Örvitinn

Dublin, Ulysses og Primark

Liffey

Ég veit ekki af hverju ég hef haft fordóma gegn Dublin. Þá má sennilega rekja til verslunarferða samlanda minna, álit mitt á slíkum ferðalögum er ekki mikið. Fordóma mína gegn Ulysses má rekja til þess að ég reyndi að byrja á bókinni í bústað fyrir fimmtán árum en þurfti að játa mig sigraðan. Fordómarnir gegn Primark eru auðvitað líka verslunartengdir, mér leiðast búðir og hef heyrt sögur af því að þarna sé oft mikil óreiða.

Níunda til tólfta október vorum við hjónin í Dublin ásamt vinnufélögum mínum í Trackwell. Í ferðinni dró verulega úr fordómum mínum.

London Dublin

Ferðin hjá mér og Gyðu byrjaði daginn áður þegar við flugum til London. Stebbi mágur sótti okkur á Heathrow og Margrét var með kvöldmat tilbúinn handa okkur þegar við mættum í Ealing.

Við fórum eldsnemma á fætur morguninn eftir, röltum út á West Ealing stöðina og tókum lestina aftur út á flugvöll. Vorum alltof snemma á ferðinni en það er betra að mæta snemma en seint í flug! Ferðuðumst létt og vorum bara með (næstum tómar) handfarangurstöskur. Við tók stutt og þægilegt flug með British Airways. Þetta var svona eins og flug milli Reykjavíkur og Akureyrar, flugfreyjurnar rétt náðu að deila út drykkjum og snarli áður en flugmaður tilkynnti að nú yrði flugið lækkað og það styttist í lendingu.

Dublin

Við tókum strætó frá flugvellinum í miðbæinn. Það var ódýrt (€10 fram og til baka) og þægilegt. Brooks hótelið er miðsvæðis og við röltum allt í ferðinni, fórum ekki aftur í bíl fyrr en við tókum strætó út á flugvöll á sunnudeginum.

Þegar við höfðum skilað töskunum á hótelið kíktum við á The Hairy Lemon á næsta horni og hittum ferðafélaga okkar sem voru að klára hádegisverð. Gengum svo aðeins í bæinn en enduðum tvö á veitingastað rétt við Grafton og fengum síðbúðinn hádegisverð. Þar fékk ég í fyrsta sinn "hamborgara" með "pulled" nautakjöti. Virkilega góður.

Eftir mat kíktum við í Kevin & Howlin herrafataverslunina sem var á listanum. Á leiðinni rákumst við á mömmu hennar Silju (vinkonu Kollu). Við búðina hittum við ferðafélaga sem voru líka að skoða. Ég keypti ekki neitt, vörurnar voru aðeins dýrari en ég hafði vonað. Sé samt eftir því núna að hafa ekki keypt hatt eins og Palli. Eftir örstutt rölt um Grafton og eitt stopp á pöbb þar sem við rákumst aftur á mömmu hennar Silju - Dublin er smábær! Eftir einn drykk kvöddum við hópinn og kíktum í myndavélabúð sem ég hafði fundið á netinu. Þar gerðist ekkert merkilegt fyrir utan það að ég uppfærði myndavélina*.

Ekkert var planað fyrir kvöldið en við röltum ásamt dálitlum hópi og enduðum á indverska staðnum Jaipur þar sem við fengum fínan mat, meðal annars gott vindaloo sem var þó ekkert mjög sterkt.

Eftir mat kíktum við á fyrsta staðinn í "skeifunni" svokölluðu en það var gönguleið sem Kolli hafði skipulagt milli öldurhúsa í nágrenninu. The Dawson Lounge er þekktur sem minnsti pöbbinn í Dublin og er í kjallara við Dawson stræti. Einkar skemmtilegur lítill bar og við fengum ágætis sæti. Þessi síma-panorama mynd er dálítið gölluð en sýnir nær allan staðinn!

Röltum með hópnum á annan bar eftir þennan en við hjónin kvöddum svo þokkalega snemma.

Föstudagur

Að loknum fínum morgunverði á hótelinu hittist hópurinn og rölti saman á Guinnes safnið. Sú heimsókn var alveg þess virði og ég mæli með því ef þið kíkið til Dublin. Flott og fróðlegt safn og ég er ekki frá því að ég hafi loksins lært að meta Guinness bjórinn í þessari heimsókn. Útsýnið frá efstu hæð skemmdi ekki fyrir.

Ég og Gyða röltum svo yfir Liffey, fengum okkur írska kássu og smalaböku á krá. Kíktum svo örlítið í búðir eftir mat og þá kom ég í fyrsta sinn inn í Primark - alveg óvart.

