Örvitinn

Tollfrjálst áfengi

áfengi

Reglurnar um innflutning á tollfrjálsu áfengi eru dálítið súrealískar.

Ferðamenn mega hafa með sér tollfrjálst áfenga drykki og tóbak sem hér segir
1 lítra af sterku áfengi og 1 lítra af léttvíni og 6 lítra af bjór eða
3 lítra af léttvíni og 6 lítra af bjór eða
1 lítra af sterku áfengi og 9 lítra af bjór eða
1,5 lítra af léttvíni og 9 lítra af bjór eða
12 lítra af bjór

Af hverju er þetta skilgreint svona? Er þetta ekki frekar furðuleg upptalning?

Af hverju ekki 1.5 lítra af sterku (tvær 75cl flöskur) og ekkert meira? Af hverju ekki einn lítra af sterku, tvær flöskur af léttvíni (1.5 lítra) og engan bjór? Hverjum datt í hug að setja þarna inn "1 lítra af léttvíni"? Á hvaða kontór gerðist það eiginlega? Hvaða almennilega léttvín er selt í lítraflöskum? Verður maður að kaupa bjór til að nýta "rétt sinn"?

Væri ekki nær að skilgreina þetta einfaldlega með magni af alkóhóli og hafa reiknivél á staðnum svipaða verðskönnum í matvöruverslunum? Ferðamenn mega flytja inn áfengi sem samsvarar 1 lítra af hreinu alkóhóli. Þeir ráða hvernig þeir skipta því. Þó er bannað að flytja inn Mateus rósavín.

Konan kemur til landsins í nótt og ætlar að versla viskí handa mér í fríhöfninni, ég var því að rifja þetta upp eins og alltaf þegar ég kem frá útlöndum.

kvabb
Athugasemdir

hildigunnur - 12/04/13 16:05 #

Mateus er sko ekki verst, það hefur mjög óréttlátan vondustimpil :p

Annars jú, þetta er mjög kjánalegt.

Matti - 12/04/13 16:10 #

Mateus er eflaust ágætt, ég hef ekki smakkað það í tuttugu ár. Fattaði bara ekki fyrr en í Frakklandi fyrir sex árum að það er til fullt af fínu rósavíni - hafði fordóma fram að því :-)

Jón Yngvi - 12/04/13 16:15 #

Skil þig vel. Man hvað ég var hissa á að sjá Frakka útum allar koppagrundir, í pikknikk eða á kaffihúsum, sullandi í rósavíni fyrst þegar ég kom til Parísar.

Sigurður Örn - 12/04/13 16:25 #

Léttvín er allt undir 22% minnir mig og það er mikið úrval af 1 líters flöskum sem uppfylla það, sérrí, púrtvín, vermúþ og svo framvegis. Er engu að síður sammála þér að reglurnar eru undarlegar :)

Björn Ragnar Björnsson - 12/04/13 16:48 #

Hættu að kvarta góði, þú ert örviti. Ég giska á að upptalningin sé útbúin af lögfræðingi. Sé það rétt er þetta ekki slæmt. Í gvuðanna bænum ekki brydda upp á hugmyndum um þrengri kost.

Matti - 12/04/13 17:21 #

Ég hætti ekki að kvarta og ég var að leggja til rýmri kost, ekki þrengri :-)

Matti - 12/04/13 17:37 #

sérrí, púrtvín, vermúþ og svo framvegis

Ég drekk ekkert svoleiðis sull :-)

Eggert - 13/04/13 11:56 #

Það er hægt að kaupa stakar 25cl flöskur til þess að fylla upp í heiltölulítra.

Jón Magnús - 13/04/13 17:29 #

Fordómar gagnvart rósavíni eru landlægir á Íslandi ;)

Laddi - 14/04/13 10:33 #

Annars lenti pabbi í því á fimmtudag að það var matur hirtur af honum því samkvæmt tollalögum má flytja inn mat og sælgæti að verðmæti 25.000 kr. og að hámarki 3 kíló. Vissi ekki af þessari reglu og finnst hún raunar stórmerkileg. Það er auðvitað engin tenging á milli þyngdar hlutar og verðmætis hans, allavega þarf ég að muna það næst að ljúga því að trufflurnar séu bara venjulegir sveppir og að saffranið sé bara karrýblanda... :p

Matti - 14/04/13 23:17 #

Ég hafði ekki spáð í þetta með matinn, er vanur að flytja ansi mikið af parmesan osti með mér þegar ég kem til landins. En það nær þó hvorki 3kg né 25 þúsund krónum.

Jón Frímann - 26/04/13 22:19 #

Íslensk tollalög eru sett til þess að viðhalda núverandi einokun á íslenska markaðinum.

Annars eru reglunar hérna, http://www.tollur.is/displayer.asp?cat_id=1698