Örvitinn

Secret Solstice - fyrsti dagur

Sister sledge á sviði
Sister Sledge fengu krakka upp á svið til að dansa.
Við hjónin erum á Secret Solstice þetta árið. Kíktum við í gær og fönguðum stemminguna. Ætluðum að mæta klukkan fimm en okkur seinkaði aðeins þannig að við misstum af fyrstu atriðum. Það var engin röð þegar við mætum og við vorum búin að sækja armböndin á miðvikudag. Röltum um svæðið og reyndum að átta okkur á staðháttum, kortið í Secret Solstice appinu var ekkert sérlega gagnlegt. Sáum einhverja danstónlist í gangi en vorum ekki á örvandi þannig að við röltum áfram!

Sáum Snorra Helgason spila, það var fínt þó Gyða saknaði einhverra laga sem hún hafði verið að hlusta á. Við náðum örlitlu af Tusk en mér var orðið svo kalt að við ákváðum að skjótast og sækja föt sem ég var með í vinnunni, ég hafði klætt mig miðað við veðrið dagana á undan! Vorum eiginlega hætt við að yfirgefa svæðið þegar við sáum að það voru búnar að myndast mjög langar raðir, en röðin til að fá armbönd var töluvert lengri en röðin inn á svæðið þannig að við tókum sénsinn. Biðum svo ekkert mjög lengi í röðinni þegar við komum til baka.

Sáum Diktu sem tók alla sína helstu slagara og voru mjög góðir. Röltum að stóra sviðinu og ætluðum að snappa Gísla Pálma sem brandara fyrir dæturnar en hann lét bíða eftir sér og var ekki byrjaður korteri eftir auglýstan tíma, þannig að við slepptum honum. Heyrðum hann svo mæta á svæðið þegar við vorum farin í burtu.

Kíktum á Hjaltalín sem okkur fannst ekkert rosalega góð - eins og við höfum nú verið hrifin af þeirri hljómsveit. Mér fannst hljóðið eitthvað skrítið og var ekki alveg viss hvort Högni væri að grínast þegar hann spilaði á gítarinn - en hvað veit ég um tónlist!

Eftir Hjaltalín sáum við leynigestina á aðalsviðinu. Það var svosem búið að leka út að Sister Sledge myndi mæta á svæðið þannig að það var ekkert óvænt. Þær voru mjög skemmtilegar, hljómsveitin dúndurþétt og náði að redda raddleysi systranna sem stunduðu hljómuðu ekki mjög hátt. Stemmingin var frábær og mikið dansað.

GusGus voru svo síðastir á svið, leystu af St Germain sem skilaði sér ekki í flug! GusGus eru flottir og stemmingin var fín, ekkert meira um það að segja svosem! Við fórum heim að þessu loknu rétt fyrir miðnætti.

Það er mjög fjölbreyttur hópur gesta á svæðinu, fullir krakkar og miðaldra foreldrar, hipsterar með skegg og fullt af útlendingum.

Það er rosalega mikið reykt á svæðinu og ekki endilega bara tóbak (rafrettur og annað). Eiginlega frekar áberandi mikið reykt og nú veit ég alveg að fjölmargir reykja á djamminu, þetta var meira! Auðvitað var svo drykkja en ekkert meira en ég gerði ráð fyrir, stemmingin var jákvæð í kringum okkur og við urðum ekki vör við slagsmál eða leiðindi.

Ýmiskonar matur er til sölu, við versluðum í Humarvagninum og fengum okkur súpu og hálfa samloku. Gyða var ánægð með súpuna og samlokan var fín en ég tímdi ekki að kaupa heila. Þetta dugði svo líka alveg.

Í kvöld er það Radiohead, við ætlum að mæta tímanlega í Laugardalshöll til að komast alveg örugglega að.

Ég tók nokkrar myndir og myndbönd á símann, setti ásamt samantekt af snöppum í myndaalbúm. Nenni ekki að taka myndavélina með mér á svæðið.

tónlist
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)