðilega útgáfan af þessu, eftir Pétur Björgvin djákna og frænda minn.

Allt sem lifir – Guðs góða sköpun – er hluti af heildstæðu vistkerfi, þar sem eitt er öðru háð. Manneskjan sem hluti þessarar heildar er óendanlega dýrmæt af þeirri einföldu ástæðu að hún er sköpuð af Guði og í Guðs mynd. Einmitt þess vegna hefur hún ekki ótakmarkað veiðileyfi á lífríkið í heild sinni. Sem ráðsmenn sköpunarinnar er okkur falið að gæta sköpunarverksins. #

Svona geta trúmenn skrifað.

Hjalti Rúnar - 25/06/12 15:17 #

Ég var einmitt að sjá þessi undarlegu skrif Péturs. Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að skrifa að "[a]llt sem lifir" sé "Guðs góða sköpun"? Er malaríu-sníkjudýrið "góð sköpun guðs"?

Valgarður Guðjónsson - 26/06/12 00:09 #

Já, pínlegt að sjá menn eins og Guðmund Andra - sem hefur notið virðingar fyrir að vera vel skrifandi, og það oft verðskuldað - missa sig í svona uppskrúfuðu og tilgerðarlegu masi.

Sennilega tilraun til virka gáfaður, jafnvel "andlega sinnaður", en fellur svona skelfilega á hreinum og klárum rökleysum - og samhengislausu röflinu.

Að minnsta kosti kjánahrollur dagsins...