Örvitinn

"...eins og rotið hold af beinagrind, eins og börkur af ormétnum ávexti"

Í tilefni páska rifja ég upp meitlaðan texta úr nýársprédikun Sigurbjörns Einarssonar biskups eins og þau birtist í Morgunblaðinu 3. janúar 1981. Tónninn er kunnuglegur og hefur heyrst frá kirkjufólki um aldir alda. Sumir vilja meina að Sigurbjörn hafi verið einn mesti hugsuður Íslands á síðustu öld. Ég get ekki tekið undir það.

Sigurbjorn Einarsson biskupNú hef ég nefnt Guð mörgum sinnum. Margir mótmæla þegar hann er nefndur. Það er úrelt, feimnismál að nefna hann, hann er óþörf tilgáta í heimi vísinda. Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn Guð. Svo var að orði komist fyrir nær 3000 árum. Nýrra eða nýtískulegra er það ekki að afneita Guði. En allt um það er það nokkuð áberandi nú um stundir og ekki laust við að þykja fínt, hvort sem fram kemur í ómagaorðum eða þegjandi þumbaraskap. Að ekki sé nefnt, hvernig Guði er afneitað í verkum og viðbrögðum daglegs lífs. Og þar höfum vér engir af neinu að miklast. En hávær afneitun og mikillát virðist oft vera sjúkleg árátta vonsvikinna manna, sem finnst lífið hafa brugðist eða þeir sjálfir brugðist. Og oft er hún uppreisn gegn ímyndun, gegn einhverju falsgoði, sem menn hafa búið til eða látið búa til handa sér. Hún getur og verið afvegaleidd hugsjón um mannfélag og mannlíf. En sá sem afneitar Guði er líka að glíma við hann, losnar ekki úr greip hans, þó að hann vilji flýja. Oftast er það duld í sálarlífi, sem tekur á sig þessa mynd, djúprætt, ómeðvituð duld. Þeir vita ekki, hvað þeir gjöra, sagði sá, sem negldur var á krossinn. Faðir, fyrirgef þeim. Svo mikið er víst, að vitsmunir, þekking, vísindi, skera ekki úr neinu í þessu. Kristin trú höfðar til vitsmuna, þekkingar, skynsemi.

Og hún þakkar vísindin, eins og allt, sem er gott, og að því leyti sem það er gott. En hún hlýtur að fyrirlíta glært skrum og falsanir í nafni vísinda. Hrokafull hálfmenntun er einn versti óvinur vits og hugsunar. Við þann óvin hefur kirkjan átt að etja, bæði innan eigin vébanda og utan.

Kristin trú er engin hugarþraut. En það mættu menn samt vita og muna, að innviðir hennar hafa verið kannaðir, rýndir, íhugaðir um aldir af mörgum mestu vitsmunamönnum og lærdómsmönnum, sem lifað hafa. Engar heimildir hafa gengið gegnum líkt því annan eins eld rannsókna og gagnrýni eins og frumheimildir kristinnar trúar. Og engar forsendur í hugsun hafa verið rýndar eins til róta og þær, sem kristin trú byggir á. Þetta ættu menn að vita á upplýstri öld, ef þeir vilja vera annað en óvitar í tali um kristindóm.

Guð deyr ekki fyrir neinum eldflaugum eða dauðageislum úr smiðjum vísinda. En hann lifir ekki í dauðu hjarta. Ekki nema hann fái að lífga það að nýju. Það getur hann. En það er margur með svelt og deyjandi hjarta við nútímans allsnægtaborð, eða með sljóvgan, svefnþungan anda. Þú spyrð ekki um Guð af því að þig vantar ekki neitt. Mikið skelfing ertu fátækur þá. Það muntu sjá og finna, þegar falsið flettist af eins og rotið hold af beinagrind, eins og börkur af ormétnum ávexti, eins og skæni yfir fúlu sári. Megir þú ekki þurfa að mæta Guði þannig.

Myndin sem hér fylgir er skjáskot af myndinni sem fylgdi greininni í Morgunblaðinu. Ég vona að mér fyrirgefist að hafa notað hana, hún passar betur með en mínar myndir af Sigurbirni.

kristni
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)