Örvitinn

Menningarnótt 2017

Tjörnin í Reykjavík
Það var afskaplega fallegt og gott veður í Reykjavík í gær.

Menningarnótt byrjaði frekar brösulega hjá okkur. Við ákváðum að verða við ráðleggingum aðstandenda hátíðarinnar og taka strætó í bæinn. Skoðuðum tímatöflur vandlega og röltum út að Seljabraut tímanlega til að taka vagninn klukkan 13:15. Biðum þar ásamt hópi fólks en ekkert bólaði á strætó og samkvæmt strætó-appinu var hann ekki á leiðinni á næstunni. Ég hringdi í þjónustunúmer en gat ekki fengið nánari upplýsingar þar, þannig að rúmlega hálf tvö gáfumst við upp á biðinni (eins og allir aðrir við strætóskýlið). Röltum heim, fórum í bílinn og ókum í Borgartún þar sem við skyldum bílinn eftir.

Ég byrjaði á minni menningu, brá mér á Veðurbarinn og horfði á leik Liverpool og Crystal Palace sem endaði með 1-0 sigri minna manna. Fín byrjun á deginum, spjallaði við vertinn, fékk mér tvo bjóra og hnetur.

Rölti niður Laugarveg eftir leik og hitti stelpurnar sem höfðu skoðað ýmislegt á meðan. Við ráfuðum aðeins um, fengum kleinur í Landsbankanum, nutum sólar á Austurvelli, gengum gegnum Iðnó, skoðuðum miðbæjargötumynd í Ráðhúsinu, sáum víkinga berjast við tjörnina, karókí, Jónas Sig við Bar 11 og fórum svo út að borða með foreldrum mínum og systkynum á Steikhúsinu.

Á Steikhúsinu
Steikhúsið er afskaplega góður staður og ég mæli alltaf með að fólk fari þangað ef því langar í gott nautakjöt.

Fengum fínan mat og einhverja drykki líka.

Eftir mat röltum við öll saman í Listasafn Reykjavíkur og fórum hratt gegnum sýningu Ragnars Kjartanssonar (ég, Gyða, Kolla og Inga María sáum hana um daginn).

Listasafn Reykjavíkur
Ég mæli alveg innilega með sýningu Ragnars Kjartanssonar. Vídeóverkið með hljómsveitinni The National er meðal annars alveg magnaður gjörningur.

Þvínæst var það Arnarhóll, eða réttara sagt, Hverfisgata við Arnarhól. Stóðum þar og hlustuðum á Svölu (sem mér fannst ekki standa undir því að vera næstsíðasta atriði á þessu sviði) og SS Sól. Við vorum eiginlega bara mætt á svæðið til að sjá flugeldasýninguna.

Flugeldar
Ég var auðvitað ekki með þrífót og hefði því ekkert átt að vera að taka myndir af flugeldum en ég ræð ekki við mig!

Og flugeldasýningin var flott í ár, miklu flottari en í fyrra. Hugsanlega skiptir máli að í fyrra vorum við nýkomin frá Spáni þar sem við sáum mjög flotta flugeldasýningu á flugeldahátíð í bænum Blanes og menningarnótt stóðst ekki samanburðinn. Okkur fannst þetta flott þrátt fyrir alla byggingakranana í bakgrunninum.

Biðröð
Breiðholtsbúar bíða eftir strætó.

Röltum svo að BSÍ til að taka strætó heim. Þar var ansi löng bið eftir vagninum í Breiðholt, á meðan við biðum fóru þrír vagnar í Grafarholt og Mosfellsbæ. Okkur þótti biðin frekar undarleg en þetta var svosem ekkert agalegt. Vagninn var auðvitað troðfullur og ég náði ekki að koma mér mjög vel fyrir, var hálf klesstur mestalla leið, en við komumst öll heim að lokum þó leiðin væri óþarflega löng (troðfullur vagn ók samt framhjá Hlemmi).

Ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög duglegur í þetta skipti, sá ekkert sérstaklega mikið en dagurinn var þó afskaplega góður. Það var ekki margt sem heillaði mig á dagskránni og mér fannst dagskrársíða hátíðarinnar ekki gagnleg. Það hlýtur að vera hægt að gera örlítið betur, var ekki ansi gott app um árið þar sem fólk gat séð viðburði út frá staðsetningu og tíma?

dagbók menning
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)