Örvitinn

Eistnaflug 2015 - miðaldra menn á rokkhátíð

Ég fór í fyrsta skipti á Eistnaflug þetta árið. Skellti mér ásamt Kolla og Palla vinnufélögum mínum hjá Trackwell. Þórður vantrúaði fékk far á Höfn. Ég tók að mér að aka og við lögðum af stað úr bænum um þrjú á miðvikudag eftir stutt viskýstopp (ekki ég, ökumaðurinn) á hverfisbarnum og heimsókn í ríkið. Þrímenningarnir fengu sér bjór og ég bölvaði þeim í hljóði - nema þegar þeir skáluðu - þá bölvaði ég upphátt!

pissustopp
Þegar miðaldra menn drekka bjór þarf að stoppa reglulega til að pissa

Stoppuðum a.m.k. fjórum sinnum á leiðinni til Hafnar enda ekki á hraðferð. Skutluðum Þórði til Hafnar og fórum að leita að borði á veitingastað í þeim bæ. Eins og Dr. Gunni fengum við ekki inni á veitingastað fyrr en á fjórða staðnum sem við prófuðum. Þetta er eiginlega ótrúlegt ástand í miðri viku. Við fengum semsagt borð á Hótel Höfn og borðuðum ágætt pasta eftir all langa bið en maturinn var næstum klukkutíma að berast. Stoppið á Höfn varð því lengra en ráðgert var.

Það er lengra frá Höfn að Djúpavogi en ég hélt en ferðin á Norðfjörð gekk ágætlega með einungis einu pissustoppi. Bæirnir á leiðinni voru metnir úr fjarska án þess að hægt væri meira á ferð en umferðarlög gera ráð fyrir og niðurstaða okkur var að þeir skánuðu hver á eftir öðrum. Álverið er óskaplegt ferlíki þegar maður keyrir framhjá eftir miðnætti á sumarnóttu. Við mættum til Þorsteins vinnufélaga okkar sem hýsti okkur í ferðinni um hálf tvö. Ég fékk mér tvo bjóra áður en við fórum í bælið lúnir eftir ferðalagið.

Fimmtudagurinn hófst með heimsókn í útibú Trackwell á Neskaupsstað þar sem Palli og Kolli rýndu í kóðann hans Steina. Steini sat áfram samviskusamur í vinnunni en við hinir röltum í sund. Ég kíkti aðeins í ræktina á undan og tók á því, þarna er ágæt líkamsræktaraðstaða. Missti reyndar af Kolla og Palla í sundinu en spjallaði við fólk í heitu pottunum. Prófaði heitasta pottinum og kalda karið - það er hressandi samsetning. Hádegisverður var snæddur í glampandi sól fyrir utan Hildibrand hótelið og smá bjór drukkinn með. Kíktum í hvíta tjaldið þar sem við fengum armböndin fyrir hátíðina og héldum heim til Steina til að smakka smá bjór.

Hópmynd
Heldri menn að undirbúa sig fyrir rokktónleika.

Það er ekki hægt að sjá allt á svona hátíðum og við misstum af mörgu. Sáum lokalagið hjá Sinmara. Dys kom mér skemmtilega á óvart, voru frábær og Siggi pönk var helvíti góður. Sáum rétt lokin hjá Dr. Gunna þar sem Heiða söng með. Mér fannst Agent Fresco frábærir og Kontinuum líka. Rotting Christ voru algjörlega stórkostlegir að mínu mati en ég er auðvitað eldgamall karl, hver fellur ekki fyrir Sanctus Diavolos á tónleikum? Carcass voru líka helvíti flottir og Sindri formaður sem mætti sérstaklega til að sjá þá var sáttur. Ég var ekkert að falla fyrir Sólstöfum og nennti ekki að horfa á allt settið hjá þeim.

Á milli hljómsveita röltum við svo í húsið hans Steina, slökuðum á í stofunni og fengum okkur að drekka dálítið. Þvílíkur munar að hafa svona aðstöðu.

Hópmynd tekin
Á leiðinni á Rotting Christ mættum við Agent Fresco sem báðu mig að taka mynd sem birtist á Instagram síðu hljómsveitarinnar. Palli tók þessa mynd.

