Örvitinn

Af Örvita og afturhlera

andlit
Ég snappaði meðan ég lá og beið eftir lækni.
Eftir vinnu á miðvikudag ætlaði Örvitinn að skella sér í Bónus með eiginkonunni. Þau ákváðu að koma við í Bónus við Smiðjuveg sem er miðja vegu milli vinnustaðar Örvitans og heimilis. Fyrst keyrðu þau framhjá Bónus við Nýbílaveg en þar er oft erfitt að fá stæði og því var ekið áfram.

Eiginkona Örvitans strunsaði inn í Bónus meðan hann sótti umhverfisvænu fjölnota innkaupapokana úr skottinu - enda eru Örvitinn og eiginkonan með eindæmum meðvituð um umhverfið, nota helst ekki einnota plastpoka og flokka sorp eins og þeim sé borgað fyrir það (en auðvitað er raunin sú að þau borga fyrir það).

Hvað um það, Örvitinn greip pokana og vesenaðist við að troða þeim öllum í einn, beygði sig við bílinn, hélt á pokum með vinstri hendi og teygði sig í afturhlerann á jeppanum með hægri. Lokaði Örvitinn næst hleranum af þokkalega afli á sama tíma og hann reis upp. Með þessum tilfærslum tókst Örvitanum að skella hleranum beint á kollinn á sjálfum sér og opna myndarlegan skurð. Ég Örvitinn stóð vankaður eftir og fann blóðið fossa niður andlitið, fram á nef.

Fólk hegðar sér undarlega í svona aðstæðum, fólk sem er að kafna á að til að fara afsíðis og drepast þar, og Örvitinn er eins og fólk er flest - svona yfirleitt. Hann sneri sér því undan, hallaði sér fram þannig að blóðið flæddi á stéttina en ekki fötina hans og fálmaði eftir snjallsímanum til að hringja í eiginkonuna sem var byrjuð að versla af miklum móð. Á meðan ók fólk framhjá og annað gekk úr búðinni að bílnum sínum ásamt börnum. Það hringdi út í fyrstu tilraun en að lokum svaraði eiginkonan og kom til bjargar vopnuð eldhúspappír. Skutlaði Örvitanum á slysó þar sem þrjú spor voru saumuð eftir hóflega bið. Kostaði bara 5900 krónur og sært stolt.

Þegar ég hugsa um þetta eftirá og spái í hvað þetta var aulalegt - þá má segja að ég Örvitinn hafi sloppið vel. Sumir gera eitthvað aulalegt og jafna sig aldrei á því - gleyma sér við akstur eða hjólareiðar. ÉgÖrvitinn er afskaplega meðvitaður þegar hann lokar afturhleranum þessa dagana en gleymir því fljótlega. Tókst að eiga bílinn í meira en níu ár áður en hann ákvað að skalla hann hressilega.

dagbók
Athugasemdir

Gylfi Freyr - 10/11/15 23:13 #

Eru þetta fyrstu merki um illeisma eða viðbrögð við einhverju öðru?

Matti - 11/11/15 09:57 #

Ég á það til að blogga um mig í þriðju persónu ef ég geri eitthvað nógu aulalegt - t.d. þegar ég kaupi rangan ost eða fer í vitlausan bíósal. Örvitinn er miklu meiri klaufi en ég og mun oftar utan við sig.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)