Örvitinn

Sátt um viðkvæm mál

Þetta er ótrúlegur texti. Lesið hann vandlega.

Nokkuð hefur verið gagnrýnt á undanförnum árum það fyrirkomulag sem er í gildandi lögum að barn skuli frá fæðingu tilheyra sama skráða trúfélagi og móðir þess. Fram kom í yfirlýsingu frá Jafnréttisstofu 1. desember 2008 að það væri tæpast í samræmi við jafnréttislög og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns að kyn, þ.e. móðerni, ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu. Einnig taldi Jafnréttisstofa að ekki væri að sjá að það fælust í því neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður. Nefndin ræddi þessi álitamál en sambærileg sjónarmið komu fram hjá nokkrum umsagnaraðilum. Jafnframt töldu einstakir umsagnaraðilar að betur færi á því að upplýst samþykki barnsins lægi fyrir við skráningu í trúfélag eða lífsskoðunarfélag því að annars væri verið að grafa undan getu barnsins til að taka sjálfstæða ákvörðun. Meiri hlutinn hefur fullan skilning á slíkum sjónarmiðum og telur rétt að haldið sé áfram að skoða þessi álitaefni. Meiri hlutinn telur hins vegar öðru fremur mikilvægt að tiltöluleg sátt sé um þau viðkvæmu mál sem hér um ræðir og leggur því ekki til breytingar í þessa veru að svo stöddu. Ef breytingar eiga í reynd og í framkvæmd að leiða til góðs skiptir máli að engu sé kollvarpað í einni hendingu heldur tekin örugg skref í rétta átt með tilliti til ólíkra sjónarmiða, eins og gert er með fyrirliggjandi frumvarpi. Meiri hlutinn áréttar að með þeim breytingum á aðild að skráðu trúfélagi sem hér eru lagðar til er fyrst og fremst verið að jafna stöðu þeirra sem fara með forsjá barns við fæðingu þess og tryggja jafnræði þeirra. Trúfélagsleg staða barna mun því taka mið af stöðu beggja foreldra innan eða utan trúfélaga.

Undir álit meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar skrifa Björgvin G. Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Skúli Helgason, Björn Valur Gíslason, Lúðvík Geirsson og Birgitta Jónsdóttir.

Ég mun aldrei greiða þessu fólki atkvæði. Annan eins aumingjaskap hef ég ekki séð síðan stjórnlagaráð fjallaði um Þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrár. Mannréttindi og hagsmunir barna eru látnir víkja fyrir hagsmunum ríkiskirkjunnar því engu má breyta án þess að hún sé sátt. Rökin skipta ekki máli - það sem skiptir máli er að stugga ekki við stóra sérhagsmunaaðilanum. Millileiðin er farin til að styggja ekki sterka valdið.

"Ef breytingar eiga í reynd og í framkvæmd að leiða til góðs skiptir máli að engu sé kollvarpað í einni hendingu heldur tekin örugg skref í rétta átt með tilliti til ólíkra sjónarmiða..."

Hefði verið hægt að afnema þrælahald með þessu viðhorfi? Hefðu konur fengið kosningarétt? Hefðu samkynhneigðir mátt gifta sig?

Svarið er nei. Eina leiðin til að ná mannréttindamálum í gegn er í bullandi ósátt við þá sem berjast gegn breytingum. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf vera.

Þeir sem rembast við að taka tillit til sérhagsmunahópa sem berjast gegn mannréttindum eru að mínu mati engu skárri en þeir sem brjóta mannréttindi. Hverju er hægt að breyta ef þetta er viðhorfið? Það þarf kjark til að breyta hlutum, það þarf að gerast þrátt fyrir að margir séu ósáttir. Á Alþingi skortir sérstaklega kjark þegar kemur að ríkiskirkjunni.

Þetta er vandi gömlu flokkanna. Þennan kjark skortir t.d. ekki hjá Besta flokknum sem ég hafði miklar efasemdir um á sínum tíma. Þar virðist vera fólk sem þorir að taka ákvarðanir út frá rökum og mannréttindum óháð því hvort háværir hagsmunahópar telja best að fara hægt og rólega eða alls ekki í rétta átt.

