Örvitinn

Dagbókarfærsla

Þessi dagur byrjaði eiginlega áður en hann hófst þegar ég glímdi við athugasemdarspam áður en ég fór að sofa eftir miðnætti. Undanfarið hefur athugasemdarspamið versnað, algengara að þegar ruslið nær í gegn sé magnið það mikið að vefþjónninn fari eiginlega á hliðina. Það er ekki flókið að stöðva þetta endanlega en ég er latur.

Ég var vakinn með afmælissöng og pakka. Þar að auki beið mín SMS frá sumarbústað (tæknin í dag!), rafmagnið fór af klukkan þrjú í nótt og virtist ekki hafa komið á aftur. Hringdum í Rarik og staðfestum að rafmagn hefði farið af svæðinu en komið á aftur. Ég náði ekki sambandi við öryggistækið til að tékka á stöðunni þannig að við hjónum skelltum okkur í bíltúr í Borgarfjörð. Hliðið var opið og við því stressuð þegar við gegnum að bústað en hann var í góðu lagi, rafmagnið hafði komið aftur á en öryggistækið slökkt á sér, rafhlaðan eflaust búin að vera. Tækinu var sparkað í gang aftur og svo brunuðum við aftur í bæinn. Ég held þetta sé stysta bústaðaferðin hingað til. Færðin var fín, dálítil hálka norðan við Borgarnes og veðrið gott þó það sé kalt.

Ég rétt náði í föstudagsfótboltann klukkan ellefu og var alveg sæmilega sprækur miðað við aldur og fyrri störf. Skoraði nokkur mörk, eitt sérlega glæsilegt, lagði upp önnur.

39 er enginn aldur - er það nokkuð?

dagbók