Örvitinn

Þessi langi dagur

Það er flaggað í hálfa í Bakkaselinu. Dó einhver?

Flaggað í hálfa stöng
Já, það eru því miður alltaf einhverjir að deyja og því ætti alltaf að vera flaggað í hálfa.

Ólöglegt bingó Vantrúar fór fram á Austurvelli klukkan eitt. Um hundrað voru á svæðinu í ágætu veðri. Ég hlakka til að segja barnabörnunum sögur af ólöglegu bingói, þeim mun þykja það bráðfyndið. Mér finnst mjög skemmtilegt að það sé í alvöru til fólk sem lætur þennan gjörning pirra sig. Á næsta ári verða fleiri bingóspjöld svo allir geti spilað.

Bingó á Austurvelli
Ótrúlega góðmennt!

Skellti mér í ræktina eftir bingó. Það var pakkað í Laugum, fullt af fólki sem var ekki að hugsa um Krist. Og þó, kannski voru einhverjir að taka vel á því fyrir Drottinn. Ég tók fótadag eins og Jesús þegar hann bar krossinn á Golgata hæð. Tók uppstig á bekk með 25kg stöng á herðunum en enga þyrnikórónu. Þótti það ansi erfitt og rifjaði upp að ég var með meira en 30kg utan á mér þegar ég tók sömu æfingu fyrir níu mánuðum. Kannski verð ég með harðsperrur á morgun - eins og Jesús.

Er að elda geitalæri. Hef ekki hugmynd um það hvernig það virkar! Er með það á frekar litlum hita (120°) og leyfi því að vera þar til kjarnhitinn nær 65°. Skelli blönduðu rótargrænmeti í hinn ofninn á eftir. Já, það er oft gott að vera með tvo ofna.

Geitalæri tilbúið í ofninn
Makað með ólífuolíu og kryddað með hvítlauk, rósmarín, salti, pipar og hvítlauksdufti.

Annars er ég bara þokkalegur, ekki beint í páskafríi heldur reyni að vinna dálítið í meistaraverkefninu. Það gengur ágætlega.

Nýja sturtan er komin í gagnið.

dagbók
Athugasemdir

Óli Gneisti - 03/04/15 18:50 #

Mér skilst að best sé að nota mjólk móðurinnar.

Matti - 03/04/15 20:26 #

Það fylgdi engin mjólk með þegar ég keypti lærið, bölvað vesen. En það kom mjög vel út, var virkilega gott.