Það eru engin góð rök fyrir því að skrá börn sjálfkrafa í trúfélag við fæðingu. Það eru engin góð rök fyrir því að skrá börn opinberlega í trúfélög yfir höfuð. Eina ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi er að þetta hentar ríkiskirkjunni. Þetta snýst um peninga.

Eins og Egill Helgason segir um ríkisstjórnina:

En svo fóru tregðulögmálin að gera vart við sig. Hagsmunahópar eru afar sterkir í íslensku samfélagi og í raun ríkir mikil íhaldssemi.

Við hikum við að breyta hlutum – jafnvel þótt við vitum að þeir virki ekki. Það er líka sífellt verið að hræða fólk – af ef hróflað sé við einhverju fari allt í hund og kött.

kristni pólitík
Athugasemdir

Þórhallur "Laddi" Helgason - 06/12/12 08:52 #

Fyrst Ólína og Álfheiður, nú þessir sex, það endar væntanlega með því að það verða engir þingmenn eftir sem hægt er að kjósa... :/

Matti - 06/12/12 08:54 #

Einmitt. Það er ekkert eftir fyrir mig á Alþingi, þar situr enginn sem ég styð.

Matti - 06/12/12 09:27 #

Það er nákvæmlega svona aumingjaskapur sem olli því að við erum með "kristna arfleifð íslenskrar menningar" í leik- og grunnskólalögum. Svona aumingjaskapur olli því að ríkiskirkjan verður áfram í stjórnarskrá Íslands á 21. öldinni. Svona aumingjaskapur olli því að ríkið gerði versta samning íslandssögunnar þegar kirkjujarðir voru keyptar án verðmats af ríkiskirkjunni - fyrir óútfylltan tékka.

Svona aumingjaskapur olli því að lög um hjúskap samkynhneigðra sátu óafgreidd í a.m.k. fimm ár - því það þurfti að taka tillit til hommahatara í ríkiskirkjunni og öðrum trúfélögum.

Nei, ég sætti mig ekki við að þessi mál verði hugsanlega komin í fínan farveg þegar ég er orðinn gamalmenni.

Sverrirj - 06/12/12 10:57 #

Þetta er furðuleg greinargerð. Í stuttu máli virðist sjónarmið meirihlutans vera "öll rök hníga að því að breyta fyrirkomulaginu en við ætlum samt ekki að leggja það til". Maður hefði haldið að þingmenn sem væru á leið út af þingi (líklega fjórir af þessum sex) væru aðeins kjarkaðri.

Erna Magnúsdóttir - 06/12/12 11:37 #

Ef það liggja engir hagsmunir að baki því að skrá barn í trúfélag við fæðingu, hvers vegna er það þá hagsmunaatriði fyrir feður að tekið sé tillit til þeirra trúfélagsskráningar?

Það er ekki heil brú í þessu.

Eyja M. Brynjarsdóttir - 06/12/12 12:30 #

Þetta hljómar óneitanlega eins og "Við teljum að rétt væri að afnema skráningu í trúfélög við fæðingu en við létum undan þrýstingi aðila sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta".

Matti - 06/12/12 12:33 #

Ætli þetta sé hluti af samkomulegi til að losna undan málþófi á þingi? Þetta hafi þurft að gefa eftir til að koma öðru í gegn? Snýst þetta jafnvel bara um að gefa þetta eftir til að Siðmennt fái skráningu til jafns við trúfélög?

Matti - 06/12/12 12:47 #

Ég er ekkert svekktur útaf ruglinu sem kemur frá Þorgerði Katrínu og hennar flokk vegna þess að við því mátti búast, það hefði komið mér á óvart ef hún hefði tjáð sig skynsamlega um þetta mál. Ég varð ekki fyrir nokkrum vonbrigðum með hana, hún stóðst væntingar mínar.

Það gerði meirihlutinn ekki. Ef rök nægja ekki, hvað dugar þá?

