Örvitinn

Ég og þjóðin

Norðurljós

Ég er ósammála meirihluta þjóðarinnar í nær öllum málum og ég sé ekki fram á að það breytist í bráð. Niðurstöður kosninga fara núorðið alltaf á annan veg en ég kaus.

Mér finnst ég einfaldlega ekki eiga samleið með þessum hópi. Þetta er bara eitthvað fólk sem býr á sama skeri og talar (oftast) sama tungumál.

Ég geri mér grein fyrir því að ég er gallagripur eins og flestir og ég veit að ég hef ekki alltaf rétt fyrir mér. Ég hef reynt að mynda mér skoðanir út frá rökum, með því að skoða fyrirliggjandi gögn og lágmarka áhættu. Með því að taka viljann fyrir verkið og meta hagsmuni heildarinnar meira en mína sérhagsmuni.

Auðvitað get ég komist að rangri niðurstöðu en ég held að aðferðin sé betri en að veðja alltaf á litlu líkurnar með möguleika á stórum vinning. Ég græði meira á því að kaupa ekki lottómiða heldur en flestir sem kaupa miða jafnvel þó einhverjir vinni af og til.

Trúið mér, skattalækkunarhugmyndir Sjálfstæðisflokksins munu koma mér betur en flestum. Ég mun líka græða á niðurfellingum skulda eða skattaafslætti vegna niðurgreiðslu lána þar sem ég ræð vel við mínar skuldir, get eflaust keypt mér nýjan bíl, flottari græjur og farið oftar til útlanda. Þarf bara að vera fljótur að því áður en allt fer aftur til andskotans. Svo er bara að fjárfesta eins og bestu vinir aðal (það verða góðvinir B og D sem efnast gríðarlega á næstum árum) og þá græðir maður kannski líka. Í þetta skipti þarf ég að muna að selja á sama tíma og elítan. Ég klikkaði á því síðast!

Skítt með fólkið sem mun hafa það meira skítt - er það ekki stemmingin? Kirkjan sér um það. Blauti draumur ríkiskirkjunnar er að félagskerfið verði skorið niður og fólk þurfi að leita til fulltrúa drottins og kærleikans. Auðmenn geta gert góðverk með því að dreifa peningunum sínum af og til í beinni útsendingu.

Fyrst og fremst á ég að vera góður "tapari". Það er krafan í hvert skipti sem hér er kosið. Ekki kvarta, ekki benda á lygarnar, haldið kjafti og verið góð - þið töpuðuð. Það er hroki að halda áfram að benda á ósannindi og léleg rök og enginn má vera hrokafullur. Allar skoðanir eru jafngildar.

Við töpuðum öll. Icesave lexían mótaði þessa þjóð.

ps. Forsetinn er milljarðamæringur (ok, konan hans), formaður Framsóknarflokksins er milljarðamæringur (eða konan hans) og formaður Sjálfsæðisflokksins er milljarðamæringur (ok, fjölskyldan hans). Svo gerum við grín að "þriðja heims ríkjum"!

dagbók
Athugasemdir

Matti - 29/04/13 19:44 #

Nú hefur þessi bloggfærsla fengið meira en 500 "læk", sem er algjört met á þessu bloggi, en enga athugasemd. Er fólk alveg hætt að tjá sig nema á Facebook? :-)

Bára - 30/04/13 09:47 #

Ég er alveg eins og þú, tapa í öllum kosningum. Er búin að gefast upp.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)