Menn voru þokkalega sprækir klukkan tíu á föstudagsmorgni, sumir sprækari en aðrir. Steini eldaði beikon, egg og pönnukökur, ekki ónýtt að byrja daginn þannig. Skelltum okkur aftur í sund. Rauða rennibrautin var prófuð dálítið og ég synti eina ferð fram og til baka - það dugði mér! Kolli og Palli fóru á umræðufund um hvernig litlar hljómsveitir stækka. Það var víst nokkuð áhugavert og sérstaklega fyrir það að söngvarinn í Sólfstöfum talaði um aðdáendur sem apa (hann talaði um að neyðast til að fara í "monkey tent" og þegar hann var spurður út í það útskýrði hann að hann ætti við tjaldið þar sem aðdáendur væru). Þetta þótti okkur ekki svalt.

Eftir hádegi fórum við í skoðunarferð um Neskaupsstað þar sem Steini sýndi okkur sitthvað, kíktum á snjóflóðavarnagarðinn sem er ansi tilkomumikill þegar komið er upp að honum, sérstaklega vegna þess að umfangið sést ekki neðan úr bæ. Fengum okkur ís á olísstöðinni eftir rúntinn.

snjóflóðavarnagarður í Neskaupsstað
Hinum megin við snjóflóðavarnargarð. Það er manneskja ofan á garðinum í hinum endanum.

Ég og Kolli sáum nokkur lög með Saktmóðig. Fórum allir á uppistand með Hugleik í Egilsbúð, það var verulega skemmtilegt, lélegu brandararnir bestir! Ætluðum að fá okkur pítsu eftir það á pítsustaðnum en pítsuofninn var bilaður. Þar missti sá staður af einhverjum krónum, ansi óheppilegt. Vonandi var ofninn ekki bilaður mjög lengi. Fengum okkur í staðin borgara á Olís.

Sáum The Vintage Caravan (facebook) sem voru frábærir. Ég hef verið að hlusta dálítið á þá undanfarið en vissi ekki að þeir væru bara þrír og nýfermdir að auki (eða rétt rúmlega tvítugir). Afskaplega skemmtileg hljómsveit og flottir í kjólunum. Dimma kom mér á óvart, ég hafði smá fordóma en þeir vor magnaðir á sviði. Söngvarinn auðvitað ótrúlega góður en restin af bandinu líka alveg með show-ið á hreinu og lögin fín. Inquisition voru bara tveir, trommari og gítar/söngur en göldruðu samt fram heljar hávaða, við horfðum á tvö lög. Í heita pottinum daginn eftir fengum við útskýringar á hljóðgöldrunum frá hljóðmanninum sem mixaði þá.

Það er bannað að vera fáviti á Eistnaflugi og þau skilaboð eru endurtekin ítrekað. Ég held að það virki í alvöru. Skilaboðin eru afskaplega einföld og þau þarf ekkert að rökræða. Það skilja allir út á hvað þetta gengur og ef það er sífellt verið að endurtaka þetta verður þetta að hálfgerði möntru. Tónlistarmenn minntu gesti á skilaboðin og þetta verður að hálfgerðu gríni - sem þó stimplar skilaboðin bara inn. Ég myndi ræða við Stefán skipuleggjanda hátíðarinnar og fá hann í samstarf við menntamálaráðuneyti um að koma þessum skilaboðum á framfæri víðar í samfélaginu. Það þarf engin úrelt tíu boðorð, eitt dugar: Ekki vera fáviti.

Palli og Kollu urðu vitni að því þegar smá fáviti sparkaði fötu með tómum dósum um koll. Nærliggjandi hundskömmuðu hann og létu týna allar dósir upp. Stundum þarf smá uppeldi.

Enslaved voru magnaðir, þegar þeir spiluðu skelltum við okkur nær sviðinu og pittinum og þegar Skálmöld mætti á svæðið var bolurinn minn svo blautur að það var ekkert annað í stöðunni en að klára kvöldið ber að ofan fremst við sviðið á Skálmaldartónleikum. Það skemmtilegasta við þá tónleika var hvað ánægjan og gleðin geislaði af hljómsveitinni, þeir voru alveg að springa úr hamingju og það skilaði sér til áheyrenda. Lætin við pittinn voru mögnuð, ég ætlaði ekkert í pittinn sjálfan en lenti einu sinni í honum, fór hring um svæðið án þess að ráða við nokkuð. Þrisvar féll ég í gólfið en var rifinn upp samstundis í öll skiptin. Þannig virkar þetta nefnilega, virðist mjög harkalegt þar sem fólk hendir sér hvort á annað en um leið og einhver dettur koma nærliggjandi og lyfta fólki upp. Ég var samt allur lurkum laminn eftir kvöldið, marinn hér og þar, en það fylgir þessu.

