Örvitinn

Forréttindi ríkjandi stéttar

Klettur, strönd
Þessi klettur í Skarðsvík á Snæfellsnesi er hlutlaus, sjálfgefinn og eftirsóknarverður fyrir alla

„Forréttindi ríkjandi stéttar hafa jafnan verið fólgin í því að heimsmynd hennar, lífsviðhorf og lifnaðarhættir eru álitin hlutlaus, sjálfgefin og eftirsóknarverð fyrir alla.“

Séra Bjarni Karlsson skrifaði þetta á Facebook síðu sína og var í alvöru ekki að tala um forréttindi ríkiskirkjunnar á Íslandi heldur meintar "ofsóknir" sem hún verður fyrir af hendi þeirra sem vilja ekki trúboð í leikskóla, grunnskóla eða aðrar opinberar stofnanir. Bjarni og kó eru á því að hinir skelfilegur veraldarhyggjumenn séu svo barnalegir að halda að til sé eitthvað "hlutleysi", sem er bara mýta að þeirra sögn. Þeir virðast sjálfir ekki átta sig á að það væri alveg hægt að tæta kristni og kirkju í spað í skólakerfinu með því að kenna krökkum gagnrýni á hvoru tveggja. Það að gera það ekki er bæði tilraun til hlutleysis og tillitssemi við klerkana og trúað fólk almennt. Það er ekki trúboð gegn kristni að boða ekki kristni! Eins og biskup sér Bjarni bara tvo möguleika; jákvæða umfjöllun um trúarbrögð eða enga umfjöllun (sem hann kallar þöggun) en lítur hjá þriðja möguleikanum, gagnrýninni umfjöllun.

Þá tillitssemi skilur Bjarni sennilega ekki vegna þess að hann telur heimsmynd sína sjálfgefna og eftirsóknaverða fyrir alla. Auðvitað er ekkert verið að banna umfjöllun um trúarbrögð í skólum, höfum það alveg á hreinu. Bjarni veit það vel en kýs að tala með öðrum hætti vegna þess að það hentar honum.

Mér finnst þessi hugsunarháttur ótrúlega merkilegur og finnst vert að rannsaka hann. Hvernig getur forréttindafólk verið svona rosalega blint?

kristni
Athugasemdir

Matti - 22/10/16 11:11 #

Ímyndið ykkur að við myndum fara eftir hugmyndum Bjarna og kó og leik- og grunnskólabörn landsins myndu fá að "smakka á" öllum mögulegum trúarbrögðum.

Þyrfti trúleysi ekki að vera í pakkanum?

Og myndu Bjarni og kó ekki fríka út ef ég og aðrir trúleysingjar mættum í leik- og grunnskóla til að útskýra fyrir börnunum hvað trúarbrögðu eru kjánaleg að okkar mati. Ég get lofað því að það myndi hafa áhrif á heppilega leiðitöm börn.

Við í Vantrú höfum ekki áhuga á að stunda slíkt vegna þess að okkur finnst það siðlaust en í draumaheimi Bjarna væri það bæði nauðsynlegt og um leið algjör óhæfa vegna þess að við værum að ala á fordómum gegn Bjarna og öðru trúfólki með því að segja börnum satt.

Þess vegna er þetta hlutleysi, sem Bjarni heldur að sé ekki til, miklu betra fyrir alla.




ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)