Örvitinn

Kvöldverðurinn, Koch

BókarkápanBókin Kvöldverðurinn fjallar um tvenn hjón sem hittast á veitingastað til að ræða ódæðisverk sem synir þeirra hafa framið. Sögumaðurinn Paul og bróðir hans Serge ásamt eiginkonum eru mætt á fínan veitingastað. Paul er okkar maður, kúltúveraður og glöggur en lýsir bróður sínum sem hálfgerðum einfeldning þrátt fyrir að bróðirinn hafi náð frama í stjórnmálum og sé líklegur til að verða næsti forsætisráðherra Hollands.

Ég fann strax til samkenndar með Paul í upphafi sögunnar þegar hann pælir í fordrykk á veitingastað - fordrykk sem boðið er upp á og halda að mætti að væri frír en er í raun rándýr. Upplifði sjálfur nákvæmlega það sama á Dill fyrir ári. Að sama skapi vill maður trúa því að bróðir hans sé falskur og einfaldur - fordómar gagnvart stjórnmálamönnum ná í gegn. Bókin spilar dálíti með lesandann. Sögumaðurinn er eðlilegur og jarðbundinn eins og við!

Kvöldverðurinn er helvíti fín bók sem fær mann til að spá í fjölskylduböndum, siðferði og siðblindu. Ég mæli með henni.

Ekki lesa lengra ef þú átt eftir að lesa bókina. Náðu þér í eintak og kíktu aftur að lestri loknum.

Synir þeirra hjóna höfðu drepið heimilslausa manneskju sem svaf við hraðbanka. Málið vakti mikla athygli og óhug meðal þjóðarinnar og myndbandsupptaka úr öryggismyndavél var spiluð í sjónvarpsþætti um óleysta glæpi. Í upphafi bókar er Paul að uppgötva að sonur hans tengist málinu og við fylgjum honum gegnum þá ferð en svo kemur í ljós að hann hafði vitað þetta lengi, allt frá því hann sá sjónvarpsþáttinn. Kona hans, Claire hafði vitað þetta allan tímann. Ferðin er blekking, við vorum blekkt til að hafa samkend með siðleysingjum. Okkar maður Paul er siðblindur geðsjúklingur og sonur hans hefur erft hvoru tveggja frá honum - Claire er tilbúin að gera hvað sem er til að vernda soninn.

Stjórnmálamaðurinn Serge er eðlilegur, heilbrigður - ef það er hægt.

Mér finnst afskaplega vel unnið með persónuleika Paul í bókinni. Um miðja bók fær lesandi upplýsingar um hann sem breyta myndinni. Fyrst kemur í ljóst að hann missti starf sitt sem kennari og átti við einhvern geðsjúkdóm að stríða. Í kjölfarið komumst við að því að hann var ofbeldisfullur og beinlínis hættulegur. Í lok bókar kemur svo í ljós að hann nýtur þess að heyra frásagnir sonar síns af ofbeldisverkum.

Þetta er bók sem hægt er að spjalla um.

bækur
Athugasemdir

Sindri G - 12/07/12 09:18 #

Þessi bók virkar mjög vel. Ég ætlaði aldrei að lesa þessa bók - svo ég les seinni hlutann - en sé eftir því núna. Hefði verið til í að lesa þetta án þess að þekkja plottið.

Siggi Óla - 12/07/12 12:20 #

Já þetta er skrambi góð bók og kom á óvart, las hana fljótlega eftir að hún kom út, þarf eiginlega að renna yfir hana aftur.