Primark

Í Dublin er Primark rekið undir heitinu Penneys og ég verð að játa að ég hafði ekki hugmynd um það. Þetta var fyrsta stóra búðin sem við gengum að við Henry stræti og mér leyst bara vel á hana. Búðin leit ágætlega út og verðlagið í raun alveg glórulaust borið saman við Ísland. Við keyptum ekkert í þessari heimsókn en ég mátaði buxur. Aðrir voru duglegri. Þetta var alls ekki síðasta heimsókn mín í Primark í þessu fríi.

Síðdegis fórum við aftur á hótel, Gyða slakaði á í herberginu en ég kíkti á loðnu sítrónuna og hitti Palla og Kolla. Ég og Kolli röltum þvínæst í viskýbúð við Dawson, sömu götu og minnsti pöbb borgarinnar. Þar var verið kynna léttvín og viský, svona eins og matarsmakk í íslenskum kjörbúðum. Við smökkuðum auðvitað vörurnar og ræddum aðeins við viskífræðingana. Ég spurði þá meðal annars út í "bestu kaupin" af írsku viskí og afgreiðslumaðurinn var fljótur að benda mér á €150 flösku. Mér fannst það aðeins og dýrt en sé hálfpartinn eftir að hafa ekki keypt mér eina.

Kirkjan

Um kvöldið fór hópurin saman út að borða á veitingastaðnum The Church. Þetta er virkilega góð nýting á kirkjuhúsi og ég mæli með heimsókn.

Er ekki tilvalið að breyta Dómkirkjunni í veitingastað? Staðurinn er mjög vinsæll og við fengum borð frekar snemma en það var fínt. Eftir mjög góðan mat settumst við í kjallara kirkjunnar og drukkum bjór og kokteila. Svo fleiri barir áður en haldið var á hótel og lagst til rekkju.

Laugardagur

Morgunverður á hóteli og bæjarrölt. Kíktum á Trinity háskólann en nenntum ekki að bíða í röð til að skoða gamla bókasafnið fræga, það verður heimsótt í næstu ferð. Skoðuðum háskólasvæðið og fylgdumst meðal annars með knattleik sem ég kann ekki að nefna.

Ég fór svo að leita að ódýrum jakkafötum en endaði á því að kaupa boli og gallabuxur í Primark og aðeins betri buxur í M&S (ekki S&M, svo það sé á hreinu).

Vískísmökkun um eftirmiðdaginn á hótelinu var mjög fróðleg. Barþjónninn stillti upp fimm írskum viskíum og fræddi okkur um þau og viskí almennt. Ég spurði hann út í hagstæð kaup á viskí (hann tók undir að €150 viskíið væri góð kaup) og keypti svo að hans ráði og eftir að hafa smakkað á barnum flösku af Teeling á €40 á flugvellinum í Dublin.

Um kvöldið var svo formleg árshátíð Trackwell haldin í sal í kjallara hótelsins. Frábær stemming og djammað fram á nótt. Veislustjórar stóðu sig víst ótrúlega vel.

Sunnudagur

Við skráðum okkur út af hótelinu um hádeginu en áttum flug til London um kvöldið. Geymdum því töskurnar á hótelinu og röltum af stað! Skoðuðum ýmislegt, borðuðum á Hard Rock (sem var alveg ágætt) og löbbuðum fáránlega mikið. Kvöddum vinnufélaga fyrir framan hótelið um fimm og tókum strætó klukkutíma síðar. Rákumst svo auðvitað á þau á flugvellinum. Lentum í smá vandræðum á flugvelli, ég fékk að rölta milli flugstöðvabygginga en ekkert stress og allt reddaðist að lokum.

Flugum til London, Stebbi sótti okkur út á völl og við tók vikufrí sem ég segi frá á morgun eða hinn.

ps. Af Ulysses er það að frétta að ég er búinn með svona fimmtung og finnst bókin skemmtileg. Verð að gefa mér tíma til að klára hana en er alveg rosalega latur að lesa um þessar mundir.

*Setti D700 vélina upp í D810. Hafði líka verið að spá í D750 en hún var ekki til. D810 var 100þ krónum ódýrari í Dublin en Reykjavík.

dagbók
Athugasemdir

Óli Gneisti - 27/10/14 14:56 #

Ég sé ekki á myndinni hvort leikmennirnir eru með kylfur en ef svo er þá er þetta hurling. Það er svona eins og bandí með trékylfum og engum reglum.

Óli Gneisti - 27/10/14 15:40 #

Áður en ég fór til Írlands hafði ég heyrt að þeir spiluðu eitthvað eins og bandí sem mér fannst spennandi. Síðan sá ég aðeins hvernig þessi íþrótt var spiluð og ákvað að sleppa því. Menn eru að lemja boltann með kylfunum í höfuðhæð.