Örvitinn

Þegar lögreglan tefur umferð að óþörfu

Breiðholtsbraut
Pallbíllinn á hægri akrein átti að vera löngu farinn í skoðun, lögreglubíllinn er fyrir framan hann.
Þegar ég var á leið til vinnu rétt fyrir níu í umferð lenti ég í atviki sem ég hef upplifað nokkrum sinnum áður; lögreglan þvældist fyrir umferðinni og olli töfum að ástæðulausu.

Ég var á ljósunum á brúnni á Breiðholtsbraut á leið suður. Þar eru tvær akreinar sem renna svo saman hinum megin við ljósin og því eru flestir ökumenn á hægri akrein, sú vinstri er fyrst og fremst hugsuð til að fleiri bílar komist yfir á ljósunum, þó margir misskilji hana sem spyrnu- eða framúrakstursakrein.

Það var sæmileg röð þegar ég kom að, en ekki það löng að nokkur hætta væri á að ég kæmist ekki yfir á ljósunum. En þegar þau urðu græn gerðist ekkert, allt var stopp á hægri akreininni og ljósin urðu rauð. Bílar færðu sig að lokum yfir á vinstri akreinina og þá mátti sjá hvað hafði gerst. Var það árekstur, aftanákeyrsla á ljósunum? Var þetta bilaður bíll?

Nei, það sem hafði gerst er að fremsti bíll var lögreglubíll en bíllinn fyrir aftan hann var óskoðaður, með endurskoðunarmiða fyrir október á síðasta ári, og því átti lögreglan að sjálfsögðu að taka bílinn úr umferð. En í stað þess að biðja ökumann að keyra kannski tvöhundruð metra áfram og ræða við þá þar, stoppaði löggan bílinn og færði ökumann yfir í lögreglubíl. Lokaði þar af leiðandi aðal akreininni á ljósunum úr Breiðholti í suðurátt á Reykjanesbraut.

Eins og ég sagði, þá hef ég séð álíka vitleysu áður hjá lögreglunni og skil einfaldlega ekki hugsunarleysið. Það er alveg hægt að gera hvoru tveggja, stoppa ökumenn og greiða fyrir annarri umferð. Það eina sem þarf er smá tillitssemi.

kvabb
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)