Garmin Fenix 6 saphire Titanum
Eignaðist úr um daginn eftir höfðinglega gjöf frá vinnunni sem ég skipti upp í þetta Garmin úr (þökk sé frábærri þjónustu Símans). Mig hafði langað í þetta úr í dálítinn tíma en fannst ég ekki geta réttlætt kaup, en með þessari gjöf varð þetta léttari biti*
Í dag fékk ég leðuról í afmælisgjöf frá stelpunum. Mér finnst ólin passa ansi vel með úrinu. það er afar einfalt að skipta um ól, þannig að ég get notað ól við hæfi, leðuról svona dagsdaglega en hina í sportinu.
Það er margt afar sniðugt við þetta úr. Það er ekki jafn mikið snjallúr og snjallúrin frá Apple, Samsung og öðrum, en tengist þó simanum og sendir tilkynningar, jafnvel hægt að svara símtölum og sms beint úr úrinu. Ég prófaði að hafa tilkynningar frá flestum öppum í símanum en var fljótur að slökkva á flestu, hef núna bara símtöl og sms meldingar.
Eitt af því sem mér finnst frábært er að ég þarf ekki lengur að hafa símann með í ræktinni; hlusta á Spotify með úrinu og skrái sett og þyngdir líka með því og úrið telur endurtekningar og greinir æfingar alveg þokkalega, þekkir hnébeygur, réttstöðulyftur og bekkpressu! Símaleysi gerir það að verkum að minni tími fer í hangs á æfingum, ég á það nefnilega til að hvíla aðeins of lengi milli setta ef ég er að skoða eitthvað "merkilegt" á netinu.
Ég mátaði stærstu útgáfuna af úrinu, 6X, í Garmin búðinni, en fannst úrið aðeins of stórt, ég er með frekar netta úlnliði.
*Af hverju er ég eiginlega að afsaka mig hér?
Matti - 30/11/19 11:28 #
Ég gleymdi alveg að nefna að nú borga ég næstum alltaf með úrinu. Það er afar handhægt, eiginlega þægilegra en að borga með símanum, sem er þægilegra en að borga með kortinu, sem er svo þægilegra en að borga með peningum!
Hvar endar þetta eiginlega?