Örvitinn

Gildi Þorsteins Pálssonar

Biskup Íslands flutti ræðu við innsetningu forsetans í síðustu viku. Ég skrifaði litla grein á Vantrú af því tilefni.

Þorsteinn Pálsson skrifaði líka um innsetninguna og fjallar aðeins um ræðu biskups.

"Nýkjörinn biskup vék einnig með skýrum rökum að stjórnarskrármálinu af predikunarstóli dómkirkjunnar fyrir embættistökuna. Biskupinn benti réttilega á að þjóðkirkjan nýtur sérstakrar stjórnarskrárverndar vegna þess að hún hefur verið hluti af innviðum samfélagsins. Hvernig styrkir það samfélagið að rífa þá innviði niður? Bætir það andann í þjóðfélaginu?

Segja má að biskup hafi leitt að því rök að þjóðkirkjan sé í stjórnarskránni fyrir samfélagið en ekki vegna sjálfrar sín. Þessi rök kalla á viðbrögð í ljósi þeirra gilda sem þjóðkirkjan stendur vörð um og eru hluti af því sem kallast íslenskt samfélag."

Ég á alltaf svo erfitt að átta mig á því sem íhaldsmenn skrifa. Hefur Þorsteinn ekkert fylgst með umræðunni eða trúir hann þessu bara svona innilega þrátt fyrir allt sem komið hefur fram? Voru rök biskups virkilega "skýr"?

  1. Eru það rök fyrir einhverju að ríkiskirkjan hafi verið hluti af innviðum samfélagsins? Var Sambandið ekki líka hluti af inniviðum samfélagsins? Hvaða innviði samfélagsins rífum við niður þó ríkiskirkjan verði sjálfstæð og þurfi að starfa eins og t.d. Fríkirkjunar? Bæta aukin mannréttindi og meira jafnrétti ekki yfirleitt andann í samfélaginu að lokum - eftir að forréttindafólkið er búið að jafna sig?

  2. Hvernig er Þjóðkirkjan í stjórnarskrá fyrir samfélagið? Hvaða áhrif hefði það á samfélagið ef Þjóðkirkjuákvæðið hverfur? Hefur það ekki meiri áhrif á stofnunina heldur en samfélagið? Er þetta hræðsluáróðurinn um að ef ríkiskirkjan er ekki í stjórnarskrá komi vondir öfgamúslimar eða Gunnar í Krossinum og yfirtaki samfélagið?

  3. Hvaða gildi stendur Þjóðkirkjan vörð um önnur en afturhaldssemi? Í alvöru talað, nefnið eitt.

Svo ég svari Þorsteini örstutt þá styrkir það samfélagið ef stjórnarskráin mismunar þegnum landsins ekki út frá trúarbrögðum. Það veikir samfélagið ef sumt fólk er jafnara en annað. Réttlæti styrkir samfélög og það er réttlætismál að allir séu jafnir í stjórnarskrá alveg eins og það styrkir samfélagið að samkynhneigðir mega gifta sig og konur hafa kosningarétt og mega sitja á Alþingi. Því var þó mótmælt af íhaldssömum mönnum með nákvæmlega sama hætti og Þorsteinn, Ögmundur, biskupinn og fleiri mótmæla hugsanlegum breytingum á ríkiskirkjufyrirkomulaginu.

kristni pólitík