Örvitinn

Tímamót: Tár, bros og takkaskór

Við erum búnir að vera saman svo lengi, eiga góða tíma og slæma tíma - höfum svitnað saman í mörg hundruð klukkutíma, hlegið, öskrað, pirrast, glaðst og fagnað en nú er komið að endalokum. Tár, bros og takkaskór. Erfitt að velja bestu stundirnar, þær voru svo margar góðar. Ætti maður að velja eitthvað sólóið, jafnvel langskot eða frekar stoðsendingu. Ég veit það bara ekki, þetta var allt best.

Fótboltaskórnir fóru í ruslið. Göt og rifur á báðum - það var ekkert við þessu að gera. Heimurinn er harður, örlögin grimm, ekkert pláss fyrir tilfinningar og væmni. Út með það gamla.

Fótboltaskór
Eftir myndatöku fóru skórnir í tunnuna, almennt sorp en ekki endurvinnslutunnu.

Í staðin nýtt líf, nýtt samband, stærri takkar og vonandi góðar stundir saman í sólinni að elta og spyrna í tuðru sem þenur netmöskva við gífurleg fagnaðarlæti. Skórnir munu rembast við að veita mér hælsæri og blöðrur til að byrja með en ég mæti vopnaður vaselíni og læt ekki bugast.

Fótboltaskór
Nýju skórnir eiga framtíðina fyrir sér, sakleysið uppmálað.

Keypti mér semsagt nýja takkaskó, kostuðu 7990 krónur í Sports Direct. Ég ætlaði að kaupa svarta og bláa en fann bara stakan skó sem smellpassaði, þetta var eina skósparið af þessari tegund í minni stærð (8us, 7.5uk, 41.3). Og svo eru þeir ógeðslega flottir.

dagbók
Athugasemdir

Matti - 09/08/15 22:21 #

Ég ætti kannski að fara út í tunnu og bjarga reimunum. Ekkert að þeim!

Bragi - 10/08/15 10:27 #

Keypti mér svona í síðustu viku. Svarta. Með minni tökkum. Ég fór í gegnum hina á þriðjudaginn.

Matti - 10/08/15 11:53 #

Eftir að hafa verið á gervigrasskóm með nær engum tökkum síðustu fimm ár ákvað ég að prófa núna stærri takka. Sjáum hvernig það kemur út.

Matti - 11/08/15 14:12 #

Jæja, nýju skórnir eru ekki lengur hreinir og fínir - skarta nú svörtum rákum eftir gúmmíið á gervigrasinu í Safamýri.

Skórnir virkuðu mjög vel og ég er ekki frá því að ég hafi verið örlítið fljótari í sprettunum í dag - a.m.k. leið mér þannig.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)