Örvitinn

Spádómur minn rættist

Goðafoss

Eftirfarandi athugasemdir skrifaði ég fyrir rúmum tveim árum. Ég spáði því nokkrum sinnum að aðskilnaður ríkis og kirkju yrði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu þrátt fyrir vilja meirihluta þjóðarinnar.

Ég tel heldur ekki að ef boðað yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu myndi nást aðskilnaður. Kirkjufólk myndi einfaldlega fjölmenna, áróður kirkjunnnar yrði gríðarlega mikill og sinnulausir myndu sitja heima. Þannig að þó meirihluti sé fyrir því er ekki þar með sagt að meirihluti náist í þjóðaratkvæðagreiðslu. #

_

Eins og ég sagði hér á undan, þá er þetta mál þess eðlis að ég held ekki að þjóðaratkvæðagreiðsla myndi vinnast. Fyrir því eru tvær ástæður:

  • Ríkiskirkjan er rík stofnun og hefur mikil ítök í fjölmiðlum, bæði einka- og opinberum.
  • Stór hluti íslendinga eru sinnulausir og myndu ekki nenna að mæta á kjörstað, jafnvel þau þeir styðji og vilji aðskilnað. #

Það er ósköp einfaldlega fáránlegt að setja mannréttindamál eins og þetta þar sem fjölmargir hafa ríka hagsmuni* í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi niðurstaða er skammarleg fyrir ríkiskirkjufólk en það fagnar samt. Þessi niðurstaða er til skammar fyrir þjóðina.

Hvernig haldið þið að fjallað verði um þessa niðurstöðu og fólkið sem barðist fyrir henni í framtíðinni?

Ef mér gefst tækifæri til að kjósa um nýja stjórnarskrá mun ég kjósa gegn henni ef hún inniheldur þjóðkirkjuákvæði. Niðurstaða helgarinnar er að nú bættust við þúsundir andstæðinga nýrrar stjórnarskrár, fólk sem annars hefði verið mjög jákvætt.

Fólk getur fussað og sagt að ég sé tapsár en lykilatriðið er að þjóðkirkjuákvæðið var stóra málið í mínum huga. Tregða stjórnlagaráðsfólks við að viðurkenna að þetta skipti marga máli og framkoma flestra þeirra í garð þess fólks sem vildi þjóðkirkju úr stjórnarskrá voru gríðarleg vonbrigði. Ég upplifði framkomu mjög margra stjórnlagaráðsmeðlima sem stækustu fordóma í minn garð og þá er ég ekki bara að tala um öfgatrúfólkið í ráðinu.

* Allir starfsmenn ríkiskirkjunnar og annarra trúfélaga á ríkiskirkjuspenanum, verktakar, sóknarnefndarfólk, heittrúaðir, fjölskyldur þessa fólks. Þetta fólk var að kjósa um að viðhalda forréttindum sínum og fórnar að sjálfsögðu mannréttindum hinna fyrir

kristni pólitík
Athugasemdir

Rebekka Búadóttir - 22/10/12 12:10 #

Heill þér Mattadamus, sannspár leiðtogi vor.

(Til annarra lesenda: ÞETTA ER SPAUG)

Skúli - 22/10/12 12:56 #

"Áróður kirkjunnar yrði gríðarlega mikill". Nú væri gaman að fá nokkur dæmi frá spámanninum um þennan gríðarlega áróður sem hann sá fyrir sér.

Varla ertu að tala um þetta: http://kirkjan.is/stjornarskra/

Ertu ósammála mér um það að þessi helmingur þjóðarinnar sem mætti á kjörstað sé einmitt dæmi um þann sem vill sjá breytingar í kringum sig? Voru það ekki hinir sinnulausu sem sátu heima?

Og sá helmingur greiddi öllum breytingatillögum atkvæði sitt ... nema þessu einu.

Davíð - 22/10/12 13:08 #

Lýðræði er ömurlegt þegar hlutirnir fara ekki eins og maður vill

Matti - 22/10/12 13:14 #

Varla ertu að tala um þetta: http://kirkjan.is/stjornarskra/

Nei, ég er ekki bara að tala um þetta. Ég er líka að tala um auglýsingar á vefmiðlum og í útvarpi og gríðarlega gott aðgengi að fjölmiðlum. Aðgengi sem aðrir höfðu ekki.

Það verður forvitnilegt að sjá samantekt á kostnaði kirkjunnar vegna kosninganna.

Lýðræði er ömurlegt þegar kosið er um atriði sem aldrei á að kjósa um.

Matti - 22/10/12 13:29 #

"Vei þeim sem byggir hús sitt með ranglæti,"

Halldór L. - 22/10/12 14:06 #

Lýðræði er ömurlegt þegar hlutirnir fara ekki eins og maður vill

Hvað ætli hefði nú gerst hefði verið þjóðaratkvæðagreiðsla um Crow-lögin þegar þau voru sett? Býst við að ákveðinn hópur hefði bara þurft að bíta á jaxlinn og sætta sig við lýðræðislega og þar með sjálkrafa réttláta ákvörðun meirihlutans.

Davíð - 22/10/12 14:42 #

Úrslit kosninga eru alltaf réttlát.

Ég er t.d. Garðbæingur og mjög ósáttur við sameiningu við Álftanes. En, hvurn djöfulinn get ég gert víst að við Gbæingar vorum svona vitlausir að samþykkja þetta?

Halldór L. - 22/10/12 14:54 #

Þú hefðir s.s. verið sáttur hefði verið kosið um mismunun á grundvelli kynþátta, og kynþáttahatrið unnið?

Eyja - 22/10/12 15:14 #

Orðið "tapsár" á ekkert við þegar kosningar um málefni sem maður telur mikilvæg eiga í hlut. Maður er tapsár ef maður fer í fýlu yfir að tapa í lúdó, þar sem tapið hefur engar sérstakar afleiðingar nema bara þær að maður er ekki sá sem stendur uppi sem sigurvegari. Það að finna til óánægju með úrslit kosninga um eitthvað sem maður telur af heilum hug að skipti máli er bara allt, allt annar hlutur.

Og nei, auðvitað á ekki að láta fólk kjósa um mannréttindamál. Það á aldrei að vera valkostur fyrir meirihlutann að kúga minnihlutann.

Davíð - 22/10/12 15:19 #

Kynþáttur er ekki val, trú / trúleysi er val um lífsskoðun. Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt að mínu mati. Ekki misskilja mig, ég er ekki sáttur, en það ber að taka tapi svo sem sigrum.

Halldór L. - 22/10/12 15:21 #

Þú sagðir að kosningar væru alltaf réttlátar.

Ef að þær eru alltaf réttlátar þá hlýtur það vera réttlátt ef að meirihlutinn vill aðskilnað kynþátta.

EgillO - 22/10/12 17:11 #

Mér finnst eiginlega engu máli skipta varðandi réttlæti hvort að sá eiginleiki sem verið er að mismuna þér vegna sé valinn eða meðfæddur.

Birgir Baldursson - 25/10/12 11:26 #

Mér finnst ömurlegast að andstæðingar nýrrar stjórnarskrár hafi náð að koma því inn hjá fólki að þetta væri aðeins "skoðanakönnun" og skipti engu máli. Í ljósi þess finnst mér rétt að úrslitin eigi að ógilda og atkvæðagreiðsla verði látin fara fram aftur.