Örvitinn

Vistaskipti

Föstudagurinn var síðasti dagurinn minn hjá Trackwell. Í fyrramálið mæti ég til vinnu á nýjum stað hjá Handpoint.

Þetta er óskaplega skrítið. Ég er búinn að vera hjá Trackwell í rúman áratug, byrjaði um mitt ár 2005, hafði verið þar áður árin 1998-2000 þegar fyrirtækið hét Stefja. Það er því óhætt að segja að Trackwell hafi verið mjög stór hluti af lífi mínu og samstarfsfólkið skipi stóran sess í því. Eftir áratug er það að hætta á vinnustað eins og að yfirgefa fjölskyldu!

hópmynd á jökli
Nokkrir starfsmenn Stefju og fjölskyldur á jökli í júlí 2000, um það leyti sem ég hætti þar.

Ég hef unnið með fjölmörgum hjá Trackwell síðasta áratug, margir hættu á undan mér þó starfsmannavelta hafi reyndar ekkert verið mjög mikil.

Önnur hópmynd á jökli
Starfsmenn Trackwell á jökli í febrúar 2008.
Það má segja að það hafi verið kominn tími á þetta. Eftir áratug var það annaðhvort að prófa eitthvað annað núna eða leggja drög að því að vera á sama stað næstu áratugi.
Hópmynd og eldfjall
Starfsmenn Trackwell í maí 2010 með Eyjafjallajökulsgos í bakgrunni.
Það hafði sennilega eitthvað að segja að ég fór í nám með vinnu síðustu ár, kláraði loks BSc gráðuna og bætti meistaragráðu við. Ég hafði óskaplega gott af því, bætti við þekkingu og jók áhugann á faginu.
trackwell_2012.jpg
Í Grindavík í október 2012
Ég hafði hugsað um að líta í kring um mig en var ekki byrjaður að leita. Stundum koma hlutirnir til manns. Ég kíkti í viðtal hjá erlendu stórfyrirtæki í bransanum í júní en það kom ekkert út úr því.
djamm
Árshátíð í Eyjum 2013
Kveð Trackwellfólk með söknuði. Geri ráð fyrir að hitta þau af og til, vona það að minnsta kosti.
Speglun af kúlu
Keiluhöll, júní 2014
Á morgun hefst svo eitthvað nýtt, ég þarf að koma mér inn í nýja hluti og læra ýmislegt. Er bara spenntur, hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíða.
Að drekka Guinnes
Guinnes safnið í Dublin, október 2014
Fór í gegn um myndasafnið og komst að því að ég á dálítið mikið af djammmyndum með Trackwell fólki síðasta áratug. Sá líka að við höfum öll "þroskast" óþarflega mikið á þessum árum.
Hópmynd
Félagsheimilið Hlaðir, maí 2015
Minni að lokum á, ef Trackwell fólk ætlar eitthvað að tala illa um mig, að ég á enn vídeóupptökur úr kjallaranum í Dublin ;-) (já, ég var að skoða - þetta var geðveikt! Ég var að spá í að birta smá vídeó en það væri ekki við hæfi)

dagbók
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)