Örvitinn

"hrein guðs mildi"

Foss

Tungumálið mótast af sögunni og menningunni*. Fjölmargir frasar, sem við notum nær hugsunarlaust, tengjast trúarbrögðum - sér í lagi kristni. "Gvuð minn góður" segir fólk þegar því bregður, "allahu akbar" segja aðrir. Fyrir okkur sem finnst allahu akbar" framandi er hugsanlegt að við mistúlkum en notkunin er þó oft sú sama og gvuðsákallið íslenska. Þó fólk noti svona frasa er ekki þar með sagt að það sé trúað, trúleysingjar geta tileinkað fjandanum eitthvað eða líkt við helvíti án þess að trúa því í sekúndubrot að fjandinn sé til. Þetta er bara frasi.

"Mér sýnist í fljótu bragði að þessi maður hafi brotið reglur með því að kafa einn og með því að tilkynna sig ekki," segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður. Málið verði yfirfarið vandlega. "Það var hrein guðs mildi að þessir tveir menn voru fyrir tilviljun staddir nálægt og björguðu manninum." #

Það er ekki mjög algengt að fólk tali um "hreina guðs mildi" ef miðað er við google leit en "guðs mildi" er notað oftar. Ég gef mér að þarna sé Ólafur Örn að vísa til þess að það hafi verið afar heppilegt að þessir tveir menn voru staddir þarna því annars hefði farið illa.

Ef hann meinti í alvöru að það hafi verið fyrir hreina mildi guðs að mennirnir voru þarna fyrir tilviljun er Ólafur Örn lentur í klípu því hvar er þetta sama mildi almættisins þegar fólki er ekki bjargað, þegar engin tilviljun veldur því að menn mæta og bjarga. Nema gvuðinn sé bara almennt alls ekki mildur en sýni af og til af sér (hrein) mildi - ef hann nennir!

Auðvitað meinar Ólafur Örn þetta ekki þannig, svona segir fólk bara.

Næst legg ég til að Ólafur Örn eða aðrir í svipaðri stöðu prófi að sleppa almættum (óháð því hvaða almætti það dýrkar). T.d. gæti Ólafur Örn sagt:

"Það var [afar heppilegt] að þessir tveir menn voru fyrir tilviljun staddir nálægt og björguðu manninum."

Blaðamenn gætu jafnvel spurt aðeins nánar þegar fólk missir almættisfrasa út úr sér til að gefa því kost á að endurorða. Þannig mætti spyrja nánar út í gvuðinn sem um er rætt; "áttu við einhvern tiltekinn gvuð?"

Ef fólk hefur þörf fyrir að þakka einhverju "æðra" legg ég til að það eigni góðmennskunni heiðurinn heiðurinn. "Góðmennsku sé lof að þessir tveir menn björguðu lífi".

ps. Nei, ég segi ekki "Gvuð blessi þig" þegar einhver hnerrar.

*Í gvuðanna bænum - ekki halda að ég viti nokkuð um tungumál.

efahyggja
Athugasemdir

hildigunnur - 25/05/13 22:11 #

Ég á til að missa svona út úr mér af og til og verð alltaf jafn hissa.

Segi hins vegar Hjálpi þér (guðslaust) við hnerra :p

Eva Hauksdottir - 26/05/13 11:08 #

Æ Matti ég vona að ég þurfi ekki að svara fyrir djöfladýrkun ef ég segi einhverjum að fara til fjandans eða gefa eðlisfræðilegar skýringar á því hvernig maður eigi að fara að því að hoppa upp í Framsóknarflokkinn á sér. Ég er oftast sammála þér um trúmál en mér finnst jafn hallærislegt að gera þetta að vandamáli og þegar trúmenn segja að með því að bölva sé maður að ákalla andskotann sjálfan.

Matti - 26/05/13 16:33 #

Eva, lestu bloggfærsluna aftur.

Athugasemd þín passar við einhverja aðra bloggfærslu þar sem skammast er í fólki, því bannað að tala á einhvern hátt eða mikið gert úr þessu tiltekna máli. Athugasemdin á ekkert erindi við vangaveltur mínar nema þú sjáir fyrir þér að ég hafi verið froðufellandi af bræði þegar ég skrifaði þetta. Ég var það ekki.

Matti - 29/05/13 20:30 #

Eyddi óvart svari Evu og mínu svari við því.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)