Örvitinn

Secret Solstice - dagur tvö

Radiohead í Laugardalshöll
Radiohead í Laugardalshöll
Við förum ekki mjög oft í strætó hjónin en gerðum það í gær þegar við mættum á annan dag Secret Solstice hátíðarinnar. Fínt að taka strætó, tólfan stoppar rétt hjá Bakkaseli, vagn sautján bíður í Mjódd og stoppar beint fyrir ofan Laugardalshöll.

Við röltum inn á svæðið og strax í fyrsta tjaldi heyrðum við áheyrilega tónlist. Gyða þurfti þó kaffi þannig að við sóttum bolla handa henni áður en við kíktum aftur í tjaldið og hlustuðum á Lefty Hooks & The Right Thingz sem spiluðu virkilega skemmtilegt reggí og rapp á íslensku og ensku. Mjög óvænt og ánægjulegt að ramba á skemmtilega tónleika með hljómsveit sem maður þekkir ekki og eitt af því sem gerir svona tónlistahátíðir svo frábærar.

Lefty Hooks og hljómsveit
Lefty Hooks & the right tingz

Talandi um kaffið, Gyða keypti fyrsta kaffibollann af tveim stelpum frá Kaffitár sem löbbuðu með kaffivagn um svæðið. Þær höfðu farið á tjaldsvæðið og sögðu að útlendingarnir hefðu verið afskaplega ánægðir að sjá þær þegar þeir skriðu frekar þreytulegir úr tjöldunum.

Næsta atriði sem við sáum var Lily of the Valley, fjölmenn og áheyrileg hljómsveit. Minnti örlítið á OMAM á köflum sem er ekkert neikvætt.

Máni Orrason var næstur á stóra sviðinu og var mjög flottur, virkilega fín tónlist hjá honum. Ég spái því að hann verði heimsfrægur.

Máni Orrason
Máni Orrason
Sáum Landaboi$ örstutt í rapptjaldinu þar sem þeir gjörsamlega trylltu ungdóminn. Kannski ekki minn tebolli en stemmingin var svakaleg.

Vorum ekki í stuði fyrir blús þ.a. við hlustuðum ekki á Paul Brown, röltum yfir að Gimli og sáum Þórunni Antontíu og Bjarna gítarleikara. Þau mættu aðeins og seint, héldu að þau ættu að byrja klukkutíma seinna. Settið þeirra var afskaplega huggulegt, eins og þau, afskaplega huggulegt fólk.

Næst á dagskrá hjá okkur var bara rölt, kvöldmatur og rúmlega klukkutíma röð inn í Laugardalshöll. Keyptum hamborgara frá Hamborgarafabrikunni, þeir voru fínir. Borðuðum í röðinni og skoluðum niður með gin og tónik. Næsta tjald við biðröðina blastaði frekar einhæfri danstónlist en tíminn var samt nokkuð fljótur að líða, alveg þar til húsið var opnað og VIP röðinni var hleypt inn á undan almenningi - þá stóð tíminn í stað!

Við vorum nokkuð framarlega og fljótlega varð ansi stappað. Fufamu mættu tímanlega klukkan átta og renndu í gegn um settið sitt, hafa aldrei spilað fyrir jafn marga. Hljómaði alveg ágætlega hjá þeim.

Radiohead mættu svo á svið á mínútunni klukkan hálf tíu. Morgunblaðið skrifaði að þeir hefðu látið fólk bíða eftir sér en það er auðvitað þvaður, þeir mættu á auglýstum tíma. Spiluðu svo í tvo klukkutíma og tuttugu mínútur og voru gjörsamlega frábærir. Voru klappaðir upp tvisvar og tóku Karma police og Creep í seinna uppklappi. Þetta var heitt, sveitt, stappað og sturlað. Ótrúlega góðir tónleikar.

Dálítið mikið af ösnum að troða sér framfyrir, þetta er ekki flókið, ef maður mætir ekki snemma á svona stappaða tónleika verður maður að vera aftar í salnum. Svo tók ég að mér að vera leiðinlegi gaurinn og lét einn náunga drepa í sígarettunni, laug þegar hann spurði hvort ég væri í gæslunni! Einhverjir útlendingar í kring um okkur settust niður meðan þeir biðu eftir Radiohead, það er hættulegur leikur þegar salurinn er svona troðfullur. Og svo ég kvabbi undan öðru! Ég tók nokkrar myndir og vídeó en passaði mig alltaf á að vera snöggur að því og vera ekki fyrir öðrum (lyfti símanum ekki hátt á loft, hafði hann í andlitshæð). Aðrir gestir virtust ætla sér að taka tónleikana upp í heild sinni og útlendingur fyrir framan mig var verulega pirrandi, með símann hátt á lofti þannig að fólk fyrir aftan var farið að kvarta, hætti ekki fyrr en síminn hans varð batterílaus. Fólk verður að slaka aðeins á í upptökunum.

Þegar við komumst úr höllinni var fullt af fólki fyrir utan en minna um bjórsölu, ég hefði alveg þegið einn ískaldan. Við röltum frá í fallegu sólarlagi, útlendingarnir fengu þar eitthvað fyrir peninginn, ætluðum að reyna að ná leigubíl en það vorum ekki ein um þá hugmynd. Voru svo heppin að rekast á Helga, fyrrverandi vinnufélaga minn frá Trackwell, sem var að bíða efir Sóley sem var líka á tónleikunum. Hann bauð okkur far heim sem við þáðum með þökkum.

sólsetur

Vorum vægast sagt uppgefin þegar við komum heim, alveg búin í fótunum!

Nokkrar símamyndir, myndbönd og snöpp!.

tónlist
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)