Sverrirj - 06/12/12 14:31 #

Það er rétt að hér takast á andstæður þar sem annar hópurinn er mjög viss og afdráttarlaus í sinni skoðun en hinn hópurinn deigur og tvístígandi. Við svona aðstæður skiptir ekki máli að í öðrum hópnum eru sex en í hinum einn. Sá sem fylgir sínum málstað hefur áhrif umfram það sem hlutföllin segja til. Þetta hef ég oft bent þeim félögum mínum á sem haldnir eru endalausri meðvirkni gagnvart handhöfum hins kristna þjóðararfs.

Einar Karl - 06/12/12 15:07 #

Við skulum nú ekki gleyma því að í frumvarpinu er stigið SKREF í rétta átt með þessa trúfélagaskráningu nýfæddra, þar sem samkvæmt frumvarpinu er EKKI lengur verið að skrá sjálfkrafa barn í trúfélag þegar (forræðis)foreldrar eru ekki með sömu trúfélagaskráningu.

Í dag er barn sjálfkrafa skráð í trúfélag móður við fæðingu, jafnvel þótt faðirinn sé því mótfallinn (alveg óháð því hvort hann er giftur/í sambúð með móðurinni).

Ég les úr þessum tilvitnuðu orðum pólitískt rósamál, þar sem umræddur meirihluti er að segja að þau myndu HELST sjálf vilja breyta þessu (enda nefna þau ENGIN raunveruleg rök fyrir þessu fyrirkomulagi önnur en "sátt um viðkvæmt mál") - en þar sem þetta er EKKI meginefni frumvarpsins, og svona "róttæk" breyting gæti aukið andstöðu og líkur á að málið stöðvist, sé pólitískt "skynsamara" að mæla með frumvarpinu óbreyttu.

Matti - 06/12/12 15:16 #

Já og samkynhneigðir áttu að hætta þessu tuði þegar þeir máttu fá staðfesta samvist.

Nei, ég get ekki gefið afslátt af þessu frekar en öðru.

Við trúleysingjar töpuðum þegar kom að kristni í skólum. "Kristileg arfleifð íslenskrar menningar" í leik- og grunnskólalögum er í dag notuð til að réttlæta kirkjuheimsóknir.

Við skíttöpuðum stjórnarskrármálinu þrátt fyrir vilja meirihluta þjóðarinnar.

Við erum að tapa þessu máli. Skíttapa.

Ríkiskirkjan vinnur hvern stórsigurinn á fætur öðrum. Af hverju? Vegna þess að hún hefur svo góðan málstað? Nei. Vegna þess að hún hefur svo mikinn stuðning? Nei.

Hún vinnur hvern stórsigurinn á fætur öðrum vegna þess að fólk hefur ekki kjark til að gera hið rétta í stöðunni. Lúffar sífellt fyrir öfgatrúfólki.

Það er ekki trúðaða stjórnmálafólkið sem ég "óttast" heldur duglausu og kjarklausu trúleysingjarnir sem gefa allt eftir þegar þeir setjast við samningaborðið og ætla að ná "sátt" um "viðkæm" mál. Þetta fólk hefur ekki bein í nefinu, það hefur ekki prinsip. "Æi, við skulum mætast á miðri leið - frelsa helminginn af þrælunum, veita þriðjungi kvenna kosningarétt".

Ég fæ ekki einu sinni séð að það sé nokkuð "viðkvæmt" við þetta tiltekna mál. Hvað er viðkvæmt? Er einhver að banna fólki að skíra börn? Er verið að koma í veg fyrir að fólk geti farið með börnin sín í kirkjuna? Er einhver að banna fólki að ala börn sín upp í trú? Er yfir höfuð verið að leggja eitthvað til sem er ekki augljóslega til bóta fyrir allt samfélagið?

Hvernig er hægt að gefa afslátt í þessu máli? Hvernig í ósköpunum er það hægt?

Sverrirj - 06/12/12 15:35 #

Það er auðvitað möguleiki að þetta orðalag sé það sem þessir sex þingmenn hafi náð að verða sammála um - þ.e. að sumir þeirra hafi viljað ganga lengra en aðrir skemmra og þetta sé þá lendingin. Ég hef svo sem sjálfur staðið að ályktunum sem voru öðruvísi en maður hefði kosið af því þurfti að friða einhvern til að ná saman meirihluta. Niðurstaðan er hins vegar ógurlega máttleysisleg og eykur ekki virðingu manns fyrir þessum hópi.

