Örvitinn

270 dagar

Í dag eru 270 dagar síðan ég byrjaði í átaki og tími kominn á þriðju stöðuskýrslu, þær fyrri eru hér: (180, 90). Í fyrri færslum sagði ég frá því hvernig ég gerði þetta og ætla ekki að endurtaka hér.

línurit sem sýnir 90 daga þyngdarrþóun
Þyngdarþróun síðustu 90 daga. Punktarnir sýna þyngdartölu dagsins en línan meðaltalsþyngd síðustu 10 daga. Tala dagsins er ekki í þessu vegna þess að ég tók skjáskotið í gærkvöldi.

Ég er kominn undir 80kg (tala dagsins og meðaltal síðustu 10 daga er 79.4kg) og því 30 kílóum léttari en í upphafi átaks. Fyrstu þrjá mánuðina léttist ég um nær 15 kíló, næstu þrjá mánuði fuku um tíu og síðustu þrjá mánuði hef ég lést um u.þ.b. fimm kíló.

Núna í mars náði ég síðasta 5% markmiðinu. Snemma á síðasta ári ákvað ég að fara að gera eitthvað í mínum málum og bjó þá til skjal með 5% áföngum. Fyrsti áfangi var dálítið "svindl" því í stað þess að miða við þáverandi þyngd, sem var um 110kg, miðaði ég við hæstu tölu árin á undan, 114 kílóin sem ég vó í júlí 2012. Fyrsta markmið var 95% af þeirri þyngd, 108.5kg og næstu markmið svo ávallt 95% af þyngdinni á undan. Svo setti ég mér þá reglu að verðlauna mig alltaf þegar ég næði markmiði. Því miður gerðist mjög lítið til að byrja með, þar var ekki fyrr en ég fór að huga almennilega að mataræðinu í byrjun júlí sem þetta fór að ganga.

Staða 31. júlí 2012  114.2
1. Markmið 108.5
2. Markmið 103.1
3. Markmið 97.9
4. Markmið 93.0
5. Markmið 88.4
6. Markmið 83.9
7. Markmið 79.8

Kosturin við þetta er að markmiðin eru frekar hóflegt hvert um sig og minnka þegar á líður.

línurit sem sýnir þyngdarþróun síðasta árs
Þyngdarþróun síðasta árs, línan sýnir 10 daga meðaltal.

Uppfært graf

Ég uppfærði þyngdarsíðuna og sýni nú meðaltal auk þyngdartölu dagsins. Meðaltalið er einfaldlega meðalþyngd síðustu tíu daga. Meðaltalsgraf dempar sveiflur og gefur mun betri mynd heldur en rauntölur sem geta sveiflast mikið. Ég stressa mig því lítið á stökum tölum og reyni að einblína á þróunina. Þegar lengri tímabil eru skoðuð sýni ég bara meðaltalslínuna.

Hitaeiningar og æfingar

Ég er í raun ekkert að stefna á að léttast frekar, reyni heldur að halda í horfinu. Ég uppfærði því viðmiðið í myfitnesspal, hafði áður breytt úr því að léttast 1kg á viku í hálft kíló og svo 250gr. Kaloríuviðmiðið er 2360 hitaeiningar á dag og miðast þá við að léttast ekkert af mataræði, ég borða nú það sem ég þarf, en mun samt ekki "borða hreyfingu". Fylgist vel með stöðunni og reyni að finna út hver raunveruleg hitaeiningaþörf mín er.

Ég vil styrkja mig og til að bæta sig þarf maður að borða ágætlega en samt er ekki ástæða til að borða þannig að maður þyngist (bulk/cut).

Hef líka verið að hlaupa dálítið meira á bretti, hleyp 6km og hef hraðast farið það á 28:59. Fyrir tólf árum hljóp ég þetta á 28:16 og stefni á að ná því aftur bráðlega. Og í gær tókst Gyðu loksins að draga mig í spinning. Ætli ég fari ekki líka oftar í þá tíma. Mun hjóla helling í sumar og auðvitað spila fótbolta.

Svo þarf ég að fara að drífa mig í að æfa upphífingar, hef ekki enn gert þær án stuðnings en hef verið nokkuð duglegur í dífunum. Langar að ná a.m.k. 100 í bekk (og næ því hugsanlega í dag, er bara alltaf einn í ræktinni, þarf að fá einhvern til að spotta mig).

Mælingar

Ég fór í mælingu í Laugum 22. desember og svo aftur 23. mars. Niðurstöður voru:

Þyngd: 85 - 80
Fituprósenta: 15.3% - 13.5%
Fitumassi: 13.1 - 10.8kg
Fitufrír massi: 72.3 69.2

Ég væri alveg til að í fara undir 10% í fituprósentu en ætla ekki að stressa mig á því.

Já og í gær mátaði ég og keypti gallabuxur sem eru 32" í mitti. Það er langt síðan ég hef passað í þá stærð.

270_fyrir_eftir.jpg
Endum þetta á myndum. Sú fyrri tekin í maí, seinni rétt í þessu. Ekkert sérstakar myndir en ég vildi ná mynd sem væri lík þeirri eldri, síminn (myndavélin) er alltof nálægt fésínu á mér.

Næsta og síðasta 90 daga skýrsla verður þegar ár er liðið frá því byrjaði.

heilsa
Athugasemdir

Matti - 06/04/15 22:43 #

Hljóp 6km á 28:50 í ræktinni í kvöld. Þetta mjakast en það er enn frekar langt í 28:16.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)