Örvitinn

Salvíukjúlli (Pollo alla salvia)

Kjúklingur og pasta

Kvöldmaturinn var kjúklingur með beikon og salvíu. Afskaplega einföld matreiðsla og alveg sjúklega gott.

Hráefni

Aðferð
Hitið olíu og smjör á stórri pönnu. Þegar smjörið hefur bráðnað fer hvítlaukurinn á pönnuna og fær að stikna þar til hann byrjar að fá smá lit (ekki hafa of mikinn hita á pönnunni og ekki brúna/brenna hvítlaukinn, ekki stressa ykkur þó hann brúnist, haldið bara áfram).

Skellið kjúklingabitunum á pönnuna (gæti verið dálítið púsl að koma öllu fyrir ef pannan er ekki mjög stór) og brúnið bitana á öllum köntum. Meðan ég man, áður en þið byrjið skulið þið snyrta kjúklingabitana ef þörf er á - stundum er óskaplega mikið af drasli á þessum bitum.

Þegar bitarnir eru orðnir smekklega brúnir er tímabært að sulla hvítvíninu yfir allt draslið og krydda með salti og pipar. Látið þetta malla í smá tíma þannig að hvítvínið sjóði aðeins niður (segjum, 10-15 mínútur, ekki leggja ykkur á meðan, fylgist með því sem er að gerast), ekki sjóða allan vökva niður. Næst fer beikonið og salvían á pönnuna. Ég staflaði kjúklingnum aðeins til hliðar til að byrja með og setti beikonið beint á pönnuna, hrærið þessu svo öllu vel saman.

Þá er ekkert annað að gera en að skella lokinu yfir pönnuna en samt ekki þannig að það sé þétt, hafið sleif eða eitthvað á milli. Látið malla við miðlungs hita í 40 mínútur. Fáið ykkur hvítvínsglas og kíkið á Facebook. Standið af og til upp og kíkið á pönnuna og dáist að matnum, snúið kannski kjúklingabitunum svo ykkur finnist þið vera að gera eitthvað gagnlegt. Setjið vatn í pastapottinn með ágætum fyrirvara svo það verði farið að bullsjóða þegar kjúklingurinn er tilbúinn.

Sjóðið tagliatella í aðeins styttri tíma en stendur utan á pakkanum, í fimm mínútur ef það stendur sex. Týnið kjúklinginn af pönnunni og mokið megninu beikonblöndunni yfir, alls ekki hella af pönnunni vegna þess að...

Þegar pastað er næstum tilbúið takið þið það úr pottinum, látið renna vel af því (ekki láta ykkur detta í hug að skola pastað með vatni úr krananum) og skellið á pönnuna með hvítvínskjúklingabeikonsalvíuolíunni hrærið vel í þannig að allt pastað komist í snertingu við þá dásemd! Passið að hafa ekki of mikinn hita á pönnunni og standið yfir pastanum allan tímann, það er stranglega bannað að ofelda pastað.

Skellið pasta á disk, kjúkling og beikonblöndu ofan á og rífið dálítinn parmesan ost yfir. Klárið hvítvínsflöskuna með matnum.

Þetta dugar fyrir 4-5. Hér dugaði þetta passlega handa tveim fullorðnum og tveim táningsstelpum.

matur
Athugasemdir

Haukur Þ. - 23/04/13 08:40 #

Já, þér er ekki vel við ofeldað pasta - það hefur nokkrum sinnum áður komið fram á þessum vettvangi :)

Laddi - 26/04/13 09:37 #

Al dente eða dauði, það er bara þannig... ;)

Ásgeir - 28/04/13 13:09 #

Ég ætla að elda þetta í kvöld, þetta lítur ekkert smá vel út.

Matti - 28/04/13 16:42 #

Vonandi heppnast þetta vel :-) Þetta verður eldað reglulega á mínu heimili. Fínt að hafa afsökun til að opna hvítvínsflösku!

Ásgeir - 01/05/13 18:32 #

Þetta heppnaðist með afbrigðum vel. Ég fann reyndar hvergi ferska salvíu nema kaupa hana með óreganó og rósmarín líka. Ég skellti því bara með, ég held að það hafi síst verið til að skemma fyrir.

Ég geri þetta örugglega aftur.

Matti - 02/05/13 10:14 #

Gott mál. Ég trúi því alveg að það sé fínt að hafa aðrar ferskar kryddjurtir með.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)