Einar Karl - 06/12/12 15:47 #

Þetta er "viðkvæmt" mál (viðkvæmt innan gæsalappa) vegna þess að þetta er potentiellt mikið fjárhagslegt hagsmunamál fyrir Þjóðkirkjuna. Ef börn eru ekki sjálfkrafa skráð verða líkast færri en ella skráðir í kirkjuna 16 ára, þegar sóknargjöldin byrja að tikka inn.

Það er hægt að afsaka þennan pólitíska "afslátt" (ég er ekki að segja að ég geri það sjálfur) vegna þess að málið er engan veginn öruggt. Ég tel sjálfur miklar líkur á því að málið fáist ekki afgreitt í vor, það muni "óvart" sitja eftir í nefnd. Þess vegna geti verið strategiskt að gefa andstæðingum (sem eru margir - bakvið tjöldin) sem fæstar ástæður til að stoppa málið.

EgillO - 06/12/12 16:41 #

Er þetta fólk svo óskrifandi í þokkabót? „Meiri hlutinn“ í tveimur orðum?

Annars er ég algjörlega sammála Matti. Og eins og þú hefur nefnt áður, kannski er það líklegra til árangurs að setja hreinlega fram mestu öfgakröfurnar sem okkur dettur í hug. Þá verður millilendingin kannski í alvörunni einhvern tíman ásættanleg.

Örn - 06/12/12 21:19 #

Þetta er bara sorglegt. Það virðist vera ómögulegt að fá marga Íslendinga til að skilja prinsipp, hvað það yfir höfuð er.

Einar Karl reynir hér af bestu getu að útskýra ruglið með einhverjum pólitískum leikjafræðum. Það getur vel verið að hann hafi rétt fyrir sér í sínum lýsingum þar. Það breytir bara ekki því að meirihlutaálitið er hreint ótrúlegur aumingjaskapur.

Halla Sverris - 06/12/12 21:19 #

Ég skil þetta ekki alveg, vonandi fyrirgefst mér það. Er verið að samþykkja frumvarpið "óbreytt" (skv. síðustu línunni) eftir að breytingar voru gerðar á því í þá vegu að trúfélagsskráning beggja foreldra ætti að ráða trúfélagsskráningu barns?

Hvað gerist þegar foreldrar eru ekki í sama trúfélagi?

Og ... hvað er Snorri Óskarsson í Betel að gera sem álitsgjafi, og það sérstaklega kallaður til, hjá nefnd hverrar starfsemi er kostuð af skattfé almennings? Er ekki lágmarkskrafa að þeir sem kallaðir eru til sem álitsgjafar hjá nefndum þingsins uppfylli tilteknar lágmarkskröfur, svo sem að vera ekki geðbilaðir og/eða að skoðanir þeirra séu ekki gjörsamlega á skjön við viðhorf almennings í landinu?

Snorri Stefánsson - 06/12/12 23:04 #

Ég hygg að besti flokkurinn sé engu skárri. Að minnsta kosti varð ekki mikið úr reglunum um samskipti skóla og lífskoðunarfélaga hjá þeim.

Kristján B. - 06/12/12 23:21 #

Þetta eru kaup kaups, kirkjan lofar öðru á móti.

En til að svara spurningu Höllu þá er þetta ferillinn samkvæmt frumvarpinu sem nefndin hefur lagt til að verði ekki breytt:

" Barn getur frá fæðingu heyrt til trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða verið utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með eftirfarandi hætti: 1. Séu foreldrar barns í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og foreldrar þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrana. 2. Ef foreldrar barns sem eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu þess heyra ekki til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga skulu þeir taka sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi barnið eigi að heyra til. Fram til þess tíma verður þessi staða barnsins ótilgreind. 3. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist skal það heyra til sama skráða trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi og það foreldri sem fer með forsjá þess en ella vera utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga ef það gildir um foreldrið. "