Örvitinn

Lambakjötsrisotto númer fimm

Matur á pönnu

Í kvöld eldaði ég risotto úr afgöngum af sunnudagslambalærinu og því sem til var í ísskápnum. Úr varð hið ágætasta risotto. Þegar ég renndi yfir matarflokkinn á blogginu mínu eftir mat fann ég fjórar aðrar uppskriftir af lambakjötsrisotto. Þetta er því sú fimmta.

N.b. magn miðast við það sem ég átti í ísskáp - það má alveg vera meira spínat, svo dæmi sé tekið.

Setjum tvo lítra af vatni í pott og kjötkraft út í. Hitað að suðu og haldið heitu á hellunni við hliðina á pönnunni, þarf ekki að bullsjóða.

Hitum smjör og olíu saman á pönnu. Steikjum lauk, hvítlauk, gulrætur og vorlauk þar til laukur er glær - passa að hafa ekki of mikinn hita til að hvítlaukur brenni ekki.

Spínat, sveppir og beikon sett saman við. Tökum mynd! Hrærum saman og steikjum þar til beikon og sveppir hafa steikst og spínat hefur skroppið mjög mikið saman.

Setjum grjónin út á pönnuna og hrærum vel saman. Látum þetta steikjast "þurrt" í mínútu.

Þarna hefði ég kannski sett glas af rauðvíni út á pönnuna en við hjónin ákváðum að sleppa því að opna rauðvínsflösku á mánudagskvöldi. Þess í stað setti ég kjötsoð saman við, tvær ausur. Hér er við hæfi að líta á klukkuna, ferlið sem nú var að hefjast tekur um tuttugu mínútur. Hrærum vel með sleif.

Látum soðið sjóða niður á pönnunni, hrærum reglulega (ekki nauðsynlegt að hræra stanslaust allar tuttugu mínúturnar, passið samt hitann og að grjónin brenni ekki við pönnuna). Þegar soðið er eiginlega allt gufað upp ausum við meira yfir, hrærum vel og endurtökum leikinn þar til tíminn er liðinn.

Eftir um 10 mínútur setjum við söxuðu tómatana út í, hrærum vel saman. Setjum lambakjötið líka saman við. Áfram með soðið. Þarna tók ég aðra mynd.

Lambakjötsrisotto

Alveg í lokin setti ég tómatpúrru út í, notaði ekki alveg alla (litlu) dósina, hrærði vel og smakkaði til. Kryddaði með pipar. Setti smjörklípu saman við. Reif parmesan ost (slatta) út á og hrærði saman við.

Smökkum til, grjónin eiga ekki að vera hörð - en heldur ekki alveg lin. Tuttugu mínútur á pönnu ættu að duga grjónunum en nokkrar mínútur í viðbót gera ekkert til. Ekkert víst að það þurfi að nota allt soðið. Það er stranglega bannað að ofsjóða risotto grjón.

Borið fram með hvítlauksbrauði. Allt í lagi að salta og pipra eftir smekk og svo bætir maður að sjálfsögðu parmesan osti yfir risottoið þegar það er komið á diskinn.

matur
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)