Örvitinn

Meirihluti, minnihluti og ríkiskirkjudekur Framsóknarflokks

Jökulsá á fjöllum

"Málið snýst um grundvallar-réttindi minnihlutahóps. Meirihluti á aldrei að taka ákvarðanir um réttindi minnihluta,“ #

Segir Guðmundur Andri Thorsson um hugmyndir um að kosið verði um hvort Félag múslima fái að halda lóð sem félagið hefur fengið úthlutað í Reykjavík.

Þetta er hárrétt hjá Guðmundi og gildir líka um kosningar um það hvort Þjóðkirkjan eigi að vera í stjórnarskrá og á Íslandi eigi að vera ein ríkiskirkja. Þetta eru ekki tengd mál, þetta er nákvæmlega sama málið.

Þeir sem andmæla því (réttilega) að kjósa eigi um úthlutun lóðar í Reykjavík til Félags múslima verða um leið að andmæla því að kosið sé um samband ríkis og kirkju. Því sambandi á einfaldlega að slíta án kosninga því það snýst um að meirihlutinn eigi ekki að taka ákvarðanir um réttindi minnihluta (eða í þessu tilviki, forréttindi "meirihluta").

Framsókn er kristilegur afturhaldsflokkur

Furðulegasti hluti umræðunnar um ummæli forystukonu Framsóknar í Reykjavík er ekki ummæli hennar heldur viðbrögð samflokksmanna. Ummæli forystukonunnar eru í takt við það sem flokkurinn hefur boðað og framkvæmt. Það er bölvað kjaftæði að koma núna með yfirlýsingar um að Framsóknarflokkurinn sé flokkur fjölmenningar og umburðarlyndis. Framsóknarflokkurinn hefur verið pólitískur armur hvítasunnukirkna og íhaldsafla í ríkiskirkjunni áratugum saman. Þessi nýjasta uppákoma er eðlilegt framhald af ríkiskirkjusmjaðrinu sem einkennt hefur flokkinn. Sem dæmi má nefna að flestir þingmenn Framsóknarflokksins eru hlynntir ríkiskirkju og bænahaldi í skólum.

Ég hef rætt við tvo þingmenn Framsóknarflokksins, einn fyrrverandi og einn núverandi, sem báðir sögðust styðja ríkiskirkju á Íslandi af ótta við múslima/íslam.

kristni pólitík íslam
Athugasemdir

Matti - 26/05/14 11:02 #

Annað finnst mér áhugavert í umræðunni. Mjög margir vísa til þess að samkvæmt jafnréttisákvæðum stjórnarskrár verði það sama að gilda um mosku og kirkju. En málið er að þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrár hefur ítrekað verið notað til að andmæla því að jafnréttisákvæði eigi við þegar kemur að trúmálum.

Um þetta var t.d. fjallað í grein á Vantrú:

Raunin er hins vegar sú að ójafnrétti trúfélaga er grundvallaratriði í íslenskum lögum um trúfélög. Það þarf ekki annað en að lesa stjórnarskrána til þess að sjá að ójafnræði ríkir á milli trúfélaga landsins: ríkiskirkjan er þar sett í forréttindastöðu. Lög um Kristnisjóð eru bara ein birtingarmynd þessa ójafnræðis.

Hjalti Rúnar - 26/05/14 14:07 #

Svo má halda því til haga að hún var virðist ekkert hafa verið að leggja áherslu á að það ætti að kjósa um þetta upphaflega. Þetta var það sem ég sá á Vísir.is:

Á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku réttrúnaðarkirkjuna,...

Svo "like"-aði hún við athugasemd sem endaði svona:

Mosku á undir engum kríngumstæðum að leyfa hér á landi.....

Halldór Elías - 26/05/14 21:16 #

Hér virðist þú telja að ákvörðanir um forréttindi meirihlutahópa séu jafngildar ákvörðunum um réttindi minnihlutahópa. Ég er ekki viss um að það sé endilega svo.

Hins vegar er alveg ljóst að lýðræðisleg samfélög búa við alvarlega lýðræðisbresti þegar kemur að mannréttindum smárra hópa annars vegar og forréttindum meirihlutans hins vegar.

Ég er einvörðungu að efast um að lýðræðisbresturinn sé endilega sá sami í báðum tilfellum.

Mér finnst þó vert að taka fram, svo við festumst ekki í þeirri umræðu, að ég tel stjórnarskrárákvæðið um kirkjuna vera misráðið og kirkjunni til hindrunar á marga vegu.

Matti - 27/05/14 09:16 #

Hér virðist þú telja að ákvörðanir um forréttindi meirihlutahópa séu jafngildar ákvörðunum um réttindi minnihlutahópa.

Það er nú reyndar ekki skoðun mín að svo sé almennt :-)

Í fyrsta lagi talaði ég um ákveðið dæmi en ekki almennt ("í þessu tilviki") og í öðru lagi var ég að vísa til umræðunnar um forréttindi ÞJóðkirkjunnar (og þar með félagsmanna) hér á landi. Það er stundum auðveldara að benda á forréttindi hóps heldur en það sem vantar upp á hjá hinum einfaldlega vegna þess að forréttindin eru oftast uppi á borði.

Annars á Hjalti Hugason áhugavert innlegg í umræðuna í Fréttablaðinu í dag. Þar talar hann reyndar um að "í þjóðkirkjuskipan felst eðli máls samkvæmt ýmiss konar mismunun sem hingað til hefur talist málefnaleg."

Ég ætla að fá að mótmæla því að sú mismunun hafi hingað til talist málefnaleg. A.m.k. höfum við í Vantrú mótmælt henni harðlega og teljum hana alls ekki málefnalega.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)