Örvitinn

Glærur

Ég er að lesa fjölmargar glærur fyrir próf sem ég fer í á morgun. Þriðja og síðasta próf annarinnar. Það vill svo merkilega til að glærurnar gefa afar góða mynd af efni námskeiðsins. Ég hef ekki rekist á neina glæru sem setur fram öfugmæli eða rangfærslur sem þarfnast sérstakra skýringa í kennslustund. Vissulega var fjallað ítarlegar um efnið í fyrirlestrum en aldrei þannig að glærur gefi ekki rétta mynd af umfjölluninni. Á glærunum er hvergi neitt tekið úr samhengi eða klippt í sundur til að breyta merkingunni!

Ég get meira að segja tekið stakan glærupakka og lesið hann án þess að túlka í samhengi við aðra því efninu er skipt í kafla. Já, ég veit. Þetta er stórmerkilegt.

Bráðlega verð ég vonandi nógu þroskaður og fróður til að skilja akademíska glærunotkun almennilega.

dylgjublogg
Athugasemdir

Snæbjörn - 13/12/12 15:56 #

Vó, þínir kennarar eru greinilega e-ð mikið eftir á. Ég ákvað að breyta öllum mínum glærum núna í haust í samræmi við tískustrauma í háskólakennslu og set núna yfirleitt svona tvö til þrjú vafaatriði á hverja einustu glæru. Svo bendi ég á það, en bara í sjálfum fyrirlestrartímunum, að fólk verði nú að passa sig á því að taka ekki öllu á glærunum sem heilögum sannleik.

Snæbjörn - 13/12/12 15:56 #

Já, og svo ákvað ég líka að margfalda glærufjöldann með þremur, var með allt of fáar glærur. Þetta ætti nú allt saman að bæta kennsluna hjá mér til muna.

Lárus Viðar - 14/12/12 03:31 #

Þú ert bara hjá slökum kennara. Alvöru akademískir fræðimenn setja þversagnakenndar fullyrðingar upp á glærur sem þeir eru ósammála. Þannig fást fram skemmtilegar umræður þegar stúdentar þurfa að takast á við fyrirlesarann. Best er þegar glærurnar eru óskiljanlegar öllum þeim sem ekki þekkja til þeirra fræðilegu forsenda og skilgreininga sem unnið er með í námskeiðinu og vita ekki hvernig þær voru notaðar og um þær fjallað.