Eftir tónleika röltum við upp í hús en fengum símtal frá Steina sem skipaði okkur að koma með viskýflösku sem við gerðum auðvitað. Vorum smá stund með honum í apatjaldinu og kláruðum nóttina með sumbli í stofunni. Fórum því frekar seint í bælið.

Í einhverju bríaríi keypti Kolli fleyg af íslenskum snafs til að bjóða upp á í ferðinni. Sá drykkur er viðbjóður. Ekki "ha ha, þetta skot var vont" viðbjóður heldur "til hvers ætti ég að fá mér dropa í viðbót af þessu" viðbjóður. Drykkurinn er svo vondur að það er ekki einu sinni fyndið! Sá sem smakkaði þennan drykk og ákvað að hann ætti að fara í sölu þarf að hætta að vera fáviti. Ef hugmyndin var að pranga þessu upp á ferðamenn þurfa allir sem að ákvörðuninni koma að hætta að vera fávitar.

íslenskur snafs
Íslenskur snafns er viðbjóðslega vondur á bragðið, ekki kaupa hann. Meira var ekki drukkið úr þessum fleyg í ferðinni.

Menn vöknuðu þokkalega hressir á laugardag. Steini hélt áfram að dekra við okkur og eldaði folald með bernaise í hádegismat. Við kíktum auðvitað í sund, rauðu rennibrautina og heitu pottana. Getur verið að sjóðandi heiti potturinn og ískalda karið séu ótrúlega gott ráð við þynnku? Sáum einhver lög með Vampire, tónlistin ágæt en söngvarinn alveg sérstaklega hallærislegur (ég held áfram að vera ósammála Grapevine enda miðaldra karl). Steini hafði ætlað að taka sér frí frá gæslustörfum og djamma með okkur en afleysingamaðurinn tók upp á því að eyða deginum á fæðingardeildinni með eiginkonunni. Meiri svikin (harmurinn og dauðinn). Næst þarf Steini að taka a.m.k. eitt kvöld með okkur í sukkinu (já, ég sagði næst).

Brain Police olli vonbrigðum, okkur fannst þetta bara ekki nógu gott. Eins og við vorum spenntir að sjá þá. Síðast þegar ég sá Brain Police á tónleikum voru þeir geggjaðir. Kvelertak voru aftur á móti frábærir, þegar gestasöngvari söng með þeim í byrjun (þó ekkert heyrðist í honum reyndar) voru sjö á sviðinu. Tónlistin var þyngri á tónleikunum en á plötunum sem mér finnst nokkuð "poppaðar". Ég mæli með Kvelerak, þessir norðmenn eru stórskemmtilegir. Behemoth voru aðalatriði hátíðarinnar og ástæða þess að Kolli var á svæðinu. Hann var með yfirlýsingar um að hann ætlaði ekki upp að sviði heldur að horfa á úr öruggri fjarlægð en fyrsta lag var ekki hálfnað þegar hann var kominn fremst - skiljanlega. Ég horfði á úr fjarska. Þetta var geggja djöflashow - Satan var kallaður fram og gott ef hann mætti ekki á svæðið. Sem betur fer er bannað að vera fáviti á Eistnaflugi. HAM var næst og þeir voru líka stórfínir, þeir voru HAM og við vorum HAM. Ég var að spá hvort Óttar væri í eins skyrtu og ég á leiðinni en við nánari skoðun reyndist svo ekki vera. Næstum því samt!

tónleikar
Kolli byrjaði í öruggri fjarlægð en Behemoth táldróg hann, skömmu eftir að myndin var tekin var hann kominn fremst í lætin.

Þarna hefði kvöldið eiginlega mátt enda en gerði það ekki. Hin stórskemmtilega hljómsveit FM Belfast mætti næst og þó ég hafi mjög gaman að þeim breyttist þetta úr rokkhátíð í sveitaball á stuttri stundu. Yngri krakkar úr nærliggjandi bæjum mættir og stemmingin allt önnur. Ég hefði viljað enda hátíðina á metal og hafa diskóið aðskilið, á öðrum stað jafnvel. Við vorum samt í góðu stuði, ég hafði hætt að drekka snemma með heimferð í huga og allir þokkalega sáttir. Fengum okkur snarl í apatjaldinu, pasta með gulum baunum - hvað er það?

