Örvitinn

Austur-indíafjelagið

Gyða á Austur indía
Við fengum nægan mat!
Í tilefni dagsins fórum við hjónin út að borða í gærkvöldi. Og þar sem árin voru tuttugu lá beinast við að fara á Austur-indíafjelagið sem sá um veitingarnar í veislunni þegar við létum pússa okkur saman.

Við höfum farið dálítið oft á þennan stað enda í uppáhaldi hjá okkur en nú var nokkuð langt liðið síðan við fórum síðast.

Ég minntist á það þegar ég pantaði borðið að við værum að fagna þessum áfanga og við fengum afskaplega fínt borð og freyðivínsglös í boði hússins. Takk kærlega fyrir það.

Við fengum okkur forrétti, Paneer tukda (2.495.-) og hörpuskel cafreal (2.995 kr.) og sitthvorn aðalréttinn. Forréttir voru góðir, sérstaklega osturinn. Ég mæli með honum.

Ég hef hingað til alltaf fengið mér kjötrétt úr tandoori ofninum en ákvað að breyta útaf vanananum í gærkvöldi þegar ég sá lambaskanka á matseðlinum Raan manjarabad (5.895.-), Gyða pantaði sér hálfan kjúkling á beini Tandoori murgh (4.895.-). Með þessu fengum við okkur hvítlauksnaan, hrísgrjón og rhaita. Og svo flösku af hvítvíni Petit chablis Simonnet febvre (8.490.-). Við slepptum eftirréttum.

Maturinn var geggjaður. Við höfum prófað flesta Indverska (og þar í kring) staði í Reykjavík (og fleiri víðar) og enn finnst okkur enginn toppa Austur-indíafjelagið. Mér hefur alltaf þótt naan frá Austur-indíafjelaginu besta naan brauð í heimi og hef enn ekki fundið neitt jafn gott. Lambaskankinn var vel út látinn, kjötið frábært og kryddsósan alveg rosalega bragðgóð.

Við vorum bæði pakksödd og sæl eftir matinn og þótti þetta hverrar krónu (27.055.-) virði.

veitingahús