Örvitinn

Halló Íslandsbanki

Reynisdrangar

Ég sé í fréttum að þið grædduð alveg þokkalega á síðasta ári og ætlið að borga ágætan arð til eigenda. Til hamingju með það, það er gott að græða. Töluvert betra en að tapa. Ég sé líka að þið látið skuldara í skilum njóta góðs af hagnaðinum og hafið endurgreitt hluta af vöxtum sem þeir hafa greitt af húsnæðislánum. Það er fínt hjá ykkur, eiginlega til fyrirmyndar.

Nú er það svo að ég er viðskiptavinur Íslandsbanka. Það gerðist reyndar óvart, ég var í viðskiptum við Byr sem rann inn í Íslandsbanka.

Ég skulda ykkur ekki krónu, mín húsnæðislán eru hjá Íbúðarlánasjóði sem hefur ekki efni á að endurgreiða vexti. Við því er lítið að segja, ég á víst eitthvað í Íbúðarlánasjóði í gegnum ríkið og mun taka þátt í að borga tap sjóðsins gegnum skattana mína.

Þó ég skuldi ykkur ekkert þá skuldið þið mér. Þ.e.a.s. ég á innistæður á reikningum hjá ykkur, bæði á verðtryggðum og óverðtryggðum reikningum. Engar rosalegar upphæðir í bankasamhengi en þokkalegar fyrir venjulegt vísitöluheimili. Þið megið eiga það að þið hafið staðið í skilum, vextir hafa skilað sér inn á reikningana mína á réttum tíma. Vextirnir eru ekkert til að hrópa húrra fyrir en þeir ná stundum að halda í við verðbólgu á óverðtryggðu reikninunum. Maður þakkar fyrir það sem maður fær. Ég ætla samt ekki að endurgreiða ykkur neitt af vöxtunum, vonandi fenguð þið ekki ranghugmyndir!

Málið er: Í ljósi þess að þetta gengur svona ofboðslega vel hjá ykkur er ég að velta því fyrir mér hvort ekki sé rétt að ég fái einhverja aukavexti frá ykkur á innistæðurnar mínar. Smá bónus fyrir farsæl viðskipti, þakklætisvott fyrir peninginn sem ég lána ykkur. Kannski 20-30% ofan á upphæðina sem þið greidduð mér í vexti fyrir síðasta ár. Væri það ekki sanngjarnt?

dagbók
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)