Vorum eldhressir á sunnudag eftir skynsemisdrykkju laugardagskvöldsins, ég fékk mér hafragraut og eftir smá tiltekt kvöddum við Steina og Norðfjörð áður en við brunuðum burt rétt rúmlega eitt. Á leiðinni að göngum ældi farþegi í þarnæsta bíl fyrir framan okkur út um gluggann - það hefur verið skemmtileg heimferð! Þokan var svört á heiðum. Ákváðum að fara norðurleiðina og klára hringinn. Stoppuðum stutt við Mývatn, borðuðum kvöldmat á Greifanum á Akureyri (ég fékk ágæta humarpítsu), pissustopp í Staðarskála og vorum mættir í Reykjavík rétt rúmlega ellefu um kvöld. Bílaleikur heimferðar (já, miðaldra karlar fara í bílaleiki þó þeir kalli það ekki því nafni og segi það ekki upphátt) gekk út á að gagnrýna bæjarnöfn á Íslandi. Hvað er málið með að bæta "staður" aftan við bæjarnafn, auðvitað er þetta staður - og hvað er málið með staðinn Staður? Heitir einn bærinn í alvöru Moldhaugar?

sólarlag
Sólarlagið í Túnunum við heimkomu, Halla sótti Palla þangað þannig að ég slapp við að skutlast til Grindavíkur.

Þetta var stórkostleg ferð, Eistnaflug er frábær hátíð og ef orðrómurinn um aðal bandið á næstu hátíð reynist sannur mæti ég á svæðið.

ps. Af hverju eru svona margar hljómsveitir ekki með "alvöru" heimasíður. Glatað að vera bara með Facebook síðu.

dagbók tónlist
Athugasemdir

Jón Magnús - 15/07/15 21:51 #

Frábær ferðasaga. Óska að ég hefði getað verið þarna, kannski kemur tækifæri að ári :)

p.s. Hvaða hljómsveit er orðrómur um að verði að ári?

Matti - 15/07/15 22:49 #

S
l
a
y
e
r

Arnar Freyr - 16/07/15 08:51 #

Góð grein og skemmtilegt að vera með á þessari mynd

Jón Magnús - 16/07/15 23:35 #

Jahá! Slayer! Það er eitthvað.

Matti - 17/07/15 00:08 #

Þetta er nú bara kjaftasaga.

Steingrímur Trackwellari - 17/07/15 00:15 #

Mjög skemmtilegt og lýsandi. Ég hefði sannarlega verið til í að koma með og eftir þessa lesningu, finnst mér næstum því að ég hafi verið með ykkur!

Matti - 17/07/15 10:31 #

skemmtilegt að vera með á þessari mynd

Alltaf skal fólk laumast inn á sjálfsmyndirnar mínar :-)

Næst verð ég vonandi duglegri við að taka myndir af hljómsveitum og gestum.

Matti - 18/07/15 12:29 #

Ég gleymdi atriði sem átti að fara í bloggfærsluna.

Eitt af því sem fólk stundar á svona tónleikum er að "surfa" ofan á áhorfendum. Það er dálítið skemmtilegt og þó ég hafi ekki þorað að gera það sjálfur tók ég þátt í að bera ansi marga - sem var bara fín stemming (en dálítið "scary" þegar það voru ekki margir að bera með manni, sem var undantekning). Maður þurfti að vera vakandi yfir því hvort einhver væri á leiðinni yfir mann í fjöldanum.

Gott og blessað, mér finnst þetta skemmtilegt - flott stemming. Hvet fólk til að gera þetta.

Það sem var ekki jafn skemmtilegt var liðið sem gerði þetta aftur og aftur og aftur og aftur. Það fannst mér eiginlega bara frekja. Allt í lagi að gera þetta oftar en einu sinni en þegar þú ert búinn að fara tíu sinnum er ekki lengur skemmtun að lyfta þér yfir fjöldann heldur vinna. Það eru ekki allir mættir á svæðið til að þjóna þér og það lá við að ég nennti ekki að taka undir suma í lokin þegar þeir voru mættir enn og aftur (með myndavélina), en ég tók samt undir, maður vill ekki að fólk meiði sig.

Ekki vera fáviti.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)