Örvitinn

Verslunarferð og verkstæði

Útsýni
Útsýnið af göngubrú yfir Breiðholtsbrú þegar ég labbaði heim úr ræktinni í gær.
Við hjónin fórum í matvörubúð í kvöld um hálf sjö, vorum ekkert búin að hamstra! Leiðin lá í Krónuna Lindum.

Þar er talið inn eins og í öðrum búðum, við þurftum ekkert að bíða. Þetta er stór búð og því var nóg pláss og tveggja metra reglan virt. Það er búið að laga sjálfsafgreiðslukassana, þeir haga sér nú bara nokkuð vel þó fólk byrji á því að setja poka á pokasvæðið. Reyndar einhver draugur í tækinu sem stakk upp á því af og til að við flettum ímyndaðri vöru upp en þetta gengur mun betur en áður finnst mér.

Við keyptum það helsta, mjólk, brauð, álegg og frosnar pítsur. Það er enginn vöruskortur!

Ég fór á skrifstofuna í dag, sat þar á fjarfundi fyrir hádegi. Hefði alveg eins getað verið heima en það er ágætt að skipta um umhverfi og hitta þá fáu kollega sem mæta. Spilaði líka smá pool!

Fór með bílinn á verkstæði í morgun. Fékk símtal sem ég gat ekki túlkað öðruvísi en að ekki hefði í raun verið gert við það sem þurfti að laga (villuboð hreinsuð) en í staðin stungið upp á að laga allt annað fyrir ansi mikinn pening. Ég nenni þessu alls ekki. Sótti bílinn ekki, veit ekkert með framhaldið. BL má bara hafa hann! Ætla hvort eð er að vinna heima á morgun.

Í gær sendi ég ábendingu til borgarinnar þar sem göngustígur að göngubrúnni yfir Breiðholtsbraut er ekki á réttri slóð, hefur verið rudd yfir grasið sem er farið að skemmast. Fékk svar og skilaboðum mínum var komið áleiðis. Ég bíð spenntur að sjá hvort þetta verður lagað á næstu dögum og göngustígurinn sjálfur ruddur. Já, ég er þessi gaur!

